Apollo 9

Þegar Apollo 9 var skotið á loft þann, var mönnum enn í fersku minni söguleg tunglför Apollo 8, þegar mannkynið yfirgaf Móður Jörð í fyrsta sinn og ferðaðist til tunglsins. Í augum heimsbyggðarinnar virtist leiðangur Apollo 9 fremur hversdagslegur. Apollo 9 var ekki á leið til tunglsins eins og Apollo 8, heldur aðeins á braut um jörðina. Í raun var þó ekkert hversdagslegt við leiðangur Apollo 9.

Geimskot Apollo 8 var fyrsta mannaða prófunin á Satúrnus 5 risaeldflauginni. Hún hafði sannað gildi sitt og komið mönnum til tunglsins og hafði Apollo geimfarið líka virkað eins og í sögu. Ekki var þó hægt að hefja könnun tunglsins fyrir alvöru fyrr en búið var að prófa þriðja hluta Apollo kerfisins, sjálfa tunglferjuna, úti í geimnum. Þetta var meginmarkmið áhafnar Apollo 9, að prófa tunglferjuna og tunglbúninginn áður en menn gátu lent á Mánanum.

Áhöfn

Jim McDivitt

Leiðangursstjóri Apollo 9 var Jim McDivitt og var þetta önnur geimferð hans. McDivitt hafði farið út í geiminn tæpum fjórum árum áður í leiðangri Gemini 4 með besta vini sínum Ed White, sem lést síðar í eldsvoðanum í Apollo 1 í janúar 1967. White og McDivitt dvöldu fjóra sólarhringa á braut um jörðina og fór White þá fyrstur Bandaríkjamanna í geimgöngu.

McDivitt var frá Chicago og ólíkt mörgum félögum sínum var hann lengi vel óviss um hvað hann vildi leggja fyrir sig. Sama mánuð og Kóreustríðið braust út, skráði hann sig í herinn, þá tvítugur að aldri, til að gerast orrustuflugmaður. McDivitt hafði þá aldrei stigið fæti inn í flugvél en lærði fljótt að fljúga. Að stríði loknu hafði hann flogið yfir hundrað orrustuflug og var sæmdur heiðursorðu fyrir afrek sín.

Árið 1957 fór McDivitt í nám í flugverkfræði við Michiganháskóla, þar sem hann kynntist Ed White. McDivitt var ætíð mjög metnaðarfullur sem sást vel á einkunum hans. Hann lauk námi á tveimur árum með hæstu einkunn, efstur í hópi 607 nemenda.

McDivitt hafði aldrei látið sig dreyma um að verða geimfari og hafði raunar engan sérstakan áhuga á því starfi þegar hann sótti um hjá NASA. Engu að síður var hann valinn í hópi níu nýrra geimfara sem NASA kynnti árið 1962 en í þeim hópi var líka vinur hans Ed White. Fram til þessa hafði líf McDivitts snúist um herinn og átti hann engin spariföt önnur en einkennisbúning sinn. Áður en geimfarahópurinn var kynntur opinberlega neyddist hann því til að fara í búðaleiðangur með konu sinni og kaupa sér jakkaföt.

McDivitt þótti mikill og sterkur leiðtogi í geimfarahópnum. Hann var ábyrgur flugmaður og kjörinn til að stýra þessum mikilvæga og metnaðarfulla leiðangri Apollo 9.

Dave Scott

Dave Scott var flugmaður stjórnfarsins. Sennilega voru fáir sem hægt var að treysta betur fyrir því vandasama verki. Scott var framúrskarandi tilraunaflugmaður og naut mikillar virðingar meðal kollega sinna. Sagt var að Dave Scott væri ímynd hins bandaríska geimfara. Ef gerð yrði kvikmynd um geimfara, yrði persónan sennilega byggð á Dave Scott.

Apollo 9 var önnur geimferð Scotts líkt og McDivitts. Þremur árum áður var hann um borð í Gemini 8 ásamt Neil Armstrong. Eftir geimskot tengdu þeir geimfar sitt við Agena burðarflaug og var það í fyrsta sinn sem bandarísk geimför voru tengd saman í geimnum. Eftir samtenginguna bilaði ein af stýriflaugum Gemini 8 sem olli því, að geimförin tóku að snúast stjórnlaust. Þeir Scott og Armstrong sýndu mikið snarræði þegar þeim tókst að losa geimförin og ræsa bremsuflaugarnar sem batt endi á leiðangurinn, mun fyrr en áætlað var, en varð þeim til lífs.

