Sovéska geimáætlunin

Mannaða geimáætlunin

Í janúar árið 1959, hófu Sovétmenn undirbúning á mannaðri geimferð. Sergei Korolev, maðurinn á bak við geimáætlun Sovétmanna, vann þá að þróun geimfars sem flytja átti mann út í geiminn og heim aftur.

Geimfarið var kallað Vostok sem þýðir Austur. Því var upphaflega ætlað tvenns konar hlutverk. Það átti annars vegar að vera ómannað njósnagervitungl og hins vegar mannað geimfar. Þetta tvöfalda notagildi var nauðsynlegt til að tryggja stuðning kommúnistaflokksins við verkefnið.

Vostok geimfarið skiptist í tvennt, annars vegar í sívalningslaga þjónustufar og hins vegar kúlulaga stjórnfar sem losnaði frá þjónustufarinu fyrir heimkomu. Stjórnfarið var aðeins 2,3 metrar á breidd og vó tæplega tvö og hálft tonn. Í því átti geimfarinn að dvelja á meðan geimferðinni stóð.

Geimfarið var því lítið og þröngt svo setja þurfti skorður á stærð og þyngd geimfarans. Korolev sagði læknum í sovéska hernum að leita að karlmönnum á aldrinum 25 til 30 ára sem væru innan við 175 cm á hæð og undir 70 kg að þyngd. Það mikilvægasta var þó að þeir hefðu fallegt bros.

Geimfarar

Sovéskir geimfarar voru kallaðir „cosmonauts“ sem þýðir þeir sem „sigla um alheiminn“ og töldu læknarnir að orrustuflugmenn væru best fallnir til þess. Flugmennirnir þurftu að vera andlega og líkamlega mjög vel á sig komnir og höndla vel streituvaldandi aðstæður.

Leitað var um öll sovétríkin að réttu mönnunum. Kandídatar voru teknir í viðtöl en verkefnið var svo leynilegt að enginn vissi um hvað það snerist eða hver stóð á bak við það.

Af öllum þeim sem komu til greina, komust 200 kandídatar í gegnum viðtalshlutann. Þá tóku við langar og strangar prófanir á líkamlegu og andlegu atgervi mannanna. Þegar upp var staðið voru tuttugu menn álitnir hæfir til þess að verða geimfaraefni. Ólíkt fyrstu geimförum NASA, sem voru sjö og höfðu verið valdir stuttu áður, voru sovésku geimfararnir ekkert sérstaklega reyndir flugmenn.

Hafist var handa við að koma upp æfingamiðstöð fyrir geimfaraefnin og tóku þá við mjög erfiðar æfingar. Meðal þess sem mennirnir þurftu að ganga í gegnum var dvöl í einangrunarklefa. Þeir vissu aldrei hversu lengi þeir þurftu að dvelja þar. Það gat verið allt frá nokkrum klukkustundum upp í meira en þrjár vikur. Hitastigið í klefanum var hækkað og lækkað til skiptis — stundum fór hitinn upp í 50 gráður og stundum töluvert undir frostmark. Geimfararnir vissu ekkert hvað klukkan var og gátu ekki haft neitt samband við umheiminn.

Geimfaraefnunum var einnig gert að stunda nám og lærðu meðal annars ýmislegt um eldflaugar, jarðeðlisfræði og stjörnufræði.

Ákveðið var að hraða þjálfun sex geimfaraefna af tuttugu. Þessir sex áttu það allir sameiginlegt að vera lágvöxnustu mennirnir í hópnum. Þeirra á meðal var ungur maður að nafni Júrí Gagarín en hann var aðeins 157 cm á hæð.

Fyrsta mannaða geimferðin

Júrí Gagarín var 25 ára gamall þegar hann var valinn sem geimfaraefni. Hann var fæddur þann 9. mars árið 1934 í þorpinu Klushino í Smolensk, einu fátækasta svæði Rússlands. Foreldrar hans unnu á samyrkjubúi og þar ólst hann upp við heldur dapran kost, sér í lagi þegar nasistar hernámu svæðið í heimsstyrjöldinni.

Erfið æska hafði mótandi áhrif á Gagarín. Hann var mjög forvitinn um allt milli himins og jarðar og var einstaklega vinnufús. Hann hafði unun af lestri, sér í lagi var hann hrifinn af ljóðum og var sagður stálminnugur.

Gagarín skráði sig í herinn og lærði þar að fljúga. Hann kynntist konu sinni árið 1957 og eignaðist með henni tvær dætur. Að sögn annarrar dóttur hans var Gagarín alltaf með eindæmum rólegur og andlega mjög agaður. Væri hann þreyttur og þyrfti á 40 mínútna svefni að halda, þá lagðist hann niður, svaf í 40 mínútur og vaknaði á mínútunni, hjálparlaust.

Gagarín þótti standa sig sérstaklega vel í geimfaraþjálfuninni og var vel liðinn af öðrum geimfaraefnum. Þegar yfirmenn spurðu geimfaraefnin hver þeirra ætti skilið að fara í fyrstu geimferðina, voru nánast allir sammála um að Gagarín væri besti kandídatinn. Hann væri auk þess frá Rússlandi og fyrst flestir íbúar Sovétríkjanna væru Rússar, þá væri eðlilegast að fyrsti sovéski geimfarinn væri Rússi.

Sergei Korolev og yfirmaður geimfaranna, Nikolai Kamanin, áttu lokaorðið um hver færi í fyrstu geimferðina. Að lokum stóð valið á milli tveggja manna: Júrí Gagaríns og Ghermans Titovs en Gagarín þótti alltaf standa best að vígi.

Aðeins þremur dögum fyrir geimskot, þann 9. apríl 1961, tilkynntu Kamanin og Korolev að Gagarín færi í fyrstu geimferðina. Titov var vonsvikinn en Gagarín hæstánægður.  Báðum geimförum var gert að halda ákvörðuninni leyndri — svo leyndri reyndar að enginn hinna geimfaranna vissi hver hafði verið valinn fyrr en eftir geimskot. Ekki einu sinni fjölskylda Gagaríns fékk að vita nokkuð.

