Mynd vikunnar

Fyrirsagnalisti

Suðurpóll Júpíters

Suðurpóll Júpíters

29. maí

Hér sést suðurpóll Júpíters á mynd frá Juno geimfarinu sem tekin var úr 52.000 km hæð. Myndin er sett saman úr mörgum ljósmyndum enda aldrei hægt að sjá allt hvelið í einu. Litirnir hafa sömuleiðis verið ýktir til að draga fram smáatriði sem annars sæjust illa. Sjá má risavaxna storma á hrollköldum pólnum, sumir eru á stærð við Jörðina.

Mynd: NASA/JPL-Caltech/SwRI/MSSS/Betsy Asher Hall/Gervasio Robles

Rykhringur í kringum Fomlahaut

Rykhringur Fomalhaut

22. maí 2017

Fomalhaut er ein bjartasta stjarna næturhiminsins. Hún er í 25 ljósára fjarlægð í stjörnumerkinu Suðurfisknum og liggur því vel til athugana. Í kringum hana er sólkerfi að verða til sem sést hér á mynda frá Atacama Large Millimeter/submillimeter Array (ALMA). Hringurinn er ryk sem umlykur stjörnuna og inniheldur sennilegast íshnetti eins og halastjörnur og smástirni. Hringurinn er um 20 milljarða kílómetra frá stjörnunni í miðjunni.

Mynd: ALMA (ESO/NAOJ/NRAO)/L. Matrà/M. A. MacGregor

Abell 370, þyngdarlinsa

Þyngdarlinsa Abell 370

8. maí

Vetrarbrautaþyrpingar eru stærstu einingar alheimsins sem þyngdarkrafturinn bindur saman. Hér sést ein slík: Abell 370. Abell 370 inniheldur svo mikið mikið efni, bæði venjulegt efni og hulduefni, að tímarúmið sjálft aflagast svo að til verður öflug þyngdarlinsa. Þyndarlinsan magnar upp og bjagar myndir af fjarlægari vetrarbrautum fyrir aftan þyrpinguna. Bogadregnu rákirnar á myndinni eru vetrarbrautir í órafjarlægð, langt fyrir aftan Abell 370 sem sjálf er í 6 milljarða ljósára fjarlægð.

Mynd: NASA, ESA/Hubble, HST Frontier Fields

Gossprunga á Mars

Gossprunga á Mars

1. maí

Eitt sinn var eldvirkni á Mars mjög mikil. Sést það gleggst á stærstu eldfjöllum sólkerfisins sem þar er að finna. Hér sést 500 metra breið en ævaforn gossprunga á Tharsis eldfjallasvæðinu. Þótt sprungan sé smá í samanburði við eldfjöllin í nágrenninu er hún engu að síður nokkuð tilkomumikil.

Mynd: NASA/JPL-Caltech/Univ. of Arizona

Tunglið og Jörðin frá Satúrnusi

Jörðin og tunglið frá Satúrnusi

24. apríl

Miðvikudaginn 12. apríl horfði Cassini geimfar NASA í gegnum hringa Satúrnusar og tók þessa mynd af Jörðinni og tunglinu úr 1,4 milljarða km fjarlægð. Frá þessum fjarlæga sjónarhóli er Jörðin alltof lítil til að einhver smáatriði sjáist. Á þessum tíma sneri Ísland reyndar að Satúrnusi og er þarna norðarlega á ljósdeplinum. Fyrir ofan Jörðina og tungkið sést A-hringurinn og Keeler geilin á milli.

Mynd: NASA/JPL-Caltech/Space Science Institute

Stóri kuldabletturinn á Júpíter

Stóri kuldabletturinn á Júpíter

17. apríl

Stóri rauði bletturinn er sennilega þekktasta kennileiti gasrisans Júpíters. Nú hafa stjörnufræðingar fundið annan stóran blett, kuldablett, á norðurpól Júpíters. Bletturinn er um 200°C kaldari en nærliggjandi svæði og er álíka stór og Stóri rauði bletturinn. Talið er að bletturinn verði til af völdum norðurljósa á Júpíter sem knýja orku niður í lofthjúpinn. Fyrir vikið kólna efri lög lofthjúpsins. Stóri kuldabletturinn á Júpíter er því fyrsta veðurkerfið sem verður til af völdum norðurljósa.

Mynd: ESO/T. Stallard

Júpíter 3. apríl 2017

Hubble skoðar Júpíter

10. apríl

Í byrjun apríl 2017 var Hubble geimsjónauka NASA og ESA beint að gasrisanum Júpíter, sem þá var í 670 milljón km fjarlægð frá Jörðinni. Á þessari glæsilegu mynd sjást smáatriði í skýjunum sem eru allt niður í 130 km á stærð svo upplausnin er býsna góð. Mest áberandi er Stóri rauði bletturinn, langlífur stormur á suðurhveli reikistjörnunnar sem hefur raunar farið minnkandi á síðustu árum. Nú um stundir er bletturinn rétt rúmlega á stærð við Jörðina.

Mynd: NASA, ESA og A. Simon (GSFC)

NGC 4424

NGC 4424 og LEDA 213994

3. apríl

Tvær vetrarbrautir prýða þessa fallegu mynd frá Hubble geimsjónauka NASA og ESA. Sú stærri nefnist NGC 4424 en sú minni, rétt fyrir neðan þá stærri, er kölluð LEDA 213994 og er mun lengra í burtu en NGC 4424 sem er í um 30 milljón ljósára fjarlægð frá Jörðinni í stjörnumerkinu Meyjunni.

Mynd: ESA/Hubble og NASA

Vetrarbrautin á suðurhveli

Vetrarbrautin á suðurhveli

27. mars

Vetrarbrautin okkar er meira áberandi á suðurhveli en norðurhveli. Helgast það af því að þar er miðjan betur sjáanleg og minna ryk sem byrgir sýn á stjörnuskarann. Þessa mynd tók Babak Tafreshi af himninum yfir Very Large Telescope ESO á Paranalfjalli í Chile, einum besta stað heims til að rannsaka og skoða næturhiminninn.

Mynd: ESO/B. Tafreshi ( twanight.org)

Síða 1 af 2