Scott var hermennska í blóð borinn. Hann fæddist í herstöð í San Antonio í Texas þar sem faðir hans var hershöfðingi. Faðir hans hélt uppi ströngum aga og reglum og vildi Scott feta í fótspor hans. Hann gekk þess vegna í herskóla og lagði mjög hart að sér.

Scott þótti alltaf sérstaklega vinnusamur og agaður, en um leið kappsamur og metnaðarfullur. Árið 1954 lauk hann prófi frá West Point herskólanum með hæstu einkunn og var fimmti hæsti í sínum árgangi.

Að námi loknu lærði Scott að fljúga í flughernum. Eftir það sótti hann sér meistaragráðu í flug- og geimverkfræði frá Tækniháskólanum í Massachusetts, eða MIT, þar sem hann sérhæfði sig í siglingafræði í geimnum. Að því loknu gerðist hann tilraunaflugmaður hjá hernum. Dave Scott var því með eins fullkominn bakgrunn og hægt var að hugsa sér fyrir geimfarastarfið. Það kom engum á óvart þegar NASA valdi hann í þriðja geimfarahóp sinn árið 1963.

Rusty Schweickart

Þriðji geimfarinn í áhöfninni og flugmaður tunglferjunnar var nýliði, hinn rauðhærði Russell Schweickart. Russell, eða Rusty eins og hann er alltaf kallaður, var bóndasonur sem í æsku bjó skammt frá herflugvelli í New Jersey. Þar sem hann lá á grasinu fyrir utan heimili sitt sá hann oft herþotur fljúga yfir. Hann starði á þær og lét sig dreyma um að fljúga um loftin blá eins og sjálfur Superman.

Schweickart lauk námi í flugverkfræði frá MIT árið 1956 og meistaraprófi í flug- og geimverkfræði frá sama skóla sjö árum síðar. Í meistaranámi sínu lagði Schweickart líka stund á stjörnufræði. Í millitíðinni lærði Schweickart að fljúga hjá flughernum en á meðan námi stóð flaug hann fyrir þjóðvarðliðið. Hann naut þess mjög að fljúga, sér í lagi á næturnar, þegar hann gat starað upp í stjörnubjartan himinninn.

Þann 20. febrúar árið 1962 sat Schweickart á kaffihúsi í Frakklandi og las dagblað. Ein fréttin fangaði athygli hans. Hún fjallaði um geimferð John Glenn. Að fara út í Gemini, hugsaði hann með sér, það var eitthvað sem hann langaði mikið til að gera.

Schweickart ákvað að sækja um að verða geimfari en sá að einn hængur var á. Hann vantaði fimm klukkustundir af flugtíma til að uppfylla skilyrðin sem NASA. Schweickart fyllti engu að síður út umsóknina, laug til um flugtímana sína og sendi umsóknina. Á meðan umsóknin var á leið til NASA, settist hann upp í flugvél og flaug í sjö klukkustundir. Þegar NASA barst loks umsóknin var uppgefinn flugtími réttur. Í október 1963, viku fyrir 28 ára afmæli sitt, var Rusty Schweickart valinn í þriðja geimfarahóp NASA.

Breytingar á áætluninni

Þeir McDivitt, Scott og Schweickart áttu upphaflega að fljúga annarri mönnuðu geimferð Apollo verkefnisins, þ.e.a.s. Apollo 8 sem átti að vera mönnuð prófun á öllu Apollo kerfinu. En þegar ljóst var að tunglferjan yrði ekki tilbúin í tæka tíð, ákvað NASA að senda Apollo 8 alla leið til tunglsins án tunglferju og freista þess að prófa tunglferjuna í leiðangri Apollo 9.

Deke Slayton, yfirmaður geimfaranna og sá sem skipaði áhafnirnar, bauð bæði McDivitt og Frank Borman að stýra Apollo 8. McDivitt afþakkaði en Borman þáði boðið. Báðir tóku ákvörðunina án þess að ráðfæra sig við félaga sína.

