Krakkafréttir

Vetrarbrautatvíeyki í sviðsljósinu

  • eso1143a

Fyrir fáeinum árum voru tvær vetrarbrautir í sviðsljósinu og fönguðu athygli stjörnufræðinga. Þær voru nefnilega lýstar upp af einni björtustu, orkuríkustu og öflugustu sprengingu alheims: Gammablossa.

Stjörnufræðingar telja að gammablossar eigi rætur að rekja til ungra ofurstjarna sem springa í tætlur. Þessi tiltekni gammablossi sem rannsakaður var er sérstakur því hann varð í annarri vetrarbrautinni en ljósið frá honum skein í gegnum hina. Stjörnufræðingar geta því miður ekki tekið mynd af slíkum blossa en þess í stað útbjó listamaður þessa fallegu mynd hér að ofan.

Vetrarbrautirnar eru svo langt í burtu að ljósið frá þeim var um 12 milljarða ára að berast til okkar. Það þýðir að við sjáum vetrarbrautirnar eins og þær litu út fyrir 12 milljörðum ára, þegar alheimurinn var enn mjög ungur. (Alheimurinn er talinn 13,7 milljarða ára).

En þrátt fyrir þessa órafjarlægð geta stjörnufræðingar fundið margt út um vetrarbrautirnar. Þeir rannsökuðu ljósið eftir að það barst í gegnum vetrarbrautirnar og gátu þannig komist að því hvers konar atóm þær innihalda, t.d. súrefni og kopar. Þetta er hægt því hvert einasta atóm í alheiminum hefur sitt eigið fingrafar sem sjá má í ljósinu frá vetrarbrautunum.

Í ljós kom að vetrarbrautirnar innihéldu óvenju mikið af þungum atómum, efnum eins og málmum. Það kom mjög á óvart því þegar alheimurinn var aðeins um 2 milljarða ára ætti efnasamsetning hans að vera einfaldari. Það er vegna þess að það tekur langan tíma fyrir þung atóm að myndast innan í stjörnunum. Þessar vetrarbrautir hljóta því að hafa myndað nýjar stjörnur mjög hratt til þess að öll þessi ólíku þungu atóm gátu orðið til á svo skömmum tíma.

Skemmtileg staðreynd: Gammablossi getur losað jafnmikla orku á 10 sekúndum og sólin gerir á allri sinni ævi, 10 milljarða ára! Gammablossar eru helstu rannsóknarefni íslenskra stjarnvísindamanna hjá Háskóla Íslands.