Hubble tekur mynd af þéttum vetrarbrautakvartett

Sævar Helgi Bragason 16. jún. 2015 Fréttir

Á nýrri ljósmynd frá Hubble geimsjónauka NASA og ESA sjást fjórar vetrarbrautir í hópi sem kallast Hickson Compact Group 16, eða HGC 16. Saga kvartettsins einkennist af mikilli stjörnumyndun, flóðhölum, vetrarbrautasamrunum og svartholum.

  • Hickson Compact Group 16

Í Hickson hópi 16 eru raunar sjö vetrarbrautir en hér sjást fjórar þeirra (frá vinstri til hægri): NGC 839, NGC 838, NGC 835 og NGC 833. Allar hafa þær bjarta kjarna og þokukennda þyrilarma. Frá sumum liggur langur flóðhali, þ.e. þunn, ílöng stjörnuslæða sem teygir sig út frá vetrarbrautinni vegna öflugra flóðkrafta frá nálægum vetrarbrautum. Í bakgrunni glittir í aragrúa mun fjarlægari vetrarbrautir.

Hópar á borð við þennan eru með þéttustu vetrarbrautahópum í alheiminum. Þeir henta þess vegna vel til rannsókna á ýmsum forvitnilegum myndunum. Hickson hóparnir, nefndir eftir stjörnufræðingnum Paul Hickson sem skrásetti þá á níunda áratug 20. aldar, eru fjölmargir og taldir innihalda óvenju margar vetrarbrautir með sérkennilega eiginleika.

HCG 16 er þar engin undantekning. Vetrarbrautirnar í hópnum innihalda stór og mikiil stjörnumyndunarsvæði og mjög bjartar miðbungur. Í hópnum hafa stjörnufræðingar fundið tvær vetrarbrautir af LINER gerð, eina Seyfert 2 vetrarbraut og þrjár hrinuvetrarbrautir.

Allar gerðirnar þrjár eru mjög ólíkar og geta hjálpað okkur að skilja þróunarsögu vetrarbrauta. Hrinuvetrarbrautir framleiða nýjar stjörnur með mun meiri hraða en gengur og gerist. LINER (Low-Ionisation Nuclear Emission-line Regions) innihalda heitt gas í kjörnum sínum sem gefur frá sér geislun. NGC 839 er af LINER gerð og sömuleiðis björt innrauð vetrarbraut en fylgivetrarbraut hennar er af LINER gerð þar sem mikil stjörnumyndun á sér stað en ekki með svarthol í miðjunni.

Hinar vetrarbrautirnar, NGC 835 og NGC 833, eru báðar af Seyfert 2 gerð. Í öðrum bylgjulengdum en sýnilegu jósi sést að þær hafa mjög bjarta kjarna séð þar sem virk risasvarthol leynast.

Röntgengeislun sem stafar frá svartholinu í NGC 833 (lengst til hægri) er mikil og bendir til þess að vetrarbrautin hafi misst gas og ryk eftir að hafa víxlverkað við aðrar vetrarbrautir í fortíðinni. Hún er ekki ein um þessa sögu því NGC 839 (lengst til vinstri) rann líklega saman við aðra vetrarbraut í nýlegri fortíð.

Myndin er sett saman úr mælingum frá Wide Field Planetary Camera 2 á Hubble og gögnum frá Multi-Mode Instrument á New Technology Telescope ESO í Chle.

Mynd: NASA, ESA, ESO, J. Charlton (The Pennsylvania State University). Þakkir: Jean-Christophe Lambry, Marc Canale

- Sævar Helgi Bragason