McDivitt hefði sem sagt getað fengið að stýra fyrstu tunglferðinni en kaus að gera það ekki. Hvers vegna vildi hann ekki taka að sér geimferð sem færi í sögubækurnar?

Þótt geimfararnir væru fjarri því andsnúnir að komast í sögubækurnar, voru þeir fyrst og fremst flugmenn og voru ákaflega metnaðarfullir sem slíkir. Apollo 9 var fyrsti Apollo leiðangurinn þar sem prófa átti allt sem þurfti til að lenda á tunglinu — Satúrnus 5 eldflaugina, Apollo geimfarið, tunglferjuna og tunglbúninginn — allt nema ferðast til tunglsins.

Apollo 9 átti aldrei að fljúga til tunglsins, þar sem álitið var skynsmlegast að prófa alla þætti tunglferðar fyrst á braut um jörðu. Engu að síður yrði geimferðin álíka hættuleg og jafnvel hættulegri en tunglferð Apollo 8, því fljúga átti mönnuðu geimfari sem hafði engan hitaskjöld og kæmist því ekki til jarðar aftur færi eitthvað úrskeiðis. Geimfararnir urðu að geta unnið við erfiðar og ófyrirsjáanlegar aðstæður. Apollo 9 var draumaleiðangur tilraunaflugmannsins.

Tunglferjan

Þegar John F. Kennedy Bandaríkjaforseti ákvað árið 1961, að lenda mönnum á tunglinu fyrir lok áratugarins, hafði ekkert geimfar lent þar. Menn vissu harla lítið um tunglið en nú átti að smíða geimfar sem flytti þangað menn og kæmi þeim aftur heim, heilum á húfi.

Í upphafi leyst flestum best á að senda eitt risavaxið geimfar til tunglsins, þeirra á meðal Wernher von Braun, helsta forvígismanni tungláætlunarinnar. Vandinn var samt sá, að slíkt geimfar yrði bæði stórt og óheyrilega dýrt.

Þegar ákvörðun var tekin um að nota aðferð verkfræðingsins John Houbolts til að heimsækja tunglið — að tengja saman tvö geimför á braut um jörðina og tunglið — óskaði NASA eftir tillögum um þróun og smíði þess sem kallaðist lunar excursion module eða tunglferja.

Tunglferjan átti að vera þriðji hluti Apollo kerfisins á eftir Satúrnus 5 risaeldflauginni og Apollo geimfarinu. Smíð eldflaugarinnar og Apollo geimfarsins var tæknilega mjög krefjandi, en ekkert olli mönnum eins miklum heilabrotum og tunglferjan.

Tunglferjan átti, eins og nafnið gefur til kynna, að ferja tvo geimfara frá móðurskipinu, þ.e. Apollo geimfarinu, niður á yfirborð tunglsins, vera híbýli þeirra í allt að þrjá sólarhringa og koma þeim síðan aftur á braut um tunglið þar sem það gæti tengst við móðurskipið á ný.

Þrepaskipt tunglferja

Haustið 1962, skömmu eftir að NASA kynnti tunglferðaáætlunina, kepptust nokkur verkfræðifyrirtæki um að fá að smíða þetta einstaka geimfar.

Eitt þeirra var Gumman Aerospace Corporation á Long Island í New York ríki. Grumman hafði varið rúmu ári í að skoða leiðir til að lenda á tunglinu og var þess vegna örlítið betur undirbúið en önnur fyrirtæki. Tillagan sem fyrirtækið sendi inn var aðeins 60 blaðsíður, en tæknilega ítarlegri en aðrar.

Grumman stakk upp á að smíða þrepaskipta tunglferju. Neðra þrepið væri lendingarþrep sem flytti geimfarana niður á yfirborð tunglsins. Eftir tunglkönnun myndi það svo breytast í skotpall fyrir efra þrepið eða flugtaksþrepið sem kæmi geimförunum aftur á braut um tunglið.

Verkfræðingarnir vissu að þyngd var lykilatriði í tunglferð. Til að komast upp frá tunglinu aftur, væri best að skilja þyngsta hlutann eftir, þ.e. neðra þrepið. Þegar geimfararnir kæmu aftur inn í stjórnfarið, yrði flugtaksþrepið losað frá stjórnfarinu og myndi síðan brotlenda á tunglinu.

