Geimbúningar

  • Buzz Aldrin, tunglfari, maður á tunglinu
    Maður á tunglinu. Engin mynd úr Apollo geimáætluninni hefur birst oftar en þessi mynd Neils af Buzz félaga sínum á tunglinu. Mymd: NASA

Apollo tunglbúningurinn

Þegar þjálfun geimfara hófst vissi enginn hvernig búa átti til búningana sem gerði geimfara kleift að lifa af í tómarúmi geimsins. Menn þurfa súrefni til að anda og loftþrýsting til að koma í veg fyrir að blóðið og aðrir vökvar líkamans sjóði og breytist í gas.

Það var vandasamt verk að útbúa búning sem átti að vera nógu sterkur til að viðhalda loftþrýstingi og þola hitasveiflur frá 150 stiga frosti í skugga upp í meira en 100 stiga hita í sól, en vera samt nógu sveigjanlegur til að geimfarar gætu hreyft sig auðveldlega.

Skömmu eftir að Apollo geimáætlunin varð til, auglýsti NASA eftir fyrirtækjum til að þróa búninginn sem geimfarar áttu í tunglgöngu. Flest þeirra fyrirtækja sem buðu í verkið voru þekkt úr tæknigeiranum en eitt fyrirtæki skar sig úr.

Brjóstahaldarframleiðandi

International Latex Corporation eða ILC í Delaware, var lítið fyrirtæki sem sérhæfði sig í sveigjanlegum flíkum og var þekktast fyrir að framleiða Playtex brjóstahaldara og magabelti. Fæstir höfðu trú á brjóstahaldaraframleiðandanum en eitt hafði hann þó fram yfir hin fyrirtækin. ILC vissi miklu minna um geiminn en keppinautarnir, en höfðu mun meiri reynslu af því að sauma sveigjanlegan fatnað og plastefni sem hreyfðust með líkamanum. NASA samdi við ILC en fékk annað fyrirtæki, verkfræðifyrirtækið Hamilton Standard, til að hafa yfirumsjón með þróun búningsins.

Fyrirtækin voru mjög ólík sem olli töluverðum núningi milli þeirra, svo miklum raunar að þróun búningins gekk hægt og illa, svo illa að NASA rifti samningum við fyrirtækin árið 1964. Vorið 1965 var annað útboð haldið og sendu bæði ILC og Hamilton Standard aftur inn tillögur. Svo fór að NASA ákvað að veita ILC samning um að framleiða geimbúninginn án aðkomu Hamitlon Standard sem fékk þó það verkefni að smíða bakpokann.

Hjá ILC störfuðu framúrskarandi saumakonur sem saumuðu buxur fyrir börn og brjóstahaldara einn daginn en áttu næsta dag að sauma búninga fyrir menn sem mundu ganga á tunglinu. Yfirmaður saumakvennanna var fyrrverandi sjónvarpsviðgerðarmaður og framkvæmdarstjórinn starfaði áður við að selja saumavélar. Að þróa og sauma geimbúning var vandasamara verk en þau höfðu fengið að kynnast áður. Hver einasti saumur var grannskoðaður enda skipti hvert einasta smáatriði máli. Ef nál gleymdist í einu efnislagi, gat hún valdið stórslysi. Til að draga úr líkum á því, fengu saumakonurnar nálar í mismunandi litum svo hægt yrði að rekja hverja nál til hverrar saumakonu.

Hjá Hamilton Standard unnu menn að þróun öndunar- og kælibúnaðarins. Ein helsta áskorunin var að halda þyngd hans í lágmarki en súrefnismagni í hámarki. Lausnin á því vandamáli var nokkuð snjöll. Þegar við öndum, gefum við frá okkur súrefni og koldíoxíð. Í bakpokanum var búnaður sem fjarlægði koldíoxiðið frá súrefninu, svo nota mátti sama súrefnið aftur og aftur.

