Gemini geimáætlunin

Þegar John F. Kennedy Bandaríkjaforseti kynnti áætlanir sínar um að koma mönnum til tunglsins fyrir lok sjötta áratugarins, varð yfirmönnum NASA ljóst að brúa þurfti bilið á milli Mercury og Apollo verkefnanna. Í desember 1961, þegar bandaríkjamenn höfðu aðeins farið í tvær fimmtán mínútna langar geimferðir, var þessi nýja áætlun kynnt heimsbyggðinni en hún var kölluð Gemini.

Markmið Gemini verkefnisins voru mörg og mikilvæg. Sýna þurfti fram á að menn gætu lifað af að minnsta kosti tveggja vikna geimferð, því lengstu tunglferðirnar tækju allt að tvær vikur. Í Gemini átti líka að tengja saman tvö geimför í geimnum.

Sýna varð fram á að menn gætu unnið fyrir utan verndarhjúp geimfarsins. Betrumbæta þurfti tæknina til að komast í gegnum lofthjúpinn og lenda nákvæmlega á fyrirfram ákveðnum stað. Að lokum áttu geimfararnir að öðlast alla þá reynslu sem þurfti til að stýra Apollo geimfari til tunglsins. Ef eitthvað af þessu gengi ekki upp, væri útilokað að ferðast til þangað.

Gemini geimfarið

Gemini geimfarið líktist mjög Mercury geimfarinu, en var mun stærra í sniðum. Það var keilulaga, 5,7 metra langt, 3 metra breitt og vó rúmlega fjögur tonn, ekki ósvipað stórum jeppa, þótt rýmið inni væri heldur smærra. Geimfarinn Gus Grissom, annar Bandaríkjamaðurinn sem fór út í geiminn, tók virkan þátt í hönnun geimfarsins, svo mjög raunar að það var gjarnan kallað Gusmobile.

Gemini var of stórt fyrir Atlas flaugina sem hafði borið John Glenn á braut um Jörðina. Í stað hennar var komin Titan II eldflaug sem var tveggja þrepa, rúmir 33 metrar á hæð og 154 tonn.

Ólíkt Mercury höfðu geimfararnir miklu betri stjórn á Gemini geimfarinu. Hægt var að breyta braut geimfarsins en þannig var mögulegt að láta tvö geimför mætast í geimnum og tengja þau saman.

Allur búnaður, eldsneyti og súrefnisbirgðir voru í þjónustufari sem tengt var við stjórnfarið. Sama hugsun og lá að baki Apollo geimfarinu.

Gemini geimfarið var nýstárlegt í alla staði, nokkurn veginn eins og sportbíll við hliðina á Mercury farinu. Gemini var fyrsta mannaða geimfarið sem innihélt tölvu en hún sá um leiðsagnarkerfið.

Gemini geimförin báru tvo menn, þótt þrengslin væru mjög mikil, ekki ósvipað plássinu í tveimur símaklefum. Tveir menn kölluðu vitaskuld á titla samkvæmt hlutverki í geimferðinni. Eðlilegast væri auðvitað að hafa flugmann og aðstoðarflugmann en menn með stórt egó sættu sig ekki við að vera titlaðir aðstoðarflugmenn. Hjá NASA klóruðu menn sér í kollinum og ákváðu að titla geimfarana leiðangursstjóra, sem var nokkurs konar flugstjóri, og flugmann.

Nýir geimfarar

Verkefni Gemini voru mörg og flókin svo NASA þurfti nauðsynlega á nýjum geimförum að halda.

Í september árið 1962 bætti NASA við níu geimförum við hina upprunalegu sjö. Nýju geimfararnir þurftu að hafa háskólagráðu í verkfræði og búa að reynslu sem tilraunaflugmenn. Ekki var skilyrði að þeir kæmu úr hernum. Í þessum geimfarahópi voru menn eins og Frank Borman, Pete Conrad, Jim Lovell, Ed White og Neil Armstrong.

Rétt rúmu ári síðar bættust þrettán nýir geimfarar í hópinn en í þetta sinn var ekki nauðsynlegt að hafa reynslu af tilraunaflugi. Í þessum hópi voru meðal annarra Buzz Aldrin, Alan Bean, Gene Cernan, Roger Chaffee, Michael Collins, Dave Scott og Bill Anders en sá síðastnefndi hafði nokkrum árum áður gegnt herskyldu hér á Íslandi.

Í fyrstu lék ekki nokkur vafi á hver fengi að stýra fyrsta Gemini leiðangrinum. Enginn annar kom til greina en Alan Shepard, fyrsti Bandaríkjamaðurinn sem fór í geimferð.