Læknar grannskoðuðu Gagarín fyrir ferðina. Þeir sáu að hann virkaði fölari en venjulega, var óvenju þögull og ófélagslyndur — alls ekki eins og hann átti að sér að vera. Gagarín var greinilega stressaður.

Öll geimferðin átti að vera sjálfstýrð eða stýrt frá jörðinni. Ástæðan var sú að læknar og verkfræðingar vissu ekki hvernig mannslíkaminn myndi bregðast við þyngdarleysi og hvort geimfari væri yfir höfuð fært að stýra eigin geimskipi. Í neyðartilvikum gat geimfarinn þó tekið stjórnina.

Vostok 1

Að morgni 11. apríl 1961, daginn fyrir geimskot, var eldflauginni og geimfarinu komið fyrir á skotpallinum í Baikonur geimferðamiðstöðinni í Kasakstan. Korolev skoðaði eldflaugina og geimfarið en fann ekkert athugavert. Þennan sama morgun fengu Gagarín og Títov, varamaður hans, flugáætlunina. Þeim var tjáð að geimskotið yrði næsta dag, klukkan sjö mínútur yfir níu að morgni á Moskvutíma.

Um kvöldmatarleytið voru Gagarín og Titov færðir í læknisskoðun og var skipað að ræða ekkert um geimferðina. Kvöldinu vörðu þeir í slökun, hlustuðu á tónlist, léku billjarð og spjölluðu. Tíu mínútum fyrir tíu var þeim boðin svefnpilla sem þeir afþökkuðu báðir. Læknar komu nemum fyrir á geimförunum til að fylgjast náið með ástandi þeirra um nóttina og sagði í skýrslum að báðir hefðu sofið vel. Ævisöguritarar Gagaríns segja þó að hvorugur hafi komið dúr á auga þessa nótt. Korolev svaf heldur ekki neitt vegna taugaspennu.

Klukkan hálf sex að morgni miðvikudagsins tólfta apríl voru Gagarín og Titov vaktir. Þeir fengu morgunverð, klæddust geimbúningunum sínum og var síðan ekið að skotpallinum. Gagarín gekk upp stigann að lyftunni, staldraði þar við, leit yfir dökkklæddu tæknimennina, veifaði til þeirra og flutti síðan stutta ræðu:

„Kæru vinir, þið ykkar sem eruð mér náin og þau ykkar sem ég þekki ekki, kæru samlandar og fólk frá öllum löndum og heimsálfum: Eftir nokkrar mínútur mun öflugt geimfar bera mig út í víðáttur himingeimsins. Hvað get ég sagt ykkur þessar síðustu mínútur fyrir geimskotið? Allt líf mitt birtist mér sem eitt fallegt augnablik. Allt sem ég hef gengið í gegnum og gert, gerði ég fyrir þetta augnablik.“

Klukkan tíu mínútur yfir sjö, tveimur stundum fyrir geimskot, settist Gagarín inn í geimfarið og birtist þá á skjám í stjórnstöðinni. Gagarín beið hinn rólegasti í farinu á meðan talið var niður og bað stjórnstöðina um að leika tónlist til að drepa tímann og sönglaði sjálfur með. Sergei Korolev var hins vegar mjög taugaóstyrkur.

Klukkan sjö mínútur yfir níu að Moskvutíma, sjö mínútur yfir sex að íslenskum tíma, voru eldflaugarnar ræstar og Vostok 1 tókst á loft upp í bláan himininn.

„Af stað!“ hrópaði Gagarín.

„Við óskum þér góðrar ferðar. Allt er í lagi,“ kallaði Korolev til Gagaríns.

„Þakka þér. Bless. Sjáumst fljótt kæru vinir. Bless, sjáumst,“ kallaði Gagarín.

Tíu mínútum eftir geimskot var slökkt á eldflaugunum. Vostok 1 var komið á braut um Jörðina.

„Geimfarið starfar eðlilega,“ sagði Gagarín. „Ég sé Jörðina, útsýnið er frábært. Útsýnið er gott, yfir.“

Júrí Gagarín, 27 ára gamall Rússi, var fyrsti maðurinn til að berja Jörðina augum úr geimnum.

Geimfarið flaug fyrst yfir Síberíu og þaðan austur yfir Kyrrahaf, niður að Magellanssundi í Suður Ameríku. Þá hafði Gagarín verið rúmar 40 mínútur á braut um Jörðina. Fréttir af geimferðinni spurðust þá fyrst út.

Tuttugu og fimm mínútum síðar var geimfarið búið undir heimkomu. Bremsuflaugarnar voru ræstar yfir Angóla á vesturströnd Afríku og brautin lækkuð, um 8000 km frá fyrirhuguðum lendingarstað.

Aðeins tíu sekúndum síðar voru skipanir sendar um að losa þjónustufarið frá stjórnfarinu eða hylkinu. Það tókst ekki betur en svo að þjónustufarið var enn fast við bremsuflaugina. Það gat verið stórhættulegt upp á endurkomu inn í lofthjúpinn að gera.

Klukkan 07:35 að íslenskum tíma byrjaði Vostok 1 að falla í gegnum lofthjúpinn, þá yfir Egyptalandi. Sem betur fer slitnuðu vírarnir en hylkið sem Gagarín var í snarsnerist. Gagarín sagði engu að síður að allt væri í himnalagi.

Gagarín upplifði áttfaldan þyngdarkraft þegar hann féll í gegnum lofthjúpinn, umvafinn glóandi heitu lofti, eins og loftsteinn á fleygiferð til Jarðar. Á leiðinni heim sönglaði hann lagið Ródína Slísit, „Ættjörðin heyrir“ eftir Dimitri Shostakovich við texta Yevgeniy Dolmatovsky en fyrstu línur þess eru „Ættjörðin heyrir, ættjörðin veit/er sonur hennar flýgur um himininn“.

