Keplerssjónaukinn finnur sína fyrstu bergreikistjörnu

Smæsta reikistjarna sem fundist hefur utan okkar sólkerfis hingað til

Sævar Helgi Bragason 11. jan. 2011 Fréttir

Kepler-10b er smæsta reikistjarnan sem fundist hefur utan okkar sólkerfis hingað til og fyrsta staðfesta dæmið um bergreikistjörnu.

  • Kepler-10b gengur fyrir móðurstjörnu sína

Stjörnufræðingar hafa með hjálp Keplerssjónauka NASA fundið smæstu reikistjörnu sem fundist hefur utan okkar sólkerfis hingað til. Reikistjarnan er nefnd Kepler-10b og er aðeins 1,4 sinnum stærri en jörðin og 4,6 sinnum massameiri. Hún er því dæmi um svonefnda risajörð. Kepler-10b er fyrsta staðfesta dæmið um bergreikistjörnu utan sólkerfisins.

„Öll gögn hníga að því að hér sé um að ræða bergreikistjörnu á braut um aðra stjörnu en sólina okkar“ segir Natalie Batalha stjörnufræðingur sem starfar við Keplerssjónaukann og aðalhöfundur greinar um uppgötvunina sem birtist í Astrophysical Journal. „Árið 2010 einsetti Kepler hópurinn sér að finna merki um litlar reikistjörnur í gögnum sjónaukans og hefur það nú þegar tekist“

Um borð í Keplerssjónaukanum er mjög næmur ljósmælir sem mælir birtubreytingar stjörnu sem verður þegar reikistjarna gengur þvert fyrir stjörnuna frá jörðu séð. Við þvergönguna dregur reikistjarnan tímabundið úr birtu stjörnunnar. Þvergangan stendur jafnan stutt yfir, oftast í fáeinar klukkustundir en ferlið verður að endurtaka sig, valda alltaf sömu birtuminnkun og standa jafnlengi yfir í hvert sinn til að hægt sé að staðfesta tilvist reikistjörnu. Hægt er að reikna út stærð reikistjörnunnar út frá birtuminnkuninni, en umferðartímann og þar af leiðandi fjarlægðina milli stjörnunnar og reikistjörnunnar er hægt að reikna út frá tímanum sem líður milli hverrar þvergöngu.

Staðfesta þarf allar reikistjörnur sem finnast með þessari þvergönguaðferð með öðrum mælingum. Tilvist Kepler-10b var staðfest með Dopplermælingum sem gerðar voru með Keck risasjónaukunum á Hawaii. Í þeirri aðferð mælir sjónaukinn örlitlar breytingar í litrófi móðurstjörnunnar sem rekja má til þeirra þyngdaráhrifa sem reikistjarnan hefur á stjörnuna. Flestar reikistjörnur utan okkar sólkerfis hafa fundist með þeim hætti.

Keplerssjónaukinn er fyrsti geimsjónauki NASA sem er fær um að finna fjarreikistjörnur á stærð við jörðina í eða við lífbelti annarra stjarna. Lífbelti er það svæði í sólkerfi þar sem hitastigið er hvorki of hátt né of lágt svo að vatn geti verið á fljótandi formi á yfirborði reikistjörnu. Kepler-10b er hins vegar fjarri því að vera innan lífbeltisins í sínu sólkerfi. Hún er innan við einn sólarhring (0,84 jarðdaga) að snúast í kringum sína sól og er því meira en 20 sinnum nær sinni móðurstörnu en Merkúríus er frá sólinni. Hitastigið á yfirborðinu er áætlað um 1.300°C eða álíka hátt og hitastig kviku. 

„Uppgötvun Kepler-10b markar ákveðin tímamót í leit að reikistjörnum sem líkjast jörðinni“ segir Douglas Hudgins meðlimur í Kepler hópnum. „Þótt reikistjarnan sé ekki í lífbeltinu sýnir þessi uppgötvun hvað hægt er að gera með þessum sjónauka og að búast má við að miklu fleiri sambærilegar reikistjörnur finnist á næstunni.“

Stjarnan Kepler-10 er í 560 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Drekanum. Hún er ein bjartasta stjarnan sem Keplerssjónaukinn hefur rannsakað hingað til þótt hún sjáist ekki með berum augum frá jörðinni.

Í ljósi stjörnunnar gátu stjörnufræðingar greint hátíðnisveiflur sem rekja má til stjörnuskjálfta. Stjörnuskjálftar eru ekki ósvipaðir jarðskjálftum og gera stjarnvísindamönnum kleift að átta sig eðliseiginleikum stjörnunnar, rétt eins og jarðskjálftabylgjur gera jarðvísindamönnum kleift að skyggnast inn í jörðina. Kepler-10 er nú ein af þeim sökum best þekkta hýsilstjarna fjarreikistjörnu. Hún líkist sólinni mjög – örlítið massaminni en álíka heit og björt og mun eldri, sennilega í kringum 11,9 milljarða ára gömul.

Góð þekking á eðliseiginleikum móðurstjörnunnar gerir stjörnufræðingum kleift að draga upp nákvæmari mynd af reikistjörnunni sjálfri. Kepler-10b er þess vegna talin bergreikistjarna, 4,6 sinnum massameiri en jörðin og 1,4 sinnum stærri. Meðaleðlismassi hennar er 8,8 g/cm3 svo hún er líkast til að mestu leyti úr járni. Þyngdarkrafturinn á yfirborðinu er 2,6 sinnum meiri en á jörðinni svo að 100 kg maður á Kepler-10b myndi vega 2,6 sinnum meira þar en á jörðinni.

Búast má við miklu fleiri uppgötvunum frá Keplerssjónaukanum næstu mánuði og ár. Við fylgjumst auðvitað spennt með.

Þetta er fréttatilkynning frá Stjörnufræðivefnum stj1101 sem byggir á tilkynningu NASA 11-007.

Tenglar

Tengiliður

Sævar Helgi Bragason
University of Iceland
Reykjavík, Iceland
Cell: +354-896-1984
Email: saevar[hjá]stjornuskodun.is

Tengdar myndir

  • Kepler-10b gengur fyrir móðurstjörnu sínaKepler-10b gengur fyrir móðurstjörnu sína. Mynd: NASA/Kepler verkefnið/Dana Berry.
  • Sýn listamanns á Kepler-10bSýn listamanns á glóandi heitu yfirborði Kepler-10b. Mynd: NASA/Kepler verkefnið/Dana Berry
  • Leitarsvæði Keplerssjónaukans milli Svansins og HörpunnarKepler starir á 150.000 stjörnur á svæðinu milli Svansins og Hörpunnar. Mynd: Carter Roberts
  • Tölvugerð mynd af KeplerssjónaukanumTölvugerð mynd af Keplerssjónaukanum.