Hamilton Standard sá líka um að leysa vandamálin við úrgang frá geimfara við tunglgöngu. Einhvern veginn þurftu geimfararnir að geta kastað af sér vatni og jafnvel gengið örna sinna á tunglinu. Þetta var skítaverk sem verkfræðingarnir urðu að leysa sómasamlega.

Lausnin var svipuð og í stjórnfari Apollo geimfarsins. Geimfarinn festi á sig smokk sem tengdist við slöngu sem leiddi ofan í plastpoka sem gat borið einn lítra af þvagi. Geimfarinn gat því pissað beint í pokann. Upphaflega komu smokkarnir í þremur stærðum: Litlir, meðal og stórir en fáir geimfarar gátu sætt sig við annað en stóra. NASA breytti því nöfnum smokanna í stórir, risavaxnir og tröllauknir. Til að ganga örna sinna varð geimfarinn einfaldlega að nota bleyju.

Þegar fyrstu geimbúningarnir voru prófaðir, kom í ljós vandamál sem gat reynst lífshættulegt. Allir bjuggust við að loftið sem dælt var inn í búninginn dygði til að kæla geimfarana. Við prófanir kom þó í ljós að sviti komst hvergi burt og geimförunum varð hættulega heitt. NASA gaf Hamilton Standard tvær vikur til að leysa þetta vandamál sem reyndist alls ekki auðvelt.

Kælinærföt

Lausnin fannst þó að lokum og á mettíma en hún fólst í nærfötum með nokkra tugi metra af örþunnum plastleiðslum, fullum af kælivatni. Kælivatnið sá til þess að geimfarinn svitnaði lítið og hélt hitastigi hans í búningnum þægilegu.

Hanskinn var samt flóknasti hluti geimbúningsins. Hann þurfti að vera nógu sveigjanlegur til að hægt væri að týna upp litla steina en samt nógu sterkur til að útilokað væri að rífa hann. Menn leituðu lengi að slitsterku efni í hanskann og fundu á endanum upp nýtt efni sem var samofið króm og stál. Erfitt var að sauma þetta efni, enda var það svo sterkt að það gat stöðvað byssukúlu.

Af hverju eru geimbúningar hvítir?

Ysta lag geimbúningsins, hvíta efnið, var einnig fundið sérstaklega upp fyrir geimbúnginn. Það kallast BetaCloth og samanstendur af mjög fínu kísiltrefjaefni, svipuðu trefjagleri. Þetta efni brennur ekki og bráðnar aðeins ef hitastig fer yfir 650°C. Til að bæta endingu þess var efnið húðað með tefloni.

Ítarlegar prófanir voru gerðar á búningninum. Við prófun árið 1965, var maður að nafni Joe LeBlanc settur inn í lofttæmisklefa svo hægt væri að kanna hvort búningurinn virkaði ekki örugglega. Ekki vildi betur til en svo, að loftleiðsla við búninginn losnaði svo loft streymdi úr honum. LeBlanc fann hvernig munnvatnið sauð á tungunni uns það leið yfir hann eftir 14 sekúndur. Örfáum sekúndum síðar kom aðstoðarmaður inn í hylkið, þrýstijafnaði það og komst þá LeBlanc aftur til meðvitundar. Eftir á fann hann fyrir sársauka í eyrunum vegna þess hve hratt klefinn var þrýstijafnaður.

Smám saman tók geimbúningur brjóstahaldaraframleiðandans ILC á sig mynd. Þótt hann væri fullur af lofti eins og blaðra, var hann samt sveigjanlegur og þægilegur í notkun eins og hver önnur flík. Hann skiptist í þrennt: Í hvít vatnskæld nærföt, bláan þrýstijöfnunarbúning og hvítt ytra lag. Í heild samanstóð geimbúningurinn af 21 efnislagi. Skórnir voru úr gúmmíi og á hjálmnum var gullhúðað skyggni til að verjast skaðlegum sólargeislum. Á bakinu bar geimfarinn búnaðinn sem hélt honum á lífi en hann var tengdur við búninginn að framanverðu. Um þrjá mánuði tók að setja hvern búning saman og fékk hver geimfari sinn eigin sérsaumaða búning.