Heimkoman var hættulegasti hluti geimferðarinnar. Ef til bilunar hefði komið voru birgðir í geimfarinu til tíu daga eða þar til það félli af sjálfu sér til Jarðar. Eftir á kom hins vegar í ljós að geimfarið var á hærri braut en gert var ráð fyrir og hefði tekið tuttugu daga að falla sjálfkrafa til Jarðar. Gagarín hefði þá verið dauðadæmdur.

Klukkan 07:55 að íslenskum tíma, þegar Vostok 1 var í 7 km hæð yfir Jörðinni, skaust lúgan af hylkinu og Gagarín út tveimur sekúndum síðar. Í tveggja og hálfs kílómetra hæð opnaðist fallhlíf Vostok geimfarsins og urðu tvær skólastúlkur vitni að því þegar það lenti nokkuð harkalega á Jörðinni.

Fallhlíf Gagaríns opnaðist strax og um tíu mínútum síðar, klukkan 08:05, lenti Gagarín um 280 km vestan við fyrirhugaðan lendingarstað.

Gagarín lent mjúklega við bóndabæ og sáu bóndinn og dóttir hennar sérkennilega veru í appelsínugulum samfestingi með stóran hvítan hjálm merktan Sovétríkjunum svífa til Jarðar.

„Þegar þær sáu mig nálgast í geimbúningnum mínum með fallhlífina í eftirdragi, byrjuðu þær að bakka vegna ótta. Ég sagði þeim að vera óhræddar. Ég væri sovéskur borgari eins og þau, sem hefði komið utan úr geimnum og yrði að komast í síma til að hringja til Moskvu,“ sagði Gagarín síðar.

Viðbrögð við geimferð Gagaríns

Fjallað var um geimferð Gagaríns í öllum fjölmiðlum heims þennan sögulega dag, meðal annars í kvöldfréttum Ríkisútvarpsins:

Ekki hefur verið um annað meira talað í heiminum í dag en hið mikla afrek sovéskra vísindamanna að senda fyrsta manninn út í geiminn, og Júrí Gagarín er þegar orðið heimþekkt nafn og á allra vörum. – „Mér líður vel,“ sagði Gagarín þegar hann lenti, „og ég er hvorki meiddur né marinn.“ Hann bað Tass-fréttastofuna að tilkynna kommúnistaflokknum og ríkisstjórninni, að allt hefði farið eftir áætlun í ferðinni og í lendingu, og jafnframt að flytja Nikita Krústsjoff kveðju sína. Krústsjoff, sem er sér til hressingar við Svartahaf, sendi Gagarín skeyti og óskaði honum til hamingju. Moskvubúar höfðu fengið tilkynningu um það snemma í morgun, að mikilvæg tilkynning yrði birt, og jafnskjótt og Moskvuútvarpið sagði frá hinni sögulegu ferð Gagaríns, urðu gífurleg fagnaðarlæti í Moskvu, Kíeff, Leningrad og fleiri borgum landsins. Fólk þusti út á götur og kunni sér ekki læti. Verzlanir tæmdust á svipstundu, í Moskvu fór breiðfylking stúdenta um Gorki-stræti, og segja fréttamenn, að önnur eins fagnaðarlæti hafi ekki orðið í Sovétríkjunum síðan á friðardaginn árið 1945. Moskvuútvarpið útvarpaði í dag rödd Gagaríns, þegar hann kallaði til jarðar og hafði samband við sovéska vísindamenn og mátti vel greina orðaskil. [...] Miðstjórn kommúnistaflokks Sovétríkjanna, forsætisnefnd Æðsta ráðsins og ríkisstjórn Sovétríkjanna birtu sameiginlegt ávarp í tilefni þessa afreks. Segir þar, að afrek sovéskra vísindamanna í geimferðum séu ekki í hernaðarskyni, heldur í þjónustu friðar og öryggis allra manna. Er heitið á allar þjóðir og allar ríkisstjórnir að beita allri orku sinni til að tryggja varanlegan frið um gervallan heim, binda endi á vígbúnaðarkapphlaupið og afvopnast með alþjóðlegu eftirliti. Segir ennfremur í ávarpinu, að þetta sé mikill sigur sósíalismans. Sovéskir vísindamenn og tæknimenn hafi hér unnið afrek, sem muni ryðja sigurbrautina fyrir sósíalismann um heim allan. [...] Gagarín mun nú gangast undir mjög stranga og langa læknisskoðun til þess að fá úr því skorið, hver áhrif slíkar geimferðir hafa á manninn. Búist er við, að hann verði hylltur sem þjóðhetja við hátíðahöldin fyrsta maí.

Fregnin um afrek sovésku vísindamannanna hefur vakið heimsathygli, og öllum kemur saman um, að ákaflega merkilegum áfanga hafi verið náð. Kennedy Bandaríkjaforseti sagði í dag, að þetta væri ákaflega mikið tækni- og vísindaafrek. McMillan, forsætisráðherra Breta, sagði í Kanada í dag, að þetta væri merkilegt afrek og kvaðst ætla að senda Sovétstjórninni heillaóskir. Prófessor Bernard Lovell við stjörnuathugunarstöðina í Jodrell Bank í Bretlandi, sagði að þetta væri eitt mesta vísindaafrek mannkynssögunnar, og ryddi brautina fyrir rannsóknum mannsins á sólkerfi voru. [...] Austur-þýska útvarpið kallaði Gagarín í dag Kólumbus geimsins.

Geimferð Gagaríns stóð yfir í aðeins 108 mínútur. Við heimkomu varð hann strax heimsþekktur og í Sovétríkjunum var hann þjóðhetja. Hann fór í heimsreisu til að kynna afrek Sovétmanna og yfirburði kommúnismans og millilenti meðal annars á Íslandi sunnudaginn 23. júlí 1961, á leið sinni til Kúbu í boði Castros. María Guðmundsdóttir, fegurðardrottning Íslands 1961, tók á móti Gagarín og færði honum blóm en íslenskir sósíalistar eins og Einar Olgeirsson og Kristinn E. Andrésson hylltu líka Sovéthetjuna.

