Snúningsskífan NGC 4526

20. október 2014

  • Linsulaga vetrarbrautin NGC 4526. Mynd: NASA/ESA
    Linsulaga vetrarbrautin NGC 4526. Mynd: NASA/ESA

Á þessari mynd Hubble geimsjónauka NASA og ESA sést falleg en fremur lítt þekkt vetrarbraut sem kallast NGC 4526. Í miðju hennar er áberandi bjartur kjarni sveipaður þykkri gas- og rykslæðu.

Þótt ákveðin kyrrð virðist ríkja yfir myndinni er vetrarbrautin langt í frá kyrrlát. Hún er með björtustu linsulaga vetrarbrautum sem vitað er um en slíkar vetrarbrautir falla einhvers staðar á milli sporvöluþoka og þyrilþoka. Í NGC 4526 hafa tvær sprengistjörnur sést, árin 1969 og 1995. Í miðju vetrarbrautarinnar er svo risasvarthol sem er 450 milljón sinnum massameira en sólin okkar. Mælingar á skífunni sýna að hún snýst afar hratt eða á um 250 km hraða á sekúndu.

NGC 4526 er hluti af Meyjarþyrpingunni, hópi vetrarbrauta í um 60 milljón ljósára fjarlægð frá Jörðinni. Vetrarbrautin okkar stefnir inn í hana.

Mynd: ESA/Hubble og NASA. Þakkir: Judy Schmidt

Ummæli