Sjáaldrið í auga Júpíters

Ganýmedes varpar skugga á Stóra rauða blettinn

Sævar Helgi Bragason 28. okt. 2014 Fréttir

Í apríl árið 2014 náði Hubble glæsilegri mynd af skugganum sem Ganýmedes varpaði á Stóra rauða blettinn

  • Sjáaldrið í auga Júpíters. Ganýmedes varpar skugga á Stóra rauða blettinn

Hinn 21. apríl árið 2014 tók Hubble geimsjónauki NASA og ESA þessa glæsilegu mynd af gasrisanum Júpíter, stærstu reikistjörnunni í sólkerfinu okkar. Á myndinni sést kolsvartur skugginn sem Ganýmedes, stærsta tungl Júpíters og jafnframt stærsta tungl sólkerfisins, varpar á Stóra rauða blettinn á Júpíter.

Hubble geimsjónaukinn hefur undanfarin ár verið notaður til að fylgjast með breytingum sem orðið hafa á útliti Stóra rauða blettsins á Júpíter, risastormi sem geysað hefur í áratugi og líklega aldir. Bletturinn er í dag um það bil 16.500 km í þvermál og því mun stærri en Jörðin. Athuganir frá Jörðinni hafa hins vegar leitt í ljós að bletturinn hefur skroppið töluvert saman síðastliðna áratugi.

Júpíter hefur að minnsta kosti 67 fylgitungl, þar af fjögur stór sem nefnast Íó, Evrópa, Ganýmedes og Kallistó eða Galíleótunglin. Þegar tunglin ganga fyrir sólina frá Júpíter séð varpa þau skugga á reikistjörnuna, rétt eins og Máninn varpar skugga á Jörðina við sólmyrkva. Þannig er svarti flekkurinn í Stóra rauða blettinum skuggi frá Ganýmedesi, stærsta tungli Júpíters, eða sólmyrkvi á Júpíter!

Myndin sem hér sést er í náttúrulegum litum.

Mynd: NASA, ESA og A. Simon (Goddard Space Flight Center). Þakkir: C. Go og Hubble Heritage Team (STScI/AURA)

- Sævar Helgi Bragason