Stjörnuhrap yfir Dyrhólaey

20. maí 2013

  • geminíti, stjörnuhrap, Dyrhólaey
    Stjörnuhrap yfir Dyrhólaey. Mynd: Stéphane Vetter

Um miðjan desember 2012 skreytti loftsteinadrífan Geminítar himinhvolfið yfir Íslandi. Margir fylgdust með sjónarspilinu enda veður gott víða um land.

Einn þeirra var franski stjörnuljósmyndarinn Stéphane Vetter. Hann var þá staddur við Dyrhólaey á suðurströnd Íslands og fangaði þennan Geminíta brenna upp við hlið veiðimannsins Óríons. Undir Fjósakonunum í belti Óríons glittir í sverð veiðimannsins en stjarnan í miðju þess (bleikleit) er Sverðþokan, einn nálægasti fæðingarstaður stjarna við Jörðina.

Á bak við Reynisfjall og Reynisdranga er tunglið að rísa og málar himininn appelsínugulum litum.

Dyrhólaey reis úr sæ í eldgosi fyrir um það bil 80.000 árum. Drangarnir út af henni voru eitt sinn hluti af eynni en sjórinn hefur sorfið þá frá. Fram til ársins 1918 var Dyrhólaey syðsti tangi Íslands en í kjölfar Kötluhlaupsins það ár færðist ströndin sunnar. Lesa má nánar um myndun Dyrhólaeyjar í Náttúrufræðingnum frá árinu 1968.

Mynd: Stéphane Vetter

Höfundur texta: Sævar Helgi Bragason

Ummæli