Metanskýjamyndun á Títan

18. ágúst 2014

  • Metanskýjamyndun á Títan
    Metanskýjamyndun á Títan

Á Jörðinni verða ský til þegar vatn gufar upp og þéttist í háloftunum. Á Títan, stærsta tungli Satúrnusar, gerist hið sama, nema þar gufar vatn ekki upp heldur metan og etan, enda er þar meira en 170 stiga frost.

Í júlí síðastliðnum var Cassini geimfar NASA á leið burt frá Títan eftir framhjáflug. Á myndum sem geimfarið tók með um tveggja daga millibili sáust ský myndast og dreifa úr sér yfir stóru metanhafi, Ligeia Mare við norðurpól Títans. Mælingar á hreyfingu skýjanna benda til að yfir hafinu hafi verið mjög hægur vindur — gola eða stinningsgola – í kringum 3 til 4,5 metrar á sekúndu.

Þessi hreyfimynd samanstendur af 101 ljósmynd sem NAVCAM myndavélin í Rosetta geimfarinu tók í ágúst 2014 á leiðinni til halastjörnunnar 67P/Churyumov-Gerasimenko.
Þessi hreyfimynd sýnir metanský myndast yfir stóru metanhafi, Ligeia Mare, á Satúrnusartunglinu Títan. Myndirnar voru teknar milli 20. og 22. júlí 2014 þegar Cassini geimfarið var á leið burt frá Títan. Mynd: NASA/JPL-Caltech/Space Science Institute

Vísindamenn fylgdust með síðsumarskýjum á suðurhveli Títans um árabil eftir að Cassini kom til Satúrnusar árið 2004. Ský sáust líka snemma vors á norðurhvelinu en eftir að stór stormur geysaði á lágum breiddargráðum síðla árs 2010 hafa fremur fá og lítil ský sést á tunglinu. Skýjaskorturinn hefur komið vísindamönnum nokkuð á óvart, því líkön spá fyrir um aukna skýjamyndun á norðurhvelinu samhliða hækkandi hitastigi þegar sumarið nálgaðist.

Á Títan jafngildir eitt ár þrjátíu jarðárum og er hver árstíð um sjö jarðár. Eitt helsta markmið Cassini leiðangursins hér eftir verður að fylgjast með breytingum á Títan sem verða þegar sumarið gengur í garð á norðurhveli og veturinn færist yfir á suðurhvelinu.

Mynd: NASA/JPL-Caltech/Space Science Institute

Ummæli