Hvers vegna er Plútó rauðbrúnn á litinn?

Sævar Helgi Bragason 03. júl. 2015 Fréttir

Nú þegar fyrstu skýru litmyndirnar eru farnar að berast frá New Horizons er ekki úr vegi að velta fyrir sér hvernig Plútó er á litinn.

  • Tvö gerólík hvel Plútós

Eins og sjá má á myndunum er Plútó ýmis blæbrigði af rauðbrúnum, nokkurn veginn ferskjulitaður. En hvers vegna?

Stjörnufræðingar hafa lengi vitað að Plútó er rauðleitur eða rauðbrúnn svo minnir á ferskjulit. Liturinn er ekki ósvipaður litbrigðum Mars en ástæðan er gerólík. Mars fær sinn rauðbrúna lit frá járnoxíði eða ryði úr járnríku berginu. Rauðbrúni litur Plútós er sennilegast kominn til af flóknum kolefnasamböndum.

Litur Plútós
Kort af Plútó sem útbúin voru úr myndum frá LORRI myndavélinni og litagögnum frá Ralph mælitækinu. Mynd: NASA/JHUAPL/SWRI

Vísindamenn hafa lengi talið að rauðbrúnu efnin verði til þegar geimgeislar og tiltekinn bylgjulengd eða litur af útfjólubláu ljósi frá sólinni, sem kallast Lyman-alfa geislun, örva metangas (CH4) í lofthjúpi Plútós sem hrindir af stað efnahvörfum og myndar flókin kolefnasambönd sem kallast Þólín. Þólínið fellur síðan sem snjór niður á yfirborðið.

Þólín í tilraunastofu
Vísindamenn við Johns Hopkins háskóla í Bandaríkjunum hafa búið til flókin efnasambönd sem kallast Þólín, sem gætu verið ástæða þess að Plútó er rauðbrúnn á litinn. Mynd: Chao He, Xinting Yu, Sydney Riemer og Sarah Hörst, Johns Hopkins University

Mælingar sem gerðar hafa verið með Alice mælitækinu í New Horizons sýna að sterk Lyman-alfa geislun berst til Plútós úr öllum áttum. Það þýðir að þetta þólínmyndunarferli á sér líka stað á næturhliðinni, þar sem sólin skín ekki dögum saman, og á veturna, þegar sólin er undir sjóndeildarhring áratugum saman. Plútó roðnar því nokkuð jafnt og þétt alls staðar

Þólin hafa fundist á öðrum hnöttum í ytra sólkerfinu, þar á meðal á Títan og Tríton, stærstu tunglum Satúrnusar og Neptúnusar. Þólín hafa líka verið framleidd í tilraunastofum þar sem líkt er eftir lofthjúpum þessara fjarlægu hnatta.

Þótt New Horizons sé enn marga milljón kílómetra frá Plútó eru ótrúleg smáatriði farin að birtast á dvergreikistjörnunni. Hér undir sést fyrsta myndskeiðið í lit sem sýnir smáatriði á yfirborðum bæði Plútós og Karons.

Myndirnar voru teknar milli 23. og 29. júní síðastliðinn þegar fjarlægð New Horizons frá Plútó minnkaði úr 24 milljónum km í 18 milljónir km. Myndirnar voru settar saman úr svarthvítum myndum frá LORRI myndavélinni og litagögnum frá Ralph tækinu.

Smáatriði á Plútó og Karon í lit
Fyrsta myndskeiðið í lit sem sýnir smáatriði á bæði Plútó og Karoni. Mynd: NASA/JHUAPL/SWRI

Tengt efni

- Sævar Helgi Bragason