Fylgstu með skærum en hægfara Tárítum

Sævar Helgi Bragason 29. okt. 2015 Fréttir

Í lok október og snemma í nóvember full ástæða til að hafa augun opin fyrir skærum en hægfara stjörnuhröpum úr Táríta loftsteinadrífunni

  • Táríti. Mynd: Berglind H. Helgadóttir
Táríti 28. október 2005. Mynd: Hiroyuki Iida
Táríti 28. október 2005. Mynd: Hiroyuki Iida

Í október og nóvember stendur loftsteinadrífan Tárítar yfir. Tárítar eru ólíkir öllum öðrum loftsteinadrífum. Hún skiptist í tvennt: Suður Táríta sem standa yfir frá október og fram í byrjun nóvember og Norður Táríta ssem standa yfir frá seinni hluta október og fram í miðjan nóvember. Drífan á rætur að rekja til halastjörnunnar 2P/Encke.

Tárítar nálgast Jörðina aftan frá. Fyrir vikið er drífan álíka kröftug á morgnana og kvöldin. Auk þess ferðast stjörnuhröpin óvenju hægt yfir himininn. Tárítar eru líka þekktir fyrir sérlega björt stjörnuhröp og vígahnetti sem margir taka eftir.

Árið 2015 gera stjörnufræðingar ráð fyrir að Jörðin fari í gegnum tiltölulega þéttan agnastraum. Besti tíminn er talinn vera milli loka október og fram til 10. nóvember eða svo.

Til að fylgjast með er best að horfa í átt að Nautsmerkinu. Ef þú sérð hægfara stjörnuhrap í október eða nóvember, kannaðu þá hvort það virðist stefna frá Nautinu.

Árið 2005 komust Tárítar í fréttir víða um heim vegna þess hve margir bjartir vígahnettir sáust. Einnig virðist að minnsta kosti einn hafa rekist á næturhlið tunglsins 7. nóvember það ár. Myndaðist við það blossi sem náði 7. birtustigi og kom fram á myndum.

Reiknað var út ísboltinn sem olli blossanum hafi sennilega verið 12 cm breiður og rekist á tunglið á 27 km hraða á sekúndu. Úr varð líklega 3 metra breiður og 40 cm djúpur gígur.

Stjörnumerkið Nautið á morgunhimninum í lok október 2015
Tárítar draga nafn sitt af stjörnumerkin Nautinu, þar sem stjörnuhröpin virðast stefna frá Nautsmerkinu. Nautið er hátt á lofti á morgnana í október og nóvember. Mynd: Stjörnufræðivefurinn/Stellarium

Mynd efst: Berglind H. Helgadóttir

Tengt efni

- Sævar Helgi Bragason