Sprengistjarna í Messier 82

Sævar Helgi Bragason 23. jan. 2014 Fréttir

Sprengistjarna hefur fundist í Messier 82, nálægri vetrarbraut, sem ætti að sjást nokkuð auðveldlega með áhugamannasjónaukum

  • Sprengistjarnan í Messier 82 á mynd sem tekin var að kvöldi 21. janúar 2014. Mynd: UCL / University of London Observatory / Steve Fossey / Ben Cooke / Guy Pollack / Matthew Wilde / Thomas Wright

Þriðjudagskvöldið 21. janúar fannst sprengistjarna í vetrarbrautinni Messier 82 sem er í aðeins tæplega 12 milljón ljósára fjarlægð frá Jörðinni í stjörnumerkinu Stórabirni. Sprengistjarnan er sú nálægasta sem sést hefur frá árinu 1987, en þá sást sprengistjarna í Stóra Magellansskýinnu, sem er í aðeins 160.000 ljósára fjarlægð frá Jörðinni. Sprengistjarnan er of dauf til að sjást með berum augum en hún sést leikandi í gegnum litla áhugamannasjónauka.

Sprengistjarnan, sem ber heitið SN 2014J, fannst með 14 tommu stjörnusjónauka í Lundúnum, þriðjudagskvöldið 21. janúar síðastliðinn. Stjörnufræðingurinn Steve Fossey var þá að sýna hópi nemenda við University College London vetrarbrautina í gegnum sjónaukann þegar hann kom auga óvenju bjarta stjörnu við annan enda skífu hennar og hann kannaðist ekki við að hafa séð áður. Þegar betur var að gáð kom í ljós að um sprengistjörnu var að ræða.

Litrófsgreining sem gerð var á ljósi hennar strax í kjölfarið sýndi að um var að ræða sprengistjörnu af gerð Ia. Mælingarnar sýndu líka að leifarnar eru að þenjast út með um 20.000 km hraða á sekúndu og að ljósið hefur roðnað vegna ryks á milli sprengistjörnunnar og okkar.

Sprengistjarnan í Messier 82. Mynd: E. Guido, N. Howes, M. Nicolini
Samanburður á vetrarbrautinni Messier 82 fyrir og eftir að stjarnan sprakk. Fyrri myndin var tekin í nóvember 2013 en sú síðari 22. janúar 2014.  Mynd: E. Guido, N. Howes og M. Nicolini

Sprengistjörnur af gerð Ia verða líklega til þegar hvítir dvergar springa. Hvítir dvergar eru leifar stjarna á borð við sólina okkar. Ef þær hringsóla um aðra stjörnu, soga þær til sín efni frá förunautnum. Smám saman vex massi hvíta dvergsins uns hann fer yfir tiltekin mörk og springur hann þá. Einnig er möguleiki á að sprengistjarna af þessu tagi verði til við samruna tveggja hvítra dverga.

Sprengistjörnur af gerð Ia eru sérstaklega mikilvægar í nútíma stjarnvísindum. Þær eru staðalkerti sem þýðir að hægt er að nota þær til að gera mjög áreiðanlegar fjarlægðamælingar í alheiminum. Á tíunda áratug 20. aldar notuðu þrír hópar stjörnufræðinga sprengistjörnur af gerð Ia til að mæla útþenslu alheimsins og komust þá að því, að útþenslan fer vaxandi vegna einhvers óþekkt krafts sem hefur verið kallaður hulduorka.

Fyrsta íslenska ljósmyndin af sprengistjörnunni í Messier 82. Jón Sigurðsson, stjörnuáhugamaður á Þingeyri, tók myndina að kvöldi 23. janúar 2014. Mynd: Jón Sigurðsson
Fyrsta íslenska ljósmyndin af sprengistjörnunni í Messier 82. Jón Sigurðsson, stjörnuáhugamaður á Þingeyri, tók myndina að kvöldi 23. janúar 2014. Mynd: Jón Sigurðsson

Messier 82 er í aðeins 12 milljón ljósára fjarlægð frá Jörðinni. Nálægðarinnar vegna eru til ótal myndir af henni, þar á meðal mjög nákvæmar myndir frá Hubblessjónaukanum sem munu koma til með að gagnast í rannsóknum á sprengistjörnunni. Sprengistjarnan í Messier 82 er ennfremur nálægasta sprengistjarna af gerð Ia sem sést hefur frá árinu 1936. Stjörnufræðingar á norðurhveli munu því fylgjast grannt með þróun hennar næstu vikur.

Messier 82 er í stjörnumerkinu Stórabirni (Karlsvagninum) svo auðvelt er að finna hana á himninum yfir Íslandi. Áhugasamir geta stuðst við þetta kort. Birtustig sprengistjörnunnar er +11 sem þýðir að útilokað er að sjá hana með berum augum, en hún ætti að sjást leikandi með góðum áhugamannasjónaukum. Messier 82 er einnig kölluð Vindillinn vegna þess að hún minnir á vindling séð í gegnum sjónauka.

stjörnukort, stjörnumerki, Stóribjörn
Kort af stjörnumerkinu Stórabirni. Staðsetning Messier 82 er merkt á kortið.

Tenglar

Tengiliður

Sævar Helgi Bragason
Stjörnufræðivefnum
Farsími: +354-896-1984
Tölvupóstur: [email protected]