Shepard hafði verið að æfa í nokkra mánuði þegar hann vaknaði morgun einn, gekk inn á baðherbergið sitt og missti allt jafnvægisskyn. Hann stóð vart í lappirnar, það var eins og hann snerist, þótt hann væri grafkyrr.

Læknum þótti þetta grunsamlegt og Shepard fór í ítarlega læknisskoðun. Í ljós kom að Shepard þjáðist af Ménierse sjúkdómnum, sem leggst á innra eyrað og hefur áhrif á jafnvægisskynið. Geimfari varð að hafa jafnvægisskynið í lagi. Shepard var kyrrsettur og færi ekki í fleiri geimferðir. Þetta var honum vitaskuld mikið áfall. Deke Slayton, einn af Mercury geimförunum sjö sem nú var orðinn yfirmaður geimfaranna eftir að hafa verið sjálfur kyrrsettur af læknum vegna óreglulegs hjartsláttar, bauð Shepard stöðu við hlið sér. Saman myndu þeir velja áhafnir og hafa umsjón með geimförunum.

Leiðangrar

Gemini 3

Í stað Shepards var Gus Grissom fenginn til að stjórna fyrsta mannaða Gemini leiðangrinum, Gemini 3, ásamt nýliðanum John Young en þeir þóttu passa ákaflega vel saman persónulega. Markmið Gemini 3 var einfalt: Að prófa hreyfanleika geimfarsins með því að hækka og lækka brautina.

Grissom var ekki búinn að gleyma því hvernig fyrsta geimferð hans endaði þegar geimfarið hans, Libery Bell 7, sökk í Atlantshafið eftir að lúgan hafði skotist sjálfkrafa af farinu eftir lendingu. Grissom nefndi Gemini 3 farið sitt Molly Brown og vísaði þar til söngleiksins The Unsinkable Molly Brown, Hin ósökkvanlega Molly Brown. NASA leist illa á nafnið og bað Grissom að breyta því. „Hvað með Titanic?“ svaraði Grissom. Það var eiginlega verra og leyfðu yfirmenn NASA Grissom að halda nafninu Molly Brown.

Örfáum dögum fyrir geimferðina bárust fréttir af enn einu afreki sovétmanna. Alexei Leonov hafði varið 12 mínútum fyrir utan geimfarið Voskhod 2 í geimgöngu, svífandi í 300 km hæð yfir móður Jörð. Geimgangan gekk að mestu leyti vel, nema undir lokin þegar geimbúningur Leonovs hafði þanist svo mikið út, að hann gat ekki kreppt hnefana og komst ekki aftur inn í geimfarið. Með herkjum tókst Leonov þó að dæla lofti úr búningnum og koma sér aftur í geimfarið. Leonov sagði síðar að hann hefði haft með eiturpillu til að fremja sjálfsvíg ef geimgangan hefði misfarist.

Fjórum dögum eftir geimgöngu Sovétmanna, þann 23. mars 1965, var Gemini 3, eða Molly Brown, skotið á loft. Þegar á braut um Jörðina var komið var John Young orðinn svangur. Hann hafði, með leyfi Deke Slayton, smiglað kjötsamloku um borð með því að fela hana í vasa á geimbúningi sínum. Það þótti Grissom mjög skemmtilegt en stjórnendum á Jörðu niðri var alls ekki skemmt. Brauðmylsnan hefði nefnilega getað smogið inn í rafkerfi geimfarsins, valdið skammhlaupi og eyðilagt það. Young og Grissom fengu skammir í hattinn þegar þeir sneru til baka og aðrir geimfarar voru varaðir við að leika þenna hættulega leik eftir.

Gemini 4 – Fyrsta geimganga Bandaríkjamanna

Til að svara geimgönguafreki Sovétmanna var leiðangri Gemini 4 flýtt um nokkra mánuði. Þeir Jim McDivitt og Ed White voru sendir út í geiminn í byrjun júní 1965, drekkhlaðnir verkefnum. Þeir áttu að mæta efra þrepi Titan II eldflaugarinnar á braut um Jörðina, nota sextant til að sigla eftir stjörnunum, nokkuð sem mikilvægt var fyrir tunglferðirnar, og svo átti Ed White að fara í geimgöngu, fyrstur Bandaríkjamanna.

McDivitt og White vörðu fjórum sólarhringum í geimnum. Strax á fyrsta degi dældu geimfararnir loftinu úr stjórnklefanum, opnuðu síðan lúguna og Ed White sveif út úr farinu, tjóðraður við það. White fór mest 5 metra frá geimfarinu og naut svo sannarlega þessarar einstöku lífsreynslu, svo mjög að stjórnendur á Jörðu niðri urðu að skipa honum að fara aftur inn í geimfarið.

