Hubble tekur litríka mynd af þróunarsögu alheims

Sævar Helgi Bragason 03. jún. 2014 Fréttir

Stjörnufræðingar hafa útbúið nákvæmustu og litríkustu myndina hingað til af þróunarsögu alheimsins

  • Hubble Ultra Deep Field 2014

Stjörnufræðingar hafa með hjálp Hubble geimsjónauka NASA og ESA útbúið nákvæmustu myndina hingað til af þróunarsögu alheimsins — mynd sem jafnframt er eina sú litríkasta sem Hubble hefur tekið. Myndin er hluti af rannsóknarverkefni sem kallast Ultraviolet Coverage of the Hubble Ultra Deep Field (UVUDD) og snýst um að rannsaka myndun stjarna og vetrarbrauta.

Stjörnufræðingar hafa lengi vitað mýmargt um myndun stjarna í nálægum vetrarbrautum, þökk sé útfjólubláum geimsjónaukum eins og Galex gervitungli NASA sem aflaði gagna milli áranna 2003 og 2013. Þökk sé ljósmyndum Hubbles af nær-innrauðu og sýnilegu ljósi höfðu stjörnufræðingar líka rannsakað stjörnumyndun í fjarlægustu vetrarbrautunum sem við sjáum. Slíkar vetrarbrautir eru frumstæðar frá okkar sjónarhóli séð, vegna þess hve langt er liðið frá því að ljósið frá þeim lagði af stað til okkar.

Stjörnufræðinga skorti hins vegar tilfinnanlega gögn um myndun stjarna í vetrarbrautum í 5 til 10 milljarða ljósára fjarlægð frá okkur — frá því tímabili þegar flestar stjörnur urðu til í alheiminum. Gögn vantaði um heitustu, massamestu og yngstu stjörnurnar frá þessu tímabili, sem gefa frá sér útfjólublátt ljós, og fyrir vikið var stórt gat í þekkingu okkar á þróunarsögu alheimsins.

Milli áranna 2004 og 2009 tóku stjörnufræðingar margar myndir af sama svæðinu á himinhvolfinu í sýnilegu og nær-innrauðu ljósi í verkefni sem kallast Hubble Ultra Deep Field (HUDF). Nú hefur útfjólubláu ljósi verið bætt við HUDF og nær myndin því yfir alla þá liti sem Hubbe getur greint, alla leið úr útfjólubláu ljósi yfir í nær-innrautt. Útkoman er mynd sem tekin var á 841 hringferð Hubbles um Jörðina. Á henni eru 10 000 vetrarbrautir og sjást þær fjarlægustu aðeins nokkur hundruð milljón árum eftir Miklahvell.

Með því að bæta útfjólubláum mælingum við Hubble Ultra Deep Field hafa stjörnufræðingar nú fengið miklu betri gögn um stjörnumyndunarsvæði í fjarlægum vetrarbrautum. Mælingarnar gera stjörnufræðingum kleift að sjá hvaða vetrarbrautir eru að mynda stjörnur og hvar þær eru að myndast í þeim. Þannig geta stjörnufræðingar smám saman fundið út hvernig vetrarbrautir eins og sú sem við búum í uxu úr litlum söfnum heitra stjarna í þau risavöxnu kerfi sem þau eru í dag.

Lofthjúpur Jarðar síar burt mestan hluta útfjólubláa ljóssins, svo mælingar af þessu tagi er aðeins hægt að gera í geimnum með sjónaukum eins og Hubble. Rannsóknir á útfjólubláu ljósi eru sérstaklega mikilvægar fyrir skipulag rannsókna með James Webb geimsjónaukanum í framtíðinni. Nú um stundir er Hubble nefnilega eini sjónaukinn sem getur aflað þeirra útfjólublárra gagna sem stjörnufræðingar þurfa að nota með innrauðum mælingum James Webb.

Hubble Ultra Deep Field 2014 myndin er sett saman úr ljósmyndum sem teknar voru milli áranna 2003 og 2012 með Advaned Camera for Surveys og Wide Field Camera 3 á Hubblessjónaukanum.

Hubble Ultra Deep Field svæðið er í stjörnumerkinu Ofninum á suðurhveli himins. Það er aðeins 2,4 bogamínútur á breidd, eða um það bil 1/130 af meðalflatarmáli fulls tungls á himinhvolfinu.

Mynd: NASA; ESA, H. Teplitz og M. Rafelski (IPAC/Caltech), A. Koekemoer (STScI), R. Windhorst (Arizona State University) og Z. Levay (STScI)

Tengiliðir

Sævar Helgi Bragason
Háskóli Íslamds
Reykjavík, Ísland
Farsími: 896-1984
Tölvupóstur: [email protected]

Tengdar myndir

  • Hubble Ultra Deep Field 2014Stjörnufræðingar hafa með hjálp Hubble geimsjónauka NASA og ESA útbúið nákvæmustu myndina hingað til af þróunarsögu alheimsins — mynd sem jafnframt er eina sú litríkasta sem Hubble hefur tekið. Myndin er hluti af rannsóknarverkefni sem kallast Ultraviolet Coverage of the Hubble Ultra Deep Field (UVUDD) og snýst um að rannsaka myndun stjarna og vetrarbrauta.