Krakkafréttir

Rykugt stjörnuhreiður

  • NGC 3342, Kjalarþokan, innrauð mynd
    Víðmynd af stjörnumyndunarsvæðinu Kjalarþokunni á suðurhimninum sem tekin var í innrauðu ljósi með HAWK-I myndavélinni á Very Large Telescope ESO. Á myndinni hafa mörg áður óséð fyrirbæri, sem dreifast vítt og breitt um myndina, komið í ljós. Mynd: ESO/T. Preibisch

Allt í heiminum, bæði á jörðinni og í geimnum, lýtur sömu lögmálum náttúrunnar. Og vísindin eru tungumálið sem höfum til að lesa náttúruna!

Skoðum, sem dæmi, sólsetur. Frá jörðinni sjáum við oft mjög litrík sólsetur þar sem rauð, appelsínugul og bleik litbrigði skreyta himininn. Ástæðan fyrir þessari litadýrð er sú að þegar sólin er lágt á lofti lenda geislar hennar á sameindum og rykögnum í andrúmsloftinu svo þeir skoppa í allar áttir. Ljósgeislar sólar eru úr öllum regnboganslitum en litirnir dreifast á annan hátt. Ryk dreifir bláu ljósi betur en rauðu. Blátt ljós skoppar því burt svo úr verður fallega rauður himinn við sólsetur.

Það sama gerist í geimnum. Rykug svæði í geimnum draga í sig og dreifa bláu ljósi betur en rauðu. Á sumum rykugustu stöðum alheimsins, eins og í stjörnuhreiðrum, þ.e. fæðingarstöðum stjarna, eru áhrifin svo sterk að sumir litir berast hreinlega ekki til jarðar. En stjörnufræðingar kunna ráð við því. Þeir geta notað sérstaka sjónauka sem sjá mismunandi tegundir ljóss sem rykagnirnar dreifa hvorki né gleypa: Innrautt ljós. (Augu okkar sjá ekki innrautt ljós en við notum það á hverjum degi. Þegar þú skiptir um rás á sjónvarpinu með fjarstýringu notar þú innrautt ljós.)

Á myndinni hér fyrir ofan sést fæðingarstaður stjarna sem kallast Kjalarþokan. Þessi nýja ljósmynd var tekin með stærsta stjörnusjónauka heims sem er í Chile í Suður Ameríku. Á myndinni sjá stjörnufræðingar fyrirbæri sem höfðu aldrei sést áður. Það er vegna þess að innrautt ljós gerir okkur kleift að sjá í gegnum rykið að hluta til!

Skemmtileg staðreynd: Enski vísindamaðurinn Ísak Newton komst fyrstur manna að því að lögmál náttúrunnar eru hin sömu á jörðinni og í geimnum.

Þessi frétt er unnin í góðu samstarfi við UNAWE og Space Scoop

UNAWE, Universe Awareness for Young Children Space Scoop