Geimganga Ed Whites var stórsigur fyrir Bandaríkin. Með henni stóðu þeir nú jafnfætis Sovétmönnum í kapphlaupinu til tunglsins.

Gemini 5, Gemini 6 og Gemini 7

Sex mánuðum síðar var tveimur Gemini geimförum skotið á loft með stuttu millibili. Fyrst fóru þeir Frank Borman og Jim Lovell, báðir nýliðar, út í geiminn með Gemini 7 þann 4. desember 1965. Þeirra helsta markmið var ekki beinlínis öfundsvert: Að dvelja saman í geimnum í tvær vikur og setja um leið dvalarmet. Ef menn ætluðu sér til tunglsins, var mikilvægt að vita hvort menn entust svo lengi í geimnum.

Hitt markmiðið var að eiga stefnumót við annað mannað geimfar á braut um Jörðina.

Viku eftir að Borman og Lovell fóru út í geiminn, þann 12. desember, settust Wally Schirra og nýliðinn Tom Stafford um borð í Gemini 6. Þetta var leiðangur að skapi Schirra. Lítið um vísindi en þeim mun meiri nákvæmnisvinna.

Talið var niður en þegar eldflaugarnar voru ræstar gerðist ekkert. Flaugin stóð grafkyrr á skotpallinum. Þeir Wally og Tom sátu ofan á tifandi tímasprengju.

Reglurnar sögðu að koma ætti geimförunum burt frá eldflauginni eins hratt og auðið væri, annars gæti eldflaugin sprungið. Það var hlutverk Wally sem leiðangursstjóra að toga í hring undir sætinu sínu sem myndi skjóta þeim báðum út úr geimfarinu. Wally braut reglurnar en fylgdi innsæi sínu. Hefði hann togaði í hringinn, hefði geimfarið skemmst, leiðangurinn misheppnast og þeir líklega stórslasað sig.

Önnur tilraun var gerð þremur dögum síðar. Að þessu sinni gekk allt samkvæmt óskum. Schirra og Stafford þutu út í geiminn og stefndu í átt að Borman og Lovell á yfir 26.000 km hraða á klukkustund. Þeir færðust sífellt nær en þegar fjarlægðin milli þeirra var minnst, skildu aðeins 30 cm á milli geimfaranna. Það var eins og Schirra og Stafford og Borman og Lovell hefðu gert þetta mörgum sinnum áður.

Gemini 6 sneri aftur til Jarðar eftir einn sólarhring í geimnum en Borman og Lovell vörðu tveimur dögum í viðbót á braut um Jörðina. Læknar höfðu mestar áhyggjur af líkamlegu ástandi þeirra en flestir höfðu aðeins meiri áhyggjur af geðheilsu þeirra.

Það var nefnilega ekki auðvelt að verja tveimur vikum í hylki á stærð við símaklefa með öðrum manni. Báðir sváfu heldur lítið. Annar varð að vera vakandi á meðan hinn svaf. Hávaðinn kom í veg fyrir að þeir svæfu vel. Lovell hafði með sér bók en las frekar lítið í henni. Í staðinn sungu þeir saman lagið He'll have to go með Nat King Cole í fjórtán daga.

Áhöfn Gemini 7 sneri aftur til Jarðar þann 18. desember. „Við ætluðum að haldast í hendur og segjast vera trúlofaðir,“ sagði Lovell. Flestir bjuggust við að geimfararnir væru ekkert sérstaklega vel á sig komnir en göngulag beggja var sérkennilegt. Eiginkona Lovells sagði að hann hefði litið út eins og hann hefði gert í buxurnar.

Gemini 8

Næsta stóra skref var að tengja saman tvö geimför. Í mars árið 1966 var Gemini 8 skotið á loft með þá Dave Scott og Neil Armstrong innaborðs. Þetta var fyrsta geimferð beggja og var Armstrong leiðangursstjóri. Scott og Armstrong áttu að endurtaka afrek Gemini 6 og 7, sem framkvæmdu fyrsta stefnumótið í geimnum, en ganga skrefi lengra og tengja Gemini farið sitt við Agena flaug, en það var í fyrsta sinn geimskip voru tengd saman í geimnum.

Samtengingin tókst en þá fór að snúa á ógæfuhliðina. Bilun var í einni af stýriflaug Gemini 8 sem olli því að báðar flaugarnar tóku að snúast stjórnlaust.