NASA leist vel á þessa hugmynd og gerði í nóvember 1962 samning við Grumman um að smíða eitt flóknasta geimfar sögunnar, geimfarið sem lenda átti mönnum á tunglinu fyrir lok áratugarins.

Átta ár voru til stefnu og hljómaði það eins og langur tími í byrjun. Í raun hefði þróun tunglferjunnar þó átt að hefjast miklu fyrr. Hún var alltaf á eftir áætlun og fór langt yfir kostnaðaráætlun.

Þróun og smíði

Þegar þróun tunglferjunnar hófst vissi enginn neitt um yfirborðið sem lenda átti á. Sumir óttuðust að tunglferjan gæti hreinlega sokkið ofan í yfirborðið eða oltið við lendingu. Í fyrstu átti tunglferjan að hafa þrjá fætur, síðan fimm til að tryggja sem bestan stöðugleika en til að spara þyngd sættust menn að lokum á fjóra fætur.

Þyngd var einmitt helsti höfuðverkurinn. Fyrir hvert kg sem ferjan vægi, þyrfti um það bil 5 kg af eldsneyti til að koma henni út í geiminn. Halda þurfti þyngdinni í algjöru lágmarki.

Í fyrstu drögum minnti stjórnklefinn einna helst á stjórnklefa þyrlu. Ferjan átti að hafa stóra glugga og sæti fyrir geimfarana. Gluggarnir stóru voru þó alltof þungir svo ákveðið var að skipta þeim út fyrir litla þríhyrningslaga glugga. Sætin voru líka fjarlægð. Geimfararnir skyldu standa við lendingu.

Upphaflega var heldur ekki stigi niður úr tunglferjunni. Hugmyndin var sú að geimfararnir létu sig síga út úr henni með kaðli og yrðu svo að hífa sig upp aftur til að komast inn í hana á ný. Smíðað var líkan í fullri stærð og geimfararnir látnir prófa en engum tókst að komast upp aftur. Hætt var við þetta og stiga komið fyrir á einum fæti ferjunnar.

Til að komast út úr tunglferjunni áttu geimfararnir að skríða út um hringlaga lúgu. Þegar geimfararnir prófuðu það, komust þeir ekki út um lúguna í klunnalegum geimbúningunum með kassalaga bakpoka. Þá var í staðinn sett stór kassalaga lúga.

Eftir tæplega þriggja ára þróunarvinnu, hófu verkfræðingar loks að smíða það sem margir álitu fyrsta raunverulega geimskipið. Og ekki gekk smíðin heldur þrautalaust fyrir sig.

Tunglferjan átti að hafa tvo mjög ólíka eldflaugahreyfla. Lendingarhreyfillinn á neðra þrepinu varð að hafa stýranlega eldsneytisgjöf, en fram til þess hafði enginn slíkur eldflaugahreyfill verið smíðaður. Til að hægja ferðina og lenda mjúklega á tunglinu — og fljúga yfir í leit að heppilegum lendingarstað — var nauðsynlegt að geta stýrt eldsneytisgjöfinni.

Eldflaug efra þrepsins, flugtaksþrepsins, var enn erfiðara í smíðum. Þótt ekki væri þörf á stýranlegri eldsneytisgjöf þar, varð hreyfillinn að virka fullkomlega – í öllum tilvikum. Ef hreyfillinn virkaði ekki á tunglinu, kæmust geimfararnir aldrei burt aftur.

Flugtakshreyfillinn var því hafður eins einfaldur og mögulegt var. Notast var við tvo mjög hvarfgjarna eldsneytisvökva sem sprungu við snertingu. Þá þyrfti hvorki að reiða sig á dælur eða kveikjara, sem var mikill kostur.

Helsti ókosturinn var þó sá, að eldsneytið var baneitrað og svo tærandi, að eftir prófanir varð að smíða hvern einasta hreyfil upp á nýtt. Vegna þessa var aldrei hægt að prófa hreyfilinn áður en hann færi til tunglsins. Fyrsta og eina skiptið sem hreyfillinn var ræstur, var þegar fara ætti frá tunglinu.

Hitastig var enn annað vandamál sem leysa þurfti. Á tunglinu sveiflast hitastig mikið. Í sólskini er yfir hundrað stiga hiti en í skugga er hundrað stiga frost. Einangra þurfti tunglferjuna eins og frekast var unnt, svo koma mætti í veg fyrir að eldsneytið syði í hitanum eða frysi í kuldanum.