Sama dag og Gagarín kom í heimsókn ritaði Matthías Johannessen, ritstjóri Morgunblaðsins, leiðara í Morgunblaðið:

Bandaríkjamenn gefa fyrirfram út tilkynningar um geimskot sín og leyfa öllum að fylgjast með þeim. Rússar aftur á móti hafa fullkomna leynd yfir sínum tilraunum og haga þeim þannig, að jafnvel veldur efa, hvort þeir nokkru sinni hafi komið manni út í geiminn og lifandi til jarðar. Engar sannanir eru þannig fyrir því, að Juri sá Gagarín, sem einmitt kemur hingað í dag, hafi farið ferð þá, sem talin er fyrsta geimför manna. Mun það vafalítið um alla framtíð verða dregið mjög í efa vegna leyndar þeirrar, sem yfir geimskotum Rússa hefur verið.

Fjallað var um heimsókn Gagaríns í Morgunblaðinu og Þjóðviljanum þriðjudaginn 25. júlí og í blöðunum var harla ólíkur tónn. Blaðamaður Morgunblaðsins gerði heldur lítið úr heimsókninni en blaðamaður Þjóðviljans var ákaflega stoltur af sínum manni. „Sannur kommúnisti biður ekki til Guðs“ stóð í fyrirsögn Morgunblaðsins en í Þjóðviljanum var Gagarín lýst sem fríðum manni með reglulega andlitsdrætti og fallegar tennur sem svaraði öllum misgáfulegum spurningunum eins og maður sem kynni svo sannarlega að koma fyrir sig orði.

Gagarín dreymdi um að fara í fleiri geimferðir. Hann var varamaður vinar síns Vladimírs Komarovs í fyrstu ferð Soyuz geimfarsins árið 1967, ferð sem endaði með ósköpum þegar geimfarið brotlenti á Jörðinni á um 140 km hraða á klukkustund. Komarov lést samstundist. Fyrir geimferðina hafði Gagarín sagt að geimfarið væri ekki öruggt og eftir harmleikinn var honum bannað að æfa fyrir og taka þátt í frekari geimferðum.

Tæpu ári síðar fórst Gagarín í flugslysi aðeins 34 ára gamall. Aska hans og fleiri geimfara sem létust við störf sín er geymd í Kreml á Rauðatorginu í Moskvu.

Ferð Gagaríns var Bandaríkjamönnum enn eitt áfallið. Fjórum árum áður höfðu Sovétmenn verið á undan þeim að koma fyrsta gervitunglinu á braut um Jörðina og tveimur árum síðar náðu þeir öðrum mikilvægum áfanga í geimkönnunarsögunni, þegar þeir sendu fyrsta ómannaða geimfarið til tunglsins.

Á sama tíma og augu heimsins beindust að Júrí Gagarín voru bandaríkjamenn að undirbúa sína fyrstu mönnuðu geimferð, sem varð þremur vikum síðar.

Tungláætlun Sovétmanna

Milli 1961 og 1963 var Vostok geimfarið notað í sex mannaðar geimferðir. Í seinustu ferðinni, Vostok 6, fór fyrsta konan út í geiminn, Valentína Tereshkova, þann 16. júní 1963. Sú geimferð var enn einn geimvísindasigur Sovétmanna, en í kjölfar hennar vildi Sergei Korolev, yfirhönnuður sovésku geimáætlunarinnar, hefja þróun á nýju geimfari sem gæti tengst öðru geimfari á braut um jörðina og halda jafnframt áfram þróun á nýrri og öflugri risaeldflaug.

En áður en sú þróun gat hafist fyrir alvöru, þurfti Korolev að afla stuðnings hæstráðenda í Moskvu. Sovéska ríkið og kommúnistaflokkurinn nýttu sér geimsigrana óspart í áróðursskyni og vildi Nikíta Krústjoff, aðalritari kommúnistaflokksins, miklu fremur að Korolev einbeitti sér að frekari geimsigrum til að hrella Bandaríkin. Ef Korolev sætti sig ekki við það, ætlaði Krustjoff einfaldlega að bola honum burt og fela öðrum manni, Vladimir Chelomei, ábyrgðina á því.

Sovéska geimáætlunin einkenndist af óeiningu, öfugt við bandarísku geimáætlunina sem alger eining ríkti um undir forystu James Webb, forstöðumanns NASA. Hjá Sovétmönnum börðust nokkrir hópar um að fá að hanna og smíða eldflaugar, ýmist fyrir hernað eða mannaðar geimferðir og þrátt fyrir að Korolev hefði náð ótvíræðum árangri með Spútnik og Vostok geimförunum milli 1957 og 1964, stóð hann frammi fyrir mikilli samkeppni frá helstu keppinautum sínum, þeim Mikhail Yangel, áðurnefndum Chelomei og Valentin Glushko.

Segja má að Valentin Glushko hafi verið erkióvinur Korolevs, því árið 1938 bar hann Korolev röngum sökum sem varð til þess að Korolev var dæmdur til tíu ára þrælkunarvinnu í gúlaginu. Sú dvöl hafði mikil áhrif á líkamlega heilsu Korolevs eins og við víkjum að síðar.

Voskhod áætlunin

Með trega ákvað Korolev að verða við ósk Krústjoffs og setti á laggirnar nýtt verkefni sem kallaðist Voskhod, sem þýðir Uppganga eða Dögun. Í grunninn var ekki ýkja mikill munur á Vostok og Voskhod geimförunum, en Voskhod var aðeins stærra og gat borið allt að þrjá geimfara. Að auki átti Voskhod að lenda með fallhlíf á landi með geimfarana um borð, öfugt við Vostok, þar sem geimfararnir skutu sér út úr farinu, rétt fyrir lendingu.

Þegar upp var staðið fóru einungis fram tvær mannaðar Voskhod geimferðir. Sú fyrri, Voskhod 1, fór fram 12. október 1964 en það var í fyrsta sinn sem geimfar með meira en einn mann um borð fór út í geiminn. Geimfararnir voru þrír, þeirra á meðal leiðangursstjórinn Vladimir Komarov.

Seinni Voskhod geimferðin fór fram 18. mars 1965. Um borð voru tveir geimfarar, þeir Pavel Belyayev og Alexei Leonov. Í þessum leiðangri fór Alexei Leonov fyrstur manna í geimgöngu en lenti í vandræðum með geimbúninginn. Búningurinn þandist of mikið út og varð svo stífur og útþaninn að Leonov komst í fyrstu ekki inn um lúgu geimfarsins aftur. Leonov barðist við að dæla lofti úr búningnum og tókst það að lokum. Sovétmenn héldu upplýsingum um vandræðin við geimgönguna leyndum og sögðu hana hafa tekist fullkomlega.

Frekari Voskhod geimferðum var aflýst eftir þessar geimferðir tvær, en aðrar fjórar voru fyrihugaðar. Í raun var eina markmið Voskhod verkefnisins að framkvæma eitthvað sem Bandaríkjamenn höfðu ekki gert, þ.e.a.s að fara í fyrstu geimferðina með tveimur geimförum eða fleiri og fyrstu geimgönguna.

Aðeins degi eftir fyrstu Voskhod ferðina var Níkita Krustjoff leystur frá völdum og segja má að þá hafi Voskhod geimáætluninni verið sjálfhætt, enda studdu hana fáir aðrir en Krustjoff. Leoníd Brezhnev tók við af Krustjoff en hann hafði minni áhuga á slíkum geimferðum.

Í ágúst 1964, meira en þremur árum eftir að Bandaríkin lýstu yfir áætlunum sínum um tunglferðir, settu Sovétmenn sér það markmið að koma manni til tunglsins árið 1967. Þá voru nefnilega liðin tíu ár frá því að Spútnik sigldi fyrst um himinhvolfið og fimmtíu ár frá Októberbyltingunni sem færðu völdin í hendur bolsévika og leiddi til stofnunar Sovétríkjanna. Það gerði Sergei Korolev kleift að einbeita sér að því, að þróa nýtt geimfar og nýja, öfluga risaeldflaug sem áttu að vera lykillinn að sigri Sovétmanna í Kapphlaupinu til tunglsins.

N-1 tunglflaugin

Snemma í desember árið 1960 fékk Sergei Korolev hjartaáfall. Við læknisskoðun kom í ljós, að hann þjáðist líka af nýrnabilun sem rekja mátti til harðræðisins í gúlaginu. Læknar vöruðu Korolev við, að ef hann héldi uppteknum hætti og ynni jafn mikið og hann gerði, myndi hann deyja fyrir aldur fram.

Korolev óttaðist þó, að ef Sovétríkin misstu niður forskot sitt í geimkapphlaupinu, drægi Krústjoff sennilega verulega úr fjárveitingum til verkefna hans. Korolev ákvað því að halda áfram að vinna og lagði enn harðar að sér en áður.

Árið 1961 hóf hann að þróa nýja, öfluga risaeldflaug, N-1, sem svipaði til Satúrnus eldflauganna sem Bandaríkjamenn voru að þróa.

N-1 var eldflaugin sem koma átti sovéskum geimförum til tunglsins. Hún var risavaxin eins og Satúrnus 5 flaug Bandaríkjamanna, en um sex metrum lægri eða 105 metra há. Hún skiptist í fimm þrep: Þrjú til að koma geimfari á braut um jörðina og önnur tvö til að koma geimfari til tunglsins. Fullhlaðin vó hún tæp 2.800 tonn, um 200 tonnum minna en Satúrnus 5.

Þegar Korolev hóf að þróa flaugina bað hann fyrrum vin sinn Valentin Glushko, þess sem hafði í raun komið honum í gúlagið, að þróa eldflaugahreyfla flaugarinnar. Glushko vildi þróa nýja tegund eldflaugahreyfla sem notuðu annars konar eldsneyti en F-1 hreyflarnir sem Bandaríkjamenn voru að þróa. Glushko vissi að Bandaríkjamenn voru komnir mun lengra i þróuninni á F-1 eldflaugahreyflinum og taldi óraunhæft að hann gæti smíðað svipaðan hreyfil á örskömmum tíma, með litlu sem engu fjármagni, frumstæðari tækni og verra eldsneyti.

Korolev leyst illa á að nota eldsneytisblöndu sem var baneitruð og því stórhættuleg. Fyrir vikið neitaði Glushko að vinna með Korolev og aftur slettist upp á vinskap þeirra. Korolev leitaði þá til annars verkfræðings, Nikolai Kuznetsov að nafni, sem samþykkti að vinna með Korolev, þótt hann hefði mjög takmarkaða reynslu af hönnun eldlfaugahreyfla. Kuznetsov hannaði nýjan hreyfil sem nefndist NK-15.

Eftir að Krústjoff fór frá sóttist Korolev eftir stuðningi frá Bresnjefs til að halda áfram þróun eldflaugarinnar en fékk aðeins helming af því fé sem hann óskaði eftir.

Þrátt fyrir fjárskort tók N-1 eldflaugin smám saman á sig mynd. Í fyrsta þrepinu áttu að vera hvorki fleiri né færri en þrjátíu NK-15 hreyflar, raðað saman í tvo hringi og samanstóð ytri hringurinn af 24 hreyflum en innri hringurinn af 6. Samanlagt áttu þessir þrjátíu hreyflar að veita meiri kraft en F-1 hreyflarnir í Satúrnus 5.

Í öðru þrepinu voru aðrir átta NK-15 hreyflar raðað í hring og í þriðja þrepinu voru fjórir aflminni NK-21 hreyflar. Samanlagt voru þessir hreyflar færir um að lyfta 90 tonnum á braut um jörðina, en til samanburðar gat Satúrnus 5 komið 120 tonnum út í geiminn.