Eftir að hafa reynt að ná stjórn á farinu ákvað Neil að losa Agena flaugina frá Gemini farinu. Það tókst þó ekki betur en svo að snúningshraðinn snarjókst. Geimfarið snerist meira en einn hring á sekúndu sem gat haft áhrif á sjónina og reynst lífshættulegt. Geimfarið virtist stjórnlaust þegar Neil greip til þess örþrifaráðs að ræsa bremsuflaugarnar. Það virkaði sem betur fer og lentu geimfararnir í röngu hafi miklu fyrr en áætlað var, um 8000 km frá fyrirhugðum lendingarstað. Armstrong og Scott þóttu hafa sýnt mikið snarræði og leikni við neyðaraðgerðirnar.

Gemini 9

Eftir að gengið hafði verið úr skugga um að þetta endurtæki sig ekki, voru Tom Stafford og Gene Cernan sendir út í geiminn með Gemini 9. Cernan átti að fara í geimgöngu og vinna létt verk utandyra á meðan Stafford beið inni í geimfarinu. Flestir bjuggust við að þetta yrði leikur einn, en annað kom á daginn.

Geimgangan reyndist miklu erfiðari en menn áttu von á. Cernan glímdi við sjálfan sig í rúmar tvær klukkustundir. Öll hans orka fór í að reyna að koma sér fyrir til að geta sinnt verkefnunum. Hann svitnaði óskaplega og missti 5 kg í ferðinni. Hann var orðinn rennblautur, dauðþreyttur og blindur vegna móðu sem hafði safnast fyrir á hjálmi hns. Cernan reyndi að koma sér inn í farið aftur en átti í stökustu vandræðum með það. Hann var algerlega hjálparlaus í þyngdarleysinu. Útilokað var fyrir Stafford að toga hann inn. Í neyðartilviki, ef öll von væri úti, átti Stafford að skera á línuna, loka lúgunni og skilja Cernan eftir í opinn dauðann. Til allrar lifandis lukku kom þó ekki til þess.

Gemini 10 og Gemini 11

Í Gemini 11 náðu Pete Conrad og Dick Gordon að eiga stefnumót við aðra flaug án aðstoðar frá Jörðu. Þetta var mikilvægur áfangi, því síðar meir þyrftu tunglfarar að leika sama leik umhverfis tunglið. Geimförin voru tengd saman og flutt á hærri braut en nokkurt mannað geimfar hafði áður farið. Í 1350 km hæð yfir Jörðinni fór Gordon í geimgöngu en hann lenti í svipuðum erfiðleikum og Cernan áður vegna þreytu. Sama var uppi á tengingum í leiðangrinum á undan, Gemini 10, þegar Michael Collins fór í geimgöngu.

Gemini 12

Geimganga virtist ætla að vera helsti farartálminn á leiðinni til tunglsins. Ef ekki gengi að vinna fyrir utan geimfarið, yrðu tunglferðirnar lítið annað en útsýnisferðir.

Þá kom til skjalanna maður að nafni Edwin Buzz Aldrin. Aldrin var verkfræðingur með doktorsgráðu frá MIT háskólanum. Hann var eldklár og hugvitssamur en sumum þótti hann ægilegur hrokagikkur. Buzz var handviss um að hann gæti leyst öll vandamálin við geimgöngur. Hann áttaði sig á að maður þurfti að vera varfærinn og mjúkhentur.

Buzz gerbreytti þjálfunaraðferðunum. Hann henti geimfari ofan í stóra og djúpa sundlaug og stökk síðan á eftir því í geimbúningi. Á skömmum tíma fullkomnaði hann listina við að vinna í geimnum. Hann lét bæta við handföngum utan á geimförin, fótfestum, teygjum og fleiri hlutum sem hjálpuðu mönnum að athafna sig.

Í nóvember 1966 var Jim Lovell sendur aftur út í geiminn ásamt Buzz Aldrin í Gemini 12. Buzz var eins og mennsk fluga utan á geimfarinu í fimm og hálfa klukkustund og framkvæmdi margvísleg störf, eins og hann hefði aldrei gert neitt annað. Buzz tókst það sem öllum hafði mistekist áður og fært Bandaríkin skrefi nær tunglinu.

Gemini 12 lenti á Atlantshafi 15. nóvember eftir fjóra daga í geimnum. Með því lauk Gemini áætluninni með ótvíræðum árangri.

Tunglið virtist nær en nokkru sinni fyrr. Fyrstu tilraunir með ómönnuðum Apollo för voru þegar hafnar og stutt var í fyrstu mönnuðu ferðina. Sá leiðangur komst reyndar ekki lengra en á skotpallinn því hún endaði með ósköpum sem kostaði þrjá menn lífið og batt næstum enda á tungláætlunina.