Útilokað var að setja þunga einangrun utan á ferjunnar. En hjálp barst úr óvæntri átt.

Upp úr 1950, skömmu áður en geimkapphlaupið hófst, fann bandaríska fyrirtækið DuPont upp pólýesterefni sem kallast mylar og er stundum húðað með málmum eins og gulli eða áli til að virka sem einangrari. Mylar er næfurþunnt og lauflétt en með því að stafla yfir tuttugu mylarörkum saman var hægt að útbúa fislétta en góða einangrun. Tunglferjan var því pökkuð inn í gull- og silfurlitað mylar.

Smám saman tók tunglferjan á sig mynd en lokaútgáfa hennar var hálfgerð móðgun við þau tignarlegu geimskip sem fólk kannast við úr vísindaskáldsögum og kvikmyndum.

Köngulóin

Tunglferjan, þetta flóknasta geimfar sem smíðað hafði verið, minnti einna helst á risavaxna fimm og hálfs metra háa og fjögurra metra breiða fjórfætta pöddu með tvö þríhyrningslaga augu sem glugga og gapandi kassalaga lúgu sem munn. Þetta var forljótt geimskip sem menn lærðu að sjá fegurðina í þegar á leið. Engin furða að áhöfn Apollo 9 kallaði tunglferjuna sína Spider eða Könguló.

En það var góð ástæða fyrir því að tunglferjan leit svona skringilega út. Hún var fyrsta raunverulega geimskipið, hannað til að fljúga aðeins í tómarúmi himingeimsins. Engu máli skipti þótt hún hefði örmjóa, vélræna fætur og eldflaugahreyfla og loftnet í allar áttir. Það eina sem skipti máli var að hún kæmi tveimur mönnum heilum á húfi, til og frá tunglinu. Tunglferjan varð bara að virka.

Paddan stóra var fislétt og viðkvæm, svo viðkvæm raunar að erfiðlega gekk fyrir McDivitt og Schweickart að prófa tunglferjuna sem þeir áttu að fljúga á braut um jörðina. Fyrir kom að þeir brutu festingar og stjórntæki í henni.

Leiðangur Apollo 9

Fyrirhugað var að skjóta Apollo 9 á loft þann 28. febrúar 1969. Daginn fyrir geimskot kom í ljós við  læknisskoðun að allir geimfararnir sýndu merki um flensu. Eftir vandamálin sem flensa olli í Apollo 7 og magakveisu Frank Borman í Apollo 8, vildu stjórnendur ekki taka neinu áhættu og frestuðu geimskotinu um fáeina daga þar til geimfararnir höfðu losað sig við flensuna.

Þegar McDivitt, Scott og Scwheickart settust loks inn í geimfarið á skotpallinum, var eldsvoðinn í Apollo 1 ofarlega í huga þeirra. Þeir vildu vera vissir um að komast hratt og örugglega út úr farinu ef til þess kæmi. Þrengslin voru slík að hendur geimfaranna lágu stundum ofan á öðrum. Eftir að Guenter Wendt, foringinn á skotpallinum, hafði tjóðrað þá niður og lokað lúgunni, ákváðu Dave Scott og Rusty Schweickart að losa örlítið sætisólarnar svo betur færi um þá.

Apollo 9 tókst hægt og rólega á loft. Þegar fyrsta þrep eldflaugarinnar losnaði frá og annað þrepið tók við, var krafturinn slíkur að Scott og Schweickart köstuðust fram í sætum sínum að mælaborðinu fyrir framan þá, svo hjálmarnir nánast snertu það. „Vó“ sögðu þeir báðir og litu hvor á annan. Þeir ráðlögðu félögum sínum í næstu ferðum að losa sætisólarnar ekki.

Prófanir á tunglferjunni

Strax og komið var á braut um jörðina hófst einn mikilvægasti og vandasamasti hluti leiðangursins: Að tengja stjórnfarið við tunglferjuna og draga hana úr þriðja þrepi Satúrnus flaugarinnar. Ef það virkaði ekki yrði ómögulegt að lenda á tunglinu.

