Krakkafréttir

Stjörnufræðingar finna 50 nýjar reikistjörnur

  • eso1134a

Í sólkerfinu okkar eru bæði litlar reikistjörnur úr bergi og málum nálægt sólinni, eins og jörðin og Mars, og gasrisar sem eru lagnt frá sólinni eins og Júpíter og Satúrnus. Stjörnufræðingar vilja vita hvort önnur sólkerfi í alheiminum líkist sólkerfinu okkar og hvort í þeim séu aðrar jarðir með lífi. Stjörnufræðingar voru nú að finna 50 nýjar reikistjörnur sem hjálpa okkur að svara þessari spurningu.

Reikistjörnurnar 50 eru kallaðar fjarreikistjörnur því þær eru ekki í okkar sólkerfi heldur langt fyrir utan það á braut um aðrar fjarlægar sólir. Þær fundust allar með stórum stjörnusjónauka í Chile.

Fjarreikistjörnur eru órafjarri og svo litlar og daufar að ómögulegt er að taka ljósmyndir af þeim. Til þess að finna þær þurfa stjörnufræðingarnir þess vegna að gá hvort stjörnurnar sjálfar vaggi.

Þungar reikistjörnur toga í sínar sólir með þyngdarkrafti sínum. Það veldur því að þær vagga pínulítið til og frá eins og sleggjukastari áður en hann sleppir sleggjunni. Með því að fylgjast með vaggi sólanna geta stjörnufræðingar fundið úr hversu margar reikistjörnur sólirnar hafa og hversu þungar þær eru.

Af þeim 50 fjarreikistjörnum sem fundust eru 16 risajarðir. Risajörð er reikistjarna úr bergi eins og jörðin en mun þyngri, einhvers staðar á bilinu eins til tíu sinnum þyngri en jörðin. Ein þessara nýju risajarða er sérstaklega áhugaverð. Hún er nefnilega í hárréttri fjarlægð frá sinni sól til þess að geta haft fljótandi vatn eins og jörðin. Þessi reikistjarna, sem heitir því skrítna nafni HD 85512b, er hnöttur sem gæti haft sjó og lífverur eins og jörðin okkar, en þar gæti líka verið álíka heitt og í gufubaði! Við vitum það ekki ennþá því við eigum ekki nógu stóra og öfluga sjónauka til að sjá hvað leynist þar.

Áhugaverð staðreynd: Í dag þekkjum við yfir 650 reikistjörnur utan okkar sólkerfis! Við eigum samt eftir að finna svo ótal ótal margar.