Soyuz

Árið 1965, á meðan þróun á N-1 flauginni stóð sem hæst, kynnti Sergei Korolev til sögunnar nýtt geimfar sem síðar hlaut nafnið Soyuz sem þýðir Bandalag. Soyuz var geimfarið sem ferja átti sovéska geimfara til tunglsins. Það var einstaklega metnaðarfullt geimfar og kannski of metnaðarfullt að mati sumra sem störfuðu við sovésku geimáætlunina. Hönnunin Soyuz byggði á Vostok geimfarinu sem flutti Júrí Gagarín fyrstan út í geiminn, en átti líka að búa yfir öllu því sem þurfti til að komast til tunglsins.

Tungláætlun Sovétmanna var mjög svipuð Apollo geimáætlun Bandaríkjamanna. Tengja átti saman geimför á braut um Jörðu, þ.e. Soyuz stjórnfar og tveggja þrepa tunglferju og senda þau síðan til tunglsins. Þegar til tunglsins væri komið átti tunglferjan að losna frá stjórnfarinu og lenda með einn eða tvo menn innanborðs. Eftir tunglgöngu átti efra þrep tunglferjunnar að koma geimförunum á braut um tunglið og tengjast stjórnfarinu á ný. Síðan áttu geimfararnir að fara út úr tunglferjunni og yfir í stjórnfarið með geimgöngu. Tunglferja Sovétmanna átti að vera helmingi minni en bandaríska tunglferjan.

Souyz geimfarið sjálft skiptst í þrennt. Fremst var nokkurn veginn kúlulaga stjórnfar fyrir allt að þrjá geimfara, fimm fermetrar að rúmtaki, en aftast var sívalningslaga þjónustufar sem innihélt allan lífsnauðsynlegan búnað og vélar. Á þjónustufarinu voru tvö sólarrafhlöðu-þil sem áttu að sjá geimfarinu fyrir raforku. Mitt á milli stjórn- og þjónustufaranna var síðan lítil lendingareining. Fyrir heimkomu áttu stjórn- og þjónustuförin að losna frá lendingareiningunni sem kæmi áhöfninni örugglega til jarðar aftur.

Við heimkomu átti loftþrýstinemi á lendingareiningunni að opna fallhlíf geimfarsins í um það bil 10 km hæð yfir jörðu. Fyrst áttu tvær litlar fallhlífar að opna eina stóra aðalfallhlíf og um leið átti hitaskjöldurinn að falla af og opna bremsuflaugar. Augnabliki fyrir lendingu, í aðeins tveggja metra hæð yfir jörðinni, átti að ræsa bremsuflaugarnar til að tryggja mjúka lendingu.

Andlát Korolevs

Sergei Korolev vann baki brotnu að þróun Soyuz geimfarsins og N-1 eldflaugarinnar. Vinnan tók sinn toll af Koroelv og þurfti hann ítrekað að leita sér læknisaðstoðar. Í desember 1965 greindist hann með ristilkrabbamein og gekkst hann undir skurðaðgerð vegna þess þann 5. janúar 1966. Líkaminn, veiklaður eftir dvölina í gúlaginu og alltof mikið vinnuálag gaf eftir, svo níu dögum eftir aðgerðina lést hann, 59 ára að aldri.

Eftir andlátið var hulunni loksins svipt af manninum sem stóð að baki geimvísindasigrum Sovétríkjanna, þegar minningargreinar birtust um hann í Pravda þann 16. janúar. Í lifanda lífi fékk Korolev aldrei þá viðurkenningu sem hann átti skilið en honum til heiðurs fór þó fram viðhafnarútför í Moskvu og var hann grafinn í grafhýsi Leníns í Kremlarmúrnum á Rauða torginu, ásamt mörgum öðrum framámönnum Sovétríkjanna. Það var þá sem Wernher von Braun fékk fyrst að heyra nafnið á keppinauta sínu austan járntjaldsins.

Ólíkt von Braun í Bandaríkjunum, varð Korolev stöðugt að glíma við keppinauta sína sem höfðu sínar eigin hugmyndir og áætlanir um tunglferðir. Korolev hafði líka úr mun minna fjármagni að spila en von Braun, auk þess sem rafeinda- og tölvutæknin sem honum stóð til boða var mun vanþróaðari.

Eftir andlát Korolevs var Vasily Mishin, hægri hönd hans, gerður að yfirhönnuði sovésku geim-áætlunar-innar. Hans helsta hlutverk var að halda áfram þróun á N-1 risaflauginni og senda mann á braut um tunglið árið 1967 og lenda manni þar ári síðar.

Soyuz 1

Til að undirbúa tunglferðirnar voru myndaðir tveir æfingahópar geimfaranna. Annar hópurinn átti að æfa fyrir fyrirhugaðar tungllendingar en hann var undir forystu Alexei Leonovs, fyrsta mannsins sem fór í geimgöngu. Hefði allt gengið upp, hefði Leonov því væntanlega orðið fyrsti Sovétmaðurinn til að stíga fæti á tunglð. Hinn hópurinn naut forystu Vladimir Komarovs og Júrí Gagaríns og átti hann að æfa fyrir fyrstu ferðir Soyuz á braut um jörðina.

Komarov átti að fara í fyrstu mönnuðu geimferð Soyuz í apríl 1967. Hann var óþreyjufullur að komast í sína aðra geimferð og naut stuðnings vinar síns Gagaríns til þess.

Eftir fráfall Korolevs gekk þróun Soyuz geimfarsins illa. Sífellt komu upp vandamál og allar ómönnuðu tilraunaferðirnar misheppnuðust.

Leiðtogum Sovétríkjanna var nokkuð saman um þau tæknilegu vandamál sem Vasily Mishin, arftaki Korolevs, stóð frammi fyrir. Leonid Brezhnev og Dimitri Ustinov, varnar- og geimmálaráðherra, biðu óþreyjufullir eftir næsta afreki Sovétmanna í geimnum eftir að hafa horft upp á NASA ljúka tíu geimferðum Gemini verkefnisins og taka þannig fram úr Sovétmönnum. Öll athygli Bandaríkjanna beindist nú að Apollo verkefninu og fyrirhuguðum tunglferðum.

Mishin var undir miklum pólitískum þrýstingi þegar hann samþykkti mjög metnaðarfulla áætlun um jómfrúarferð Soyuz geimfarsins. Þann 23. apríl 1967 átti að skjóta Soyuz 1 á loft með Komarov einan um borð. Ef allt gengi upp átti að skjóta Soyuz 2 á loft daginn eftir með þrjá geimfara um borð., þá Valery Bykovsky, Alexei Yeliseyev (jeliseijef) og Yevgeny Khrunov. Tengja átti geimförin saman á braut um jörðina og að því loknu áttu Yeliseyev og Bykovsky að fara í geimgöngu yfir í Soyuz 1 og koma með því heim til jarðar ásamt Komarov, en Khrunov átti að lenda einn síns liðs. Þetta var einstaklega metnaðarfullur leiðangur með glænýju geimfari.

Nikolai Kamanin, yfirmaður geimfaranna, lýsti yfir miklum áhyggjum af þessu. Hann taldi eðlilegast að flýta sér hægt, sérstaklega í ljósi slyssins í Bandaríkjunum í janúar 1967 sem kostaði þrjá geimfara lífið. Margir aðrir lýstu einnig yfir áhyggjum af leiðangrinum, geimfararnir þeirra á meðal. Þrátt fyrir það virtist enginn tilbúinn að hætta eigin frama og reyna að sannfæra hæstráðendur í Moskvu um að seinka geimskotinu uns búið væri að leysa vandamálin við Soyuz. Auk þess yrði þetta í fyrsta sinn sem Korolev yrði ekki vði stjórnvölinn.

Geimfari lætur lífið

Aðfaranótt sunnudagsins 23. apríl 1967, settist Vladimir Komarov inn í Soyuz geimfarið sitt. Þetta var fyrsta mannaða geimskotið sem fram færi að nóttu til. Eldflaugarnar voru ræstar og þaut Soyuz 1 upp í kolsvartan næturhiminninn og var komið á braut um jörðina níu mínútum síðar. Hálftíma seinna hringdi annar geimfari, Pavel Popovich, í Valentinu, eiginkonu Komarovs, og lét hana vita að allt væri í lagi. Það átti þó eftir að breytast fljótt.

Merki bárust um að annað sólarrafhlöðuþilið hefði ekki breitt úr sér sem skerti rafmagnið um helming og kom líka í veg fyrir að varaloftnet opnaðist. Fleira virkaði ekki í geimfarinu, svo sem fjarskiptabúnaður og stýriflaugarnar. Komarov varð strax mjög áhyggjufullur en hélt ró sinni. Hann tók upp á því að sparka og berja í veggi geimfarsins í örvæntingafullri tilraun til að losa sólarrafhlöðurnar. Án þeirra var leiðangurinn allur í hættu. Í stjórnstöðinni sat Júrí Gagarín og kom skilaboðum til Komarovs til að leysa vandann, en ekkert gekk.

Eftir nokkrar ferðir í kringum jörðina fóru menn að íhuga að hætta við fyrirhugað geimskot Soyuz 2. Það var þó ekki gert, heldur var ákveðið að Soyuz 2 yrði björgunarleiðangur. Khrunov og Yeliseyev áttu að fara í geimgöngu og losa sólarrafhlöðurnar í geimgöngu og lagfæra þannig laskað geimskip Komarovs.

Nóttina fyrir geimskotið gerði hins vegar mikið skrugguveður. Eldingar löskuðu rafkerfi eldflaugarinnar svo útilokað var að skjóta henni á loft. Óveðrið reyndist þó á endanum lán í óláni.

Þegar útséð var með björgunarleiðangur reyndu menn hvað þeir gátu að koma Komarov heim. Lítill tími var til stefnu í deyjandi geimfarinu. Komarov var sagt að stjórna stefnu geimfarsins með aðferð sem aldrei hafði verið prófuð áður og hann því aldrei æft. Hann átti að stilla geimfarið af með því einu að horfa á snúðvísinn í farinu. Geimfarinn hugrakki var heldur fámáll þegar hér var komið sögu en samþykkti að reyna þetta.

Komarov tókst að stilla geimskipið sitt af fyrir heimkomu. Síðan ræsti hann bremsuflaugarnar og byrjaði að falla í gegnum lofthjúpinn. Þótt ekki hefði náðst að uppfylla markmið leiðangursins, virtist Komarov alla vega hafa bjargað lífi sínu og geimfarinu.

Þegar lendingarfarið féll til jarðar, hélt Komarov eflaust að lukkan hefði loksins hlaupið í lið með honum. Sú var þó alls ekki raunin. Aðalfallhlífin opnaðist ekki og varafallhlífin flæktist. Geimfarið féll stjórnlaust til jarðar.

Mánudagsmorguninn 24. apríl 1967, þegar bæjarbúar í Karabutak við suðurhluta Úralfjalla héldu til vinnu, varð mörgum starsýnt á dökkan hlut á himninum sem féll á ógnarhraða til jarðar og dró með sér einhvers konar efni. Á augnabliki var hluturinn horfinn úr augnsýn og skömmu síðar heyrðust háværar drunur og sprengingar.

Soyuz 1, með Komarov um borð, hafði skollið til jarðar á um 150 km hraða á klukkustund. Við áreksturinn lagðist geimfarið saman eins og gosdós sem stigð er á og splundraðist síðan. Eldur kviknaði í eldsneyti geimfarsins svo úr varð mikið bál og lagði þykkan svartan reyk frá flakinu. 

Bæjarbúar flýttu sér á staðinn en vissu ekkert hvað gekk á. Þeir reyndu að slökkva eldinn með því að moka jarðvegi á brennandi leifararnar. Fljótlega komu björgunarmenn aðvífandi og gerðu hvað þeir gátu til að slökkva eldinn. Send voru skilaboð um að geimfarinn þyrfti strax á læknisaðstoð að halda og var þannig gefið til kynna að hann hefði á einhvern ótrúlegan hátt komist lífs af.

Svo þar þó auðvitað ekki. Komarov lést samstundis við höggið sem tætti líkama hans í sundur. Fyrstu líkamsleifar hans fundust ekki fyrr en nokkrum klukkustundum eftir slysið, skaðbrenndar svo vart var hægt að bera kennsl á að um manneskju væri að ræða. Líkamsleifunum var síðan safnað saman og þær brenndar.

Sovéska þjóðin var harmi slegin. Aska Komarovs var sett í vasa og fór útförin fram í Moskvu aðeins tveimur dögum eftir slysið. Þúsundir Moskvubúa söfnuðust saman meðfram leið líkfylgdarinnar og á Rauða torginu, þar sem félagar Komarovs báru ösku hans að Kremlarmúrnum. Fréttamenn í Moskvu sögðu útförina hafa sýnt, að almenningur í Sovétríkjunum hafi ekki verið lostnir öðrum eins harmi síðan sjálfur Jósef Stalín lést. Sjónvarpað var frá útförinni og sást Valentina, ekkja Komarovs, tárvot við múrinn. Þetta var raunveruleg þjóðarsorg.

Júrí Gagarín syrgði líka góðan vin og samstarfsfélaga en var gert að senda frá sér yfirlýsingu, þar sem hann sagði meðal annars: „Menn hafa týnt lífi. Ekkert mun stöðva okkur. Vegurinn til stjarnanna er brattur og hættulegur. En við óttumst ekkert. Sérhver okkar geimfaranna eru reiðubúnir að ljúka verki Vladimir Komarovs — góðs vinar okkar og merkismanns.“

Við rannsókn á slysinnu kom í ljós að fallhlífarbúnaðurinn hafði skekkst þegar fallhlífin átti að opnast. Fyrir næstu geimferðir var búnaðurinn lagfærður og tryggt að hið sama kæmi ekki fyrir aftur.

Um árabil var upplýsingum um slysið haldið leyndum, rétt eins og um svo margt annað sem tengdist sovésku geimáætluninni. Því spruttu upp ýmsar sögur sem áttu sér enga stoð í raunveruleikanum. Ein sagan segir, að kona Komarovs hafi verið færð inn í stjórnstöðina til að kveðja eiginmann sinn sem hágrét yfir örlögum sínum. Sannleikurinn var hins vegar sá, að Komarov stóð sig framúrskarandi vel við hrikalegar aðstæður. Hann hélt einbeitingu og ró sinni allan tímann á meðan ferðinni stóð. Valentina Komarova ræddi aldrei við dauðadæman eiginmann sinn í geimnum og frétti ekki af afdrifum hans fyrr en yfirmenn sovésku geimáætlunar innar færðu henni tíðindin.

Pólitískur þrýstingur olli því að geimfari týndi lífi sínu. Komarov vissi þegar hann steig um borð í geimfarið, að hann væri að fara að fljúga gölluðu geimfari, rétt eins og geimfararnir þrír sem létust  þremur mánuðum fyrr. Hann tók samt áhættuna og gerði sér fulla grein fyrir henni.

Misheppnaðar prófanir N-1 flaugarinnar

Andlát Komarovs var Sovétmönnum mikið áfall en dró þó ekkert úr vilja þeirra til að verða á undan Bandaríkjamönnum til tunglsins. Andlát Korolevs var þeim þó enn meira áfall, því geimáætlunin bar aldrei sitt barr eftir það og segja má að með honum hafi tunglferðaáætlun Sovétmanna svo gott sem liðið undir lok.

Þróun hélt engu að síður áfram á N-1 eldflauginni og Soyuz geimfarinu. N-1 flaugin komst aldrei út í geiminn og reyndist Satúrnus 5 miklu áreiðanlegri þegar yfir lauk. Öll þrettán geimskot Satúrnus 5 heppnuðust fullkomlega, á meðan allar fjórar tilraunirnar með N-1 misfórust.

Í byrjun júlí 1969, þremur vikum áður en Apollo 11 lagði af stað til tunglsins, sprakk N-1 eldflaugin skömmu eftir flugtak með þeim afleiðingum að skotpallurinn gereyðilagðist. Þetta slys seinkaði frekari tilraunum í eitt og hálft ár á meðan pallurinn var endurbyggður. Sprengingin var ein sú mesta í mannkynssögunni, ef frá eru taldar kjarnorkusprengingar.

Þetta var reyndar ekki í fyrsta sinn sem skotpallur Sovétmanna eyðilagðist í sprengingu. Þann 24. október árið 1960 sprakk önnur öflug eldflaug þegar verið var að vinna að henni á skotpallinum. Menn stóðu við flaugina þegar hún sprakk. Um 100 manns létust, bæði verkfræðingar og yfirmenn, og fundust lík sumra aldrei því þau fuðruðu einfaldlega upp. Mikhail Yangel, hönnuður flaugarinnar, komst lífs af því hann hafði brugðið sér frá til að reykja, nokkur hundruð metra frá flauginni. Upplýsingar um þetta slys voru ekki gerðar opinberar fyrr árið 1989.

Soyuz geimfarið var hins vegar lagfært en fór aldrei með menn til tunglsins enda vantaði eldflaug til að senda það þangað. Árið 1972 var Vasily Mishin rekinn og við tók Valentin Glushko. Þá höfðu Bandaríkin þegar unnið kapphlaupið til tunglsins og batt Leonid Breznév endi á tilraunir Sovétríkjanna til að komast þangað. Í staðinn hófu þeir að hanna geimstöð.