Bjagaður risi

15. september 2014

  • Þyrilvetrarbrautin NGC 6872 í stjörnumerkinu Páfuglinum
    Þyrilvetrarbrautin NGC 6872 í stjörnumerkinu Páfuglinum. Mynd: ESA/Hubble & NASA

Á þessari mynd Hubble geimsjónauka NASA og ESA sést NGC 6872, þyrilvetrarbraut í stjörnumerkinu Páfuglinum. Óvenjulega lögun hennar má rekja til víxlverkunar við smærri vetrarbraut sem sést rétt fyrir ofan NGC 6872 og nefnist IC 4970. Báðar eru í um 300 milljón ljósára fjarlægð frá Jörðinni.

Enda á milli er NGC 6872 meira en 500.000 ljósár og því næst stærsta þyrilvetrarbraut sem fundist hefur hingað til. Aðeins NGC 262 er stærri en hún er um 1,3 milljón ljósár á breidd! Til samanburðar er Vetrarbrautin okkar um 100.000 ljósár í þvermál eða fimm sinnum minni en NGC 6872.

Efri þyrilarmurinn vinstra megin er bersýnilega bjagaður og útataður bláleitum stjörnumyndunarsvæðum. Þetta gæti verið vegna þess að IC 4970 fór nýlega í gegnum arminn, eða fyrir um 130 milljónum ára, sem er nýlegt á stjarnfræðilegan mælikvarða.

Stjörnufræðingar hafa tekið eftir að NGC 6872 virðist innihalda fremur lítið vetni sem er aðalhráefnið í nýjar stjörnur. Það þýðir að ef ekki hefði komið til víxlverkunnar vð IC 4970 hefði stjörnumyndunarhrina sennilega aldrei orðið í NGC 6872.

Mynd: ESA/Hubble & NASA

Ummæli