Scott tók stjórnina og losaði stjórnfarið frá þriðja þrepinu. Hann sneri geimfarinu síðan við, flaug að þriðja þrepinu aftur, tengdi stjórnfarið við tunglferjuna og dró hana út. Allt þetta gerðist á 28.000 km hraða klukkustund. Báðum geimförum var síðan flogið saman á braut um jörðina með því að ræsa hreyfil Apollo geimfarsins og reynslan sem fékkst af því varð til þess að bjarga lífum þriggja geimfara fjórum Apollo leiðöngrum síðar.

Geimveikur geimfari

Á þriðja degi áttu Schweickart og McDivitt að fara inn í tunglferjuna í fyrsta sinn með því að svífa í gegnum lítil og þröng göng sem tengdu stjórnfarið við tunglferjuna. Schweickart sveif um í neðri hluta stjórnfarsins, á rúmgóðum stað undir sætunum og var að klæða sig í geimbúninginn sinn þegar hann skynjaði hvorki upp né niður og kastaði skyndilega upp. Honum tókst að halda munninum lokuðum þar til hann fann ælupoka.

Fyrir leiðangurinn hafði verið ákveðið að reyna að koma í veg fyrir geimveiki með því að brýna fyrir geimförunum að hreyfa sig rólega. Fyrstu tvo dagana fóru geimfararnir sér hægt en um leið og áreynslan varð meiri, kom geimveikin fram. McDivitt varð líka óglatt en kastaði ekki upp.

Schweickart jafnaði sig fljótt af ógleðinni. Hann fór inn í göngin milli geimfaranna og leið vel þótt hann kæmi inn í tunglferjuna á hvolfi. Schweickart ræsti tunglferjuna og kastaði aftur upp stuttu síðar. Leiðangursstjóranum leist ekki vel á uppköstin hjá Schweickart því daginn eftir átti hann að prófa tunglbúninginn í geimgöngu. Slíkt væri útlokað ef hætta væri á uppköstum. Ælan myndi svífa um í búningnum, stífla nef og munn og verða geimfaranum að bana.

Ákveðið var að taka enga áhættu og slá geimgöngunni á frest. Schweickart var að vonum vonsvikinn en skildi ákvörðunina. Hann missti matarlystina og borðaði fátt annað en ávexti það sem eftir leið ferðarinnar.

Það sem gerst hafði var að þyngdarleysið hafði truflað jafnvægisskyn geimferanna. Í geimnum er geimfari stöðugt í frjálsu falli. Jafnvægisskynið í innra eyranu sendir heilanum þau skilaboð að maður sé að falla. Á sama tíma senda augun heilanum harla ólíkt skilaboð: Nei, ég er ekki að detta segja augun við heilann. Ég er uppréttur, á hvolfi eða á hlið, allt eftir því hvernig geimfarinn snýr í geimfarinu. Þetta rifrildi milli augnanna og eyrans getur valdið því að fólki verður óglatt og kastar upp. Hreyfingar inni í geimfarinu auka gjarnan á ógleðina.

Þetta hafði ekki gerst í Mercury og Gemini leiðöngrunum, því geimförin voru svo lítil að geimfararnir gátu ekki hreyft sig um. Apollo geimfarið var miklu rúmbetra. En alveg eins og sumir verða hvorki flugveikir, sjóveikir eða bílveikir, verða ekki allir geimfarar geimveikir.

Geimganga Schweickarts

Eftir fáeina daga hafði heili Schweickarts lært að túlka misvísandi skilaboð frá augum og eyrum og vanist þyngdarleysinu. Schweickart jafnaði sig á geimveikinni og var tilbúinn til að fara í geimgönguna mikilvægu.

Schweickart fór út úr tunglferjunni í tunglbúningum og var í raun lítið, sjálfstætt geimfar, fast við tunglferjuna. Honum leið vel og fannst auðvelt að hreyfa sig og athafna utandyra. Á sama tíma stóð Dave Scott í lúgu stjórnfarsins og tók myndir af Schweickart svífa yfir Jörðinni. Þegar myndavélin bilaði fór Scott inn í stjórnfarið aftur til að laga hana. Í fimm mínútur hafði Schweickart ekkert að gera annað en að njóta útsýnisins.

Tunglferjunni flogið í fyrsta sinn

Næsta dag var komið að mikilvægustu prófuninni. McDivitt og Schweickart komu sér fyrir inni í tunglferjunni en Scott sat einn eftir í stjórnfarinu. Scott ýtti á hnapp sem losaði geimförin tvö. „Okay, þú ert laus,“ kallaði Scott til félaga sinn. Út um gluggann sá hann tunglferjuna svífa burt hægt og rólega uns hún var komin svo langt, að hún leit út eins og björt stjarna á kolsvörtum himninum. Hann vissi að félagar sínir voru að leggja sig í mikla hættu. Ef tunglferjan virkaði ekki, yrði hann að bjarga þeim.

McDivitt og Schweickart flugu tunglferjunni með því að ræsa eldflaugahreyfil neðra þrepsins og stýriflaugarnar. Þannig reyndu þeir að finna út hvort tunglferjan væri nógu örugg til að lenda á tunglnu. Þeim þótti tunglferjan láta vel að stjórn, jafnvel enn betur en stjórnfarið. Í lokin losuðu þeir neðra þrepið frá og ræstu eldflaugahreyfil efra þrepsins. Allt gekk eins og til var ætlast, bæði eldflaugar og ratsjár.

Eftir rúmlega sex klukkustunda langt próf mættust tunglferjan og stjórnfarið á ný. Dave Scott fylgdist grannt með og þegar hann sá Köngulóna birtast aftur, sagði hann: „Þú ert stærsta, vinalegasta og skrítnasta könguló sem ég hef nokkru sinni séð.“

Stjórnfarið og tunglferjan tengdust saman aftur, rétt eins og gera þyrfti á braut um tunglið. Þetta var síðasta púslið sem vantaði fyrir tungllendingu.

Heimkoma

Tíu daga geimferð Apollos níunda lauk í dag. Geimfarið lenti um klukkan 17 að íslenskum tíma á Atlantshafi; lendingin gekk ágætlega að öllu leyti og leið geimförunum prýðilega. Geimfarið lenti örskammt frá flugvélaskipinu U.S. Guadalcanal (gvadal-kanal) og sáu skipverjar, þegar Apollo níundi sveif niður í þremur fallhlífum. Hálfri klukkustund eftir lendingu voru geimfararnir: Þeir Jim McDivitt, David Scott og Russell Schweickart komnir í gúmmíbáta, síðan voru þeir fluttir í þyrlum til flugvélaskipsins og fögnuðu skipverjar þeim ákaft. - Bandarískir vísindamenn eru mjög ánægðir með árangurinn af för Apollos níunda. Yfirmaður bandarísku geimvísindastöðvarinnar í Houston í Texas segir, að eftir hina vel heppnuðu tilraun með tunglferju Apollós níunda, sé hann sannfærður um að heppnast muni að senda menn til tunglsins í sumar.
– Frétt Ríkisútvarpsins kl. 22:00, 13. mars 1969

Eftir leiðangurinn hætti Jim McDivitt sem geimfari og sneri sér að stjórnunarstörfum hjá NASA, þótt honum hafi boðist að stýra leiðangri Apollo 13.

Rusty Schweickart gerðist tilraunadýr eftir heimkomuna. Bæði hann og NASA vildu komast að því hvernig honum hefði tekist að losna við geimveikina. Í þrjá mánuði gekk hann sjálfviljugur í gegnum prófanir sem ollu honum ógleði. Hann fór aldrei aftur í geimferð en kom breyttur maður heim. Geimgangan og útsýnið sem hann hafði yfir Jörðina hafði mikil áhrif á hann. Hann fann fyrir aukinni ábyrgð til móður jarðar sem hann hafði séð í öllu sínu veldi og varð mikill umhverfisverndarsinni.

Dave Scott varð leiðangursstjóri Apollo 15 tveimur árum síðar í fyrstu raunverulegu vísindaferðinni til tunglsins.

Leiðangur Apollo 9 hafði gengið svo vel að ekki var þörf á frekari prófanunum á braut um jörðina. Ánægjan var slík, að til tals kom að sleppa hreinlega næsta leiðangri, leiðangri Apollo 10, sem fyrirhugaður var í maí og henda sér beint í sjálfa tungllendinguna. Þann 24. mars tilkynnti NASA opinberlega að Apollo 11 yrði fyrsta tilraunin til að lenda á tunglinu. En áður en það gat gerst, þurfti fyrst eina lokaæfingu.