Krakkafréttir

Ástarstjarnan setur svartan blett á sólina

  • Venus, þverganga
    Venus snertir fyrst skífu sólar klukkan 22:04 að íslenskum tíma. Þvergangan stendur yfir í rúmar 6 klukkustundir og lýkur klukkan 04:54 þegar sólin er lágt á norðausturhimni. Venus mun þekja um 3% af skifu sólar og draga úr birtu hennar um 0,1%. Mynd: Stjörnufræðivefurinn/Hermann Hafsteinsson

Sumir atburðir í náttúrunni eru svo sjaldgæfir að sárafáir verða vitni að þeim. Rétt eftir klukkan tíu þriðjudagskvöldið 5. júní getur þú, ef veður leyfir, séð einn slíkan atburð þegar ástarstjarnan Venus setur svartan blett á sólina okkar.

Það er mjög sjaldgæft að Venus fari fyrir sólina. Það gerist aðeins á rúmlega 100 ára fresti og þá tvisvar með átta ára millibili.

Fyrr á tímum var þessi atburður vísindamönnum mjög mikilvægur. Þá gafst þeim nefnilega tækifæri til að reikna út fjarlægðina frá jörðinni til sólarinnar. Og vegna þess hve sjaldgæfur atburðurinn er fóru margir vísindamenn í mjög löng ferðalög til að missa ekki af honum. Stundum voru ferðalögin nokkurra ára löng en þá voru vitaskuld hvorki til bílar né flugvélar heldur voru einu fararskjótarnir seglskip og hestar.

Þótt Venus sé næstum jafnstór jörðinni er hún óralangt í burtu og miklu minni en sólin okkar. Þess vegna lítur hún út eins og pínulítill svartur blettur sem ferðast makindalega yfir sólina þegar þetta gerist.

Seinast fór Venus fyrir sólina árið 2004 en þú ættir að grípa tækifærið nú því líklega muntu aldrei sjá þetta aftur. Venus fer nefnilega ekki aftur fyrir sólina fyrr en árið 2117! Hvað verður þú gömul/gamall þá?

Skemmtileg staðreynd: Ísland og Grænland eru einu löndin í heiminum þar sem sólin sest og rís aftur á meðan Venus fer fyrir sólina. Það gerir atburðinn enn einstakari!

Hvernig er hægt að fylgjast með?

Maður má aldrei horfa beint á sólina án hlífðarbúnaðar og alls ekki með sjónaukum. Maður getur nefnilega orðið blindur!

Til að hjálpa fólki að sjá atburðinn á öruggan hátt munu félagar í Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness stilla upp búnaði við Perluna frá klukkan 21:30 á þriðjudagskvöldið. Þangað eru allir hjartanlega velkomnir. Þar getur þú fengið sérstök gleraugu til að skoða sólina og fengið að horfa í gegnum sérstaka sólarsjónauka. Með þeim gætir þú ekki aðeins séð reikistjörnu fyrir sólinni, heldur stærðarinnar sólbletti og ef til vill sólgos sem eru stærri en jörðin!

Hér getur þú séð hvar þú getur fylgst með þvergöngunni.

Banner-TOV_1
Það er mjög mikilvægt að fara að öllu með gát þegar sólin er skoðuð. Aldrei horfa beint á sólina án hlífðarbúnaðar og alls ekki með sjónaukum. Fullorðnir eiga alltaf að hjálpa til! Mynd: Manthan Educational Programme Society India