• Marsjeppi, Spirit, Opportunity

Geimferðir

Í gegnum tíðina hefur mestum hluta þekkingar okkar á sólkerfinu verið aflað með stjörnusjónaukum á jörðu niðri. Bylting varð þegar mannkynið hafði þróað tækni til að senda geimför út í geiminn og upp frá því hafa geimför heimsótt allar reikistjörnur sólkerfisins, nokkur tungl, smástirni og halastjörnur. Geimför hafa hjálpað okkur að öðlast ómetanlega þekkingu á þessum forvitnilegu hnöttum sólkerfisins.

Könnun sólkerfisins hefur verið að mestu ómönnuð hingað til. Geimförin eru jafnan send í langar geimferðir, langt út geiminn og snúa sjaldnast heim aftur. Geimförin eru að miklu leyti sjálfstýrð. Um borð í þeim eru tölvur sem stjórna öllum rannsóknartækjum og stýribúnaði og taka auk þess við upplýsingum frá jörðinni og senda gögn til jarðar. Sum gervitungl nýta sólarljós til raforkuframleiðslu á meðan önnur nota kjarnaofna.

Í geimförum er fjöldi mælitækja en þau verða að vera lítil og nett til að draga úr þyngd geimfarsins og minnka þar með kostnað. Nánast öll geimför hafa myndavélar til að ljósmynda það sem fyrir augum ber, bæði í mikilli og lítilli upplausn. Með litrófsgreinum komumst við að efnasamsetningu yfirborða og lofthjúp hnattanna og með sviðsmælum mælum við styrk segulsviðsins.

1. Nokkur áhugaverð geimför

Tugir geimfara hafa heimsótt hina ýmsu hnetti sólkerfisins. Hér undir er tafla yfir nokkur áhugaverð geimför.

Fyrirbæri
Leiðangur
Tegund
Komuár
Geimferðastofnun
Sólin
SOHO
Solar Dynamics Observatory
Solar Orbiter
Solar Probe+
Brautarfar
1995
2010
2017
2018
NASA/ESA
NASA
ESA
NASA
Merkúríus
MESSENGER
BepiColombo
Brautarfar
Brautarfar
2011
2015
NASA
ESA/JAXA
Venus
Magellan
Venus Express
Brautarfar
Brautarfar
1990
2006
NASA
ESA
Jörðin
Terra
Aqua
Envisat
Aura
Brautarfar
Brautarfar
Brautarfar
Brautarfar
1999
2002
2002
2004
NASA
NASA
ESA
NASA
Tunglið
Apollo geimáætlunin
Lunar Reconnaissance Orbiter
GRAIL
LADEE
Chang'e 3
Chang'e 4
Mannaðir leiðangrar
Brautarfar
Brautarfar
Brautarfar
Lendingarfar / jeppi
Lendingarfar / jeppi
1968-1972
2009
2011
2013
2013
2014
NASA
NASA
NASA
NASA
CNSA (Kína)
CNSA (Kína)
Mars
Mars Pathfinder/Sojourner
Mars Global Surveyor
2001 Mars Odyssey
Spirit og Opportunity
Mars Reconnaissance Orbiter
Mars Express
Phoenix
Fóbos-Grunt/Yinghuo-1
Curiosity (Mars Science Laboratory)
MAVEN
Mangalyaan
InSight
ExoMars 2016
ExoMars 2018
Mars 2020
Lendingarfar / jeppi
Brautarfar
Brautarfar
Jeppar
Brautarfar
Brautarfar
Lendingarfar
Lendingarfar / brautarfar
Jeppi
Brautarfar
Brautarfar
Lendingarfar
Brautarfar / lendingarfar
Jeppi
Jeppi
1997
1997
2001
2004
2006
2004
2008
2012
2012
2014
2014
2016
2016
2018
2021
NASA
NASA
NASA
NASA
NASA
ESA
NASA
Rússland/Kína
NASA
NASA
ISRO (Japan)
NASA
ESA/Roscosmos
ESA/Roscosmos
NASA
Smástirni
Hayabusa
Dawn
OSIRIS-REx
Hayabusa 2
Brautarfar / sýnasöfnunarfar
Brautarfar
Brautarfar / sýnasöfnunarfar
Brautarfar / sýnasöfnunarfar
2005
2011
2020

JAXA
NASA
NASA
JAXA
Júpíter
Galíleó geimfarið
Juno
JUICE
Brautarfar
Brautarfar
Brautarfar
1995
2016
2022
NASA/ESA
NASA
ESA
Satúrnus
Cassini
Huygens
Brautarfar
Lendingarfar (Títan)
2004
2005
NASA
ESA
Úranus
Neptúnus
Voyager 2
-
Framhjáflug
-
1986
1989
NASA
Plútó
New Horizons
Framhjáflug
2015
NASA
Halastjörnur
Stardust
Deep Impact
Rosetta
Framhjáflug / sýnasöfnunarfar
Framhjáflug / árekstrarfar
Brautarfar / lendingarfar
2004
2005
2014
NASA
NASA
ESA

2. Tegundir geimferða

Almennt séð eru til fjórar mismunandi tegundir af leiðöngrum:

  • Framhjáflug, þegar geimför fljúga einu sinni framhjá hnetti og halda svo för sinni áfram, annað hvort að næsta hnetti eða jafnvel út úr sólkerfinu.

  • Brautarför, þegar geimför komast á sporbraut um reikistjörnu eða annan hnött. Þessir leiðangrar gera okkur kleift að rannsaka hnöttinn í langan tíma.

  • Lendingarför eða könnunarför, þegar geimför lenda á yfirborði hnattar annars vegar og falla hins vegar í gegnum lofthjúp hnattar. Sum lendingarför eru stöðug á meðan önnur eru hreyfanleg (jeppar).

  • Sýnasöfnunarför, þau geimför sem safna sýnum og snúa með til jarðar.

Við skulum skoða hverja tegund nánar.

2.1. Framhjáflug

Voyager geimfarið
Voyager 2 flaug framhjá gasrisunum í ytra sólkerfinu á tíu ára tímabili milli 1979 og 1989 og hélt svo út úr sólkerfinu okkar. Mynd: NASA/JPL

Framhjáflug (e. flyby) eru gjarnan ódýrustu leiðangrarnir. Þeir krefjast minna magns af eldsneyti en aðrir leiðangrar. Eldsneytið er drjúgur hluti af kostnaði við leiðangurinn því það eykur þyngd geimfarsins. Léttum geimförum má skjóta á loft með ódýrari eldflaugum sem dregur verulega úr kostnaði. Lítil þörf er á eldsneyti þegar geimfarið er lagt af stað því í geimnum er ekkert loft sem hægir á ferð þess. Geimfarið þarf aðeins eldsneyti ef breyta eða leiðrétta á brautarferli þess.

Stundum er hægt að slá tvær eða fleiri flugur í einu höggi og heimsækja meira en einn hnött í einum og sama leiðangrinum. Í slíkum tilvikum má spara eldsneyti með því að nýta þyngdartog reikistjörnunnar sem flogið er framhjá. Við framhjáflugið er hægt að auka hraða geimfarsins og breyta brautarferlinum þannig að það stefnir að þeim næsta. Í leiðinni hægir geimfarið pínulítið á snúningi reikistjörnunnar, þótt ótrúlegt megi virðast. Á þennan hátt heimsótti Voyager 2 allar reikistjörnur ytra sólkerfisins og hélt svo út úr sólkerfinu.

Þótt framhjáflug standi yfirleitt yfir í stuttan tíma fást engu að síður mjög gagnlegar upplýsingar úr heimsókninni. Með öflugum myndavélum sést yfirborð reikistjarna og tungla mun betur en í gegnum bestu sjónauka jarðar. Með litrófsgreinum fæst áreiðanlegri mynd af efnasamsetningu hnattanna. Þess utan er hægt að nálgast upplýsingar sem mjög erfitt eða jafnvel ekki er hægt að afla frá jörðinni. Voyager 2 uppgötvaði t.d. hringa Júpíters með því að beina myndavélum sínum að reikistjörnunni þegar hún huldi sólina. Hringarnir voru þá baklýstir og blöstu við á ljósmyndum.

Framhjáflug gefa okkur kost á að mæla styrk segulsviðsins í kringum hnettina og ryk í geimnum. Þyngdarkraftur reikistjarnanna togar í gervitunglin sem gerir okkur kleift að leiða út massa þeirra og eðlismassa. Þannig upplýsingar segja okkur ýmislegt um efnasamsetningu og innviði hnattanna.

Dæmi: Voyager 2 og New Horizons

2.2. Brautarför

Cassini geimfarið, Huygens-kanninn, geimför, Satúrnus
Cassini geimfarið er nú á braut um Satúrnus. Hér búa verkfræðingar það undir prófanir. Gulllitaða skífan framan á geimfarinu er Huygens-kanninn. Mynd: NASA/JPL

Þótt framhjáflug séu ágæt til síns brúks kemur fátt í staðinn fyrir brautarför (e. orbiters). Brautarför geta dvalið mánuðum eða jafnvel árum saman við hnöttinn og gert okkur þar með kleift að fylgjast með breytingum á yfