Apollo 8

Tveimur mánuðum fyrr hafði áhöfn Apollo 7 lokið fyrstu mönnuðu geimferð Apollo verkefnisins, eftir rúmlega eins og hálfs árs hlé í kjölfar eldsvoðans í Apollo 1. Nú voru þrir menn á leið í lengsta og hættulegasta ferðalag sem mannkynið hafði nokkurn tímann lagt upp í, ferðalagið frá jörðinni til tunglsins.

Áhöfn

Frank Borman og Jim Lovell

Leiðangursstjóri Apollo 8 var Frank Borman. Eftir slysið í Apollo 1 tæpum tveimur árum áður, hafði Borman átt stóran þátt í því að finna orsök eldsvoðans og sannfæra þingnefnd um að halda Apollo verkefninu áfram og sigra Sovétmenn í kapphlaupinu til tunglsins.

Frank Borman heillaðist snemma af flugi og gerðist orrustuflugmaður hjá flughernum. Hann lauk síðan framhaldsnámi í flugverkfræði frá Caltech háskóla og gerðist stuttu síðar tilraunaflugmaður. Árið 1962 valdi NASA Borman í annan geimfarahóp sinn en í þeim hópi var líka Jim Lovell, sem nú átti að vera flugmaður stjórnfars Apollo 8, en þetta var hans þriðja geimferð.

Þetta var ekki í fyrsta sinn sem þeir Borman og Lovell fóru saman út í geiminn. Þremur árum áður, í desember 1965, dvöldu þeir fjórtán daga á braut um jörðina í Gemini 7 og settu dvalarmet. Þessi langa ferð tók verulega á þá félaga. Að verja tveimur vikum saman í litla, þrönga Gemini geimfarinu, var svipað og að borða, sofa, vinna og fara á klósettið í framsætum sportbíls í fjórtán daga sleitulaust, eins og geimfarinn Tom Stafford lýsti því.

Borman og Lovell borðuðu vaxhúðaðan mat en vaxið átti að koma í veg fyrir að hann skemmdist. Þeir þoldu ekki bragðið og þá óþægilegu tilfinningu sem fylgdi vaxinu í munninum. Til að bæta gráu ofan á svart varð húðin þeirra þurr og tók að flagna í þurra loftinu í geimfarinu. Hárið varð fitugt og fullt af dauðum húðflögum. Þeir týndu líka öðrum tannburstanum, hvernig sem það var nú hægt í þessu litla geimfari, og neyddust því til að deila sama tannbursta.

Bill Anders

Þriðji geimfarinn í Apollo 8 var nýliðinn Bill Anders. Anders fæddist í Hong Kong þar sem faðir hans gegndi herskyldu. Hann lauk námi í rafmagnsverkfræði frá háskóla sjóhersins árið 1955 og gerðist síðan flugmaður hjá flughernum ári síðar.

Þann 5. júlí árið 1958, sama dag og kona hans Valerie sneri heim af spítala með annað barn þeirra hjóna, varð hann að yfirgefa fjölskyldu sína til að gegna herskyldu á Íslandi. Hann hefði getað fengið herskyldunni frestað vegna þess að konan hans var þunguð, en þá hefði hann verið sendur til Grænlands í stað Íslands. Anders taldi að Ísland væri mun heppilegri staður og voru flestallir í kringum hann sama sinnis.

Á Íslandi sinnti Anders eftirlitsflugi og flaug reglulega orrustuþotum á móti sovéskum sprengjuflugvélum. Í stað þess að vinka til sovésku flugmannanna, sendi hann þeim puttann en þeir sovésku veifuðu bara til baka. Ferðirnar gátu reynst hættulegar, en Anders sjálfum þótti alltaf hættulegra að fljúga við íslenskar aðstæður. Eitt sinn þegar hann lenti í Keflavík, snarsnerist flugvél hans í hálkunni á flugbrautinni.

Eftir ársdvöl á Íslandi sneri Anders heim til Bandaríkjanna. Hann sóttist eftir að verða tilraunaflugmaður en uppgötvaði þá að hann uppfyllti ekki menntunarkröfur. Hann ákvað þá að sækja nám í kjarnorkuverkfræði og flugverkfræði og lauk framhaldsnámi í því.

Árið 1963 var Anders í hópi fjórtán nýrra geimfara í þriðja geimfarahópu NASA. Deke Slayton, yfirmaður geimfaranna, leit á Anders sem einn af vísindamönnunum sem var gott upp á möguleikann á tunglferðum að gera, en slæmt upp á að komast sem fyrst í geimferð. Anders hafði mikinn áhuga á jarðfræði og var eini geimfarinn sem heimsótti Ísland í bæði skiptin þegar geimfararnir komu hingað til æfinga árin 1965 og 1967.

Hjá NASA vann Anders við umhverfisstýrikerfi Apollo geimfarsins, þ.e.a.s. búnaðinn sem hélt þrýstingi, hitastigi, koldíoxíði, vatni og rakastigi í geimfarinu réttu.

Árið 1966 var Anders skipaður í Apollo áhöfn ásamt leiðangursstjóranum Frank Borman og Michael Collins, sem átti að vera flugmaður stjórnfarsins. Leiðangurinn átti að vera þriðja mannaða geimferð Apollo og fyrsta mannaða geimskot Satúrnus 5 risaflaugarinnar. Prófa átti sjálfa tunglferjuna á braut um jörðina og átti Anders að sjá um það.

Reyndar var upprunalega áhöfnina samansett af þeim Frank Borman, Bill Anders og Charles Bassett, en þegar Bassett lést í flugslysi ásamt öðrum geimfara, Elliot See, skömmu fyrir Gemini 9 leiðangur þeirra, kom Michael Collins í stað Bassetts.

Anders var sá geimfari sem best var undir það búinn, að fljúga tunglferjunni. Hann hafði varið mörg þúsund klukkustundum í þjálfun í tunglferjuherminum og var, ásamt Neil Armstrong, fyrstur til að fljúga Lunar Landing Research Vehicle, tæki sem líkti eftir tunglferjulendingu. Anders segir enn stoltur frá því að Neil hafi brotlent þessari skrítnu vél, en hann ekki. Anders gerði sér vonir um að fá að lenda á tunglinu, enda stefndi þjálfun hans leynt og ljóst að slíkum leiðangri. Hann var auk þess vel að sér um jarðfræði sem gerði hann að fyrsta flokks kandídat.

Breytingar á ætluninni

Eldsvoðinn í Apollo 1 setti allt úr skorðum. Smíði tunglferjunnar var einnig langt á eftir áætlun og ljóst að hún yrði ekki tilbúin í tæka tíð fyrir leiðangur Apollo 8. Ef tækist að skjóta Apollo 7, fyrstu mönnuðu geimferð Apollo, á loft síðla árs 1968, væri enn tæplega hálft ár þar til tunglferjan yrði reiðubúin fyrir leiðangur Apollo 8.

Um mitt ár 1968 urðu breytingar á áhöfn Apollo 8. Michael Collins varð að fara í uppskurð og var þess vegna frá æfingum í nokkra mánuði. Það gekk ekki upp svo í júlímánuði var tilkynnt að Jim Lovell tæki sæti Collins í Apollo 8. Collins var vonsvikinn en þurfti ekki að bíða lengi eftir öðrum leiðangri. Nokkrum mánuðum síðar var hann flugmaður stjórnfars í leiðangri Apollo 11.

Um sama leyti bárust fréttir um að Sovétmenn væru nálægt því að geta sent menn á braut um tunglið fyrr en síðar, hugsanlega fyrir árslok 1968. Þá kviknaði brjálæðisleg hugmynd hjá yfirmönnum NASA. Í stað þess að senda Apollo 8 aðeins á braut um jörðina, yrði geimfarið sent alla leið til tunglsins án tunglferju. Það var gríðarlega áhættusamt, því án tunglferjunnar hafði Apollo geimfarið aðeins einn eldflaugahreyfill sem varð að virka fullkomlega. Á braut um jörðina var tiltölulega auðvelt að koma geimfari heim, ef eitthvað færi úrskeiðis en á braut um tunglið væri útilokað að koma heim ef hreyfillinn virkaði ekki.

James Webb, forstöðumanni NASA, leist vægast sagt illa á þessa hugmynd. Í fyrsta lagi voru aðeins þrír mánuðir til stefnu og mikil vinna framundan við að búa geimfarið undir slíkt ferðalag. Í öðru lagi var áhættan feikileg. Ef hreyfillinn virkaði ekki myndu geimfararnir þrír deyja á braut um tunglið. Webb veitti þó samþykki sitt að lokum. Að koma mönnum á braut um tunglið á undan Sovétmönnum væru Bandaríkin svo gott sem búin að vinna kapphlaupið til tunglsins.

Þegar hugmyndin var borin undir Frank Borman hikaði hann ekki við að samþykkja leiðangurinn án þess að ráðfæra sig við Anders og Lovell. Anders var ekki aðeins undrandi á að menn hefðu hugreki til að taka þessa ákvörðun, heldur varð hann líka fyrir sárum vonbrigðum að fá ekki að fljúga tunglferjunni. Þetta þýddi líka að meiri líkur en minni væru á að hann myndi aldrei ganga á tunglinu. Anders jafnaði sig þó fljótt af vonbrigðunum enda yrði leiðangur Apollo 8 sögulegur, ef allt færi vel.

Undirbúningur fyrir tunglferð

Síðustu vikurnar fyrir geimskot voru geimfararnir settir í einangrun til að þeir smituðust ekki af skæðri flensu sem gekk á sama tíma. Menn voru einnig brenndir af því þegar áhöfn Apollo 7 fékk kvef á braut um jörðina. Tólf dögum fyrir geimskot rauf Lyndon Johnson forseti einangrunina þegar hann bauð geimförunum og fjölskyldum þeirra, auk áhafnar Apollo 7, í mat í Hvíta húsinu. Sem betur fer kvefaðist enginn.

Í aðdraganda geimferðarinnar var flestum efstur í huga sá möguleiki að geimfararnir myndu aldrei snúa aftur heim til jarðar. Þeir héldu jól með fjölskyldum sínum áður en geimferðin hófst og hljóðrituðu skilaboð til eiginkvenna sinna ef svo færi að þeir sneru aldrei heim aftur. Anders sjálfur leit svo á, að líkurnar á að svo færi, væri einn á móti þremur. Samt, voru þeir viljugir til að taka áhættuna.

Á vetrarsólstöðum þann 21. desember 1968, settust geimfararnir um borð í Apollo 8 á Satúrnus 5 risaflauginni. Geimfararnir voru sallarólegir, alveg fram að því augnabliki þegar F-1 hreyflarnir á flauginni voru ræstir. Þrátt fyrir að vera kyrfilega fastir í sætum sínum, hentust geimfararnir til og frá þegar hreyflarnir fimm lyftu flauginni upp í bláan himinninn. Í vasa Anders var íslenskur 25 eyringur sem hann tók með sér til tunglsins.

Ferðalagið til tunglsins

Þegar á braut um jörðina var komið tók við undirbúningur fyrir sjálfa tunglferðina. Gæta þurfti þess að allt virkaði sem skyldi og þegar búið var að ganga úr skugga um það kom Michael Collins, sem sat í stjórnstöðinni, þessum skilaboðum til geimfaranna

„You are go for TLI.“  http://www.youtube.com/watch?v=xqmSfLFAEOs [2:15-2:26]

Þessi setning: „Apollo átta, þið megið hefja ferðina til tunglsins“ lætur kannski ekki mikið yfir sér. Þetta var samt sögulegasta stund geimkapphlaupsins til þessa. Í fyrsta sinn mundu fulltrúar mannkynsins yfirgefa móður jörð.

Eldflaug þriðja þreps Satúrnus 5 flaugarinnar var ræst. Á innan við fimm mínútum jók hún hraða geimfarsins upp í tæplega 39.000 km hraða á klukkustund, þann hraða sem þarf til að yfirgefa jörðina fyrir fullt og allt.

Fjörutíu og fimm mínútum eftir að Apollo 8 yfirgaf jörðina, blasti stórkostleg sjón við geimförunum.

http://www.youtube.com/watch?v=xqmSfLFAEOs [4:08-4:33]

Enginn maður hafði nokkurn tímann ferðast jafn langt frá jörðinni. Geimfararnir þrír voru fyrstu mennirnir til að sjá jörðina í öllu sínu veldi, jörðina sem plánetu, jörðina í sínu rétta samhengi í alheiminum.

Útsýnið kom Anders á óvart í fyrstu. Hann áttaði sig ekki almennilega á því sem hann sá. Hann var vanur, eins og við flest, að sjá landakort og hnattlíkön þar sem norður er upp og suður niður. En í geimnum er ekkert upp og niður. Anders sá jörðina fyrst á „hvolfi“, innan gæslappa, en sneri sér síðan við 180 gráður og þá varð heimaplánetan hans kunnuglegri.

Magakveisa í geimnum

Rétt innan við sólarrhing eftir geimskot, eftir að hafa dormað í stutta stund, vaknaði Frank Borman náfölur og með mikinn magaverk. Borman kastaði upp og fékk niðurgang en var ekki nógu fljótur að sækja poka til að taka við spýjunni.

Ef það er einhver staður þar sem maður vill alls ekki fá uppköst og niðurgang, þá er það sennilega í litlu geimfarið með tveimur öðrum ferðalöngum í þyngdarleysi á leið til tunglsins. Í geimfarinu var engin loftræsting og það er heldur ekki hægt að opna gluggann og lofta út.

Æla og niðurgangur sveif um geimfarið. Lyktin var ekki góð. Anders setti á sig súrefnisgrímu og hóf að þrífa geimfarið með því að safna saman ælunni og niðurgangnum sem sveif út um allt. Anders var enn að venjast þyngdarleysinu og varð stundum flökurt. Ekki bætti þetta úr skák.

Á braut um tunglið

Ferðalagið til tunglsins tók þrjá sólarhringa. Þegar tími var kominn til að fara á braut um tunglið, festu geimfararnir sætisólarnar og ræstu hreyfil geimfarsins til að hægja á ferðinni. Ef hreyfillinn virkaði ekki sem skyldi, myndi geimfarið annað hvort brotlenda á tunglinu eða skjótast út í geiminn.

Á hárréttu augnabliki var hreyfillinn ræstur. Þetta gerðist á bakhlið tunglsins, utan fjarskiptasambands við jörðina, svo stjórnendur í Houston vissu ekki hvernig færi fyrr en geimfarið kæmist aftur í samband við jörðina.

http://www.youtube.com/watch?v=xqmSfLFAEOs [8:37]

Hreyfillinn logaði í fjóra og hálfa mínútu. Þetta var næst hættulegasta augnablik ferðarinnar. Lovell leit stressaður á mælaborðið en létti mjög þegar hraðamælirinn sýndi að ferðahraðinn hafði minnkað um nákvæmlega það sem til var ætlast. Innan við sekúndu frá tilætluðum tíma bárust merki frá Apollo 8.

http://www.youtube.com/watch?v=xqmSfLFAEOs [8:47-9:02]

Apollo 8 var komið á braut um tunglið og færi tíu hringi um það næstu tuttugu klukkustundir.

Tunglferð bandarísku geimfaranna Bormans, Lovells og Anders gengur mjög að óskum, og er Apolló áttundi nú á braut umhverfis tunglið í rúmlega 96 kílómetra tunglfirrð. – Kl. 8:55 í morgun fengu tunglfararnir fyrirskipun frá aðal-geimferðastöðinni í Houston í Texas um að koma geimfarinu á braut umhverfis tunglið, og hvarf geimfarið á bak við það kl. 09:49, og kl. 10:25 var það aftur komið í ljós yfir þeirri hlið, sem snýr að jörðu. Á meðan þessu stóð, var ekkert fjarskiptasamband við Appolló áttunda. Alls eiga geimfararnir að fara tíu hringi umhverfis tunglið, og kl. 6.06 í fyrramálið er gert ráð fyrir, að ferðin til jarðar hefjist, og kl. 5.50 á föstudag, verður Appolló áttunda lent á Kyrrahafi í grennd ivð Hawaii-eyjar. Fjarskiptasamband við geimfarið er gott og hafa geimfararnir lýst því, sem fyrir augun ber á tunglinu. – Frétt Ríkisútvarpsins kl. 12:00 á Aðfangadag jóla 1968

LÝSING Á TUNGLINU http://www.youtube.com/watch?v=xqmSfLFAEOs [09:30-10:11]

Geimfararnir þrír voru ekki aðeins fyrstu mennirnir til að sjá jörðina sem plánetu, heldur voru þeir fyrstu mennirnir í sögunni til að sjá fjærhlið tunglsins með eigin augum.

Jarðarupprás

Eftir fjórðu ferðina í kringum tunglið upplifðu geimfararnir nokkuð sem þeir höfðu ekki leitt hugann að. Þeir sáu jörðina, bláa, brúna og hvíta, rísa í kolsvörtum himingeimnum yfir gráu líflausu yfirborði tunglsins. Það var þá sem Bill Anders tók eina frægustu og áhrifamestu ljósmynd sögunna.

Geimfararnir trúðu vart sínum eigin augum. Úr næstum 400.000 km fjarlægð að sjá var jörðin svo lítil að Anders gat hulið hana með þumalfingrinum. Samt var þessi hnöttur óskaplega dýrmætur. Þarna voru allir sem hann þekkti og elskaði. Smám saman rann það upp fyrir honum: „Við komum alla þessa leið til að kanna tunglið, en það mikilvægasta sem við uppgötvuðum var Jörðin.“

Bein útsending frá tunglinu

Í níundu ferðinni í kringum tunglið hófst bein sjónvarps-útsending úr geimfarinu á meðan það sveif yfir tunglinu. Út um gluggann sáust djúpir svartir gígar á eyðilegu yfirborði tunglsins. Eftir að hafa lýst því sem fyrir augun bar, sagði Anders að áhöfnin hefði skilaboð til allra jarðarbúa:

http://www.youtube.com/watch?v=QwI4s97S_fQ [1:00-3:00]

Tveimur og hálfri klukkustund eftir sjónvarps-útsendinguna var mikilvægasta stund tunglferðarinnar runnin upp: Heimferðin. Ræsa þurfti eldflaugahreyfilinn á hárréttu augnabliki, sem, líkt og í fyrra tilvikinu, yrði á bakhlið tunglsins, fjarri fjarskiptasambandi við jörðina.

Geimfararnir komu sér fyrir í sætum sínum og ræstu hreyfilinn. Á réttu andartaki komst geimfarið aftur í samband við jörðina og heyrðist þá í Lovell:

http://www.youtube.com/watch?v=xqmSfLFAEOs [13:35-53]

Apollo 8 var á leið heim eftir sögulegan leiðangur.

Stuttu síðar fundu Borman, Lovell og Anders sendingu frá jólasveininum í geimfarinu:

http://www.youtube.com/watch?v=xqmSfLFAEOs [14:58-15:19]

Apollo 8 sneri heim til jarðar þann 27. desember. Geimfarið lenti á Kyrrahafi og var sjógangurinn slíkur að Frank Borman varð sjóveikur og kastaði upp. Eftir sex daga innan í fljúgandi geimsalerni var fýlan inni í farinu ekkert sérstaklega góð en geimfararnir voru orðnir samdauna henni. Þegar lúgan var opnuð gaus upp slíkur óþefur að sundmaðurinn sem opnaði lúgana vatt sér undan. Honum fannst eins og sparkað hefði verið í höfuð hans. Inni í geimfarinu fundu geimfararnir líka sérkennilega lykt, af fersku sjávarlofti.

Vísindamönnum um heim allan virðist bera saman um, að tunglferð þeirra Bormans, Lovels og Anders sé eitt mesta vísinda- og tækniafrek, sem unnið hefur verið. Öll ferðin gekk nákvæmlega eftir áætlun og skeikaði í engu. Appolló áttunda var skotið á loft frá Kenendyhöfða kl. 12:51 á laugardaginn var og lenti á Kyrrahafi í dag kl. 15:51, 147 klukkustundum síðar, eins og ráð hafði verið fyrir gert. Þá hafði Appolló áttundi farið um 800 þúsund kílómetra veglengd, tvisvar umhverfis jörðu og síðan tíu sinnum umhverfis tunglið í 112 kílómetra tunglfirrð. Kl. 17:12 að íslenzkum tíma voru geimfararnir komnir um borð í fluvélaskipið Yorktown, en þeir lentu í tæplega 5 kílómetra fjarlægð frá skipinu. Þar fengu þeir sér vel að borða, segir í NTB-frétt, en síðan tóku 15 læknar til við að skoða þá og tilkynntu þeir síðar, að geimfararnir væru við beztu heilsu. Á morgun er ráðgert, að þeir fari með Yorktown til Hwaii og á sunnudag til geimferðastöðvarinnar í Houston.

Hvaðanæva að hafa þeim Borman, Lovell og Anders borizt heilaóskir, og meðal þeirra fyrstu, sem samfögnuðu þeim, auk Bandaríkjaforseta, voru tíu sovézkir geimfarar. Í moskvu ríkti mikill fögnuður er þar það fréttist, að tunglferðin hefði heppnast svo vel, og Nikolai Podgorní forseti sendi Johnson Bandafíkjaforseta skeyti, þar sem hann biður Johnson forseta að taka við innilegum heillaóskum Sovétþjóðarinnar.
– Frétt Ríkisútvarpsins kl. 22:00, 27. desember, 1968

Sögulegum leiðangri var lokið. Time tímaritið útnefndi geimfarana þrjá menn ársins. Þeir höfðu stigið mikilvægasta skrefið til þess í kapphlaupinu til tunglsins.

Eftir leiðangurinn bauð Deke Slayton Frank Borman að stýra fyrstu tungllendingunni með sömu áhöfn. Borman hefði þá orðið fyrsti maðurinn til að ganga á tunglinu og Anders fylgt í kjölfar hans. Borman afþakkaði boðið án þess að ráðfæra sig við Anders og Lovell. Eiginkona Bormans hafði þar sitt að segja, en hún óttaðist svo mjög að eiginmaður hennar kæmi aldrei heim aftur að hún fór að drekka óhóflega og vildi Borman hlífa henni við frekari streitu. Anders komst ekki að þessu fyrr en hann las þetta í ævisögu Deke Slaytons og varð vitanlega nokkuð svekktur.

En áður en hægt var að lenda á tunglinu þurfti að prófa tunglferjuna á braut um jörðina og tunglið. Framundan voru leiðangrar Apollo 9 og Apollo 10, síðustu lokaæfingarnar áður en hægt var að stíga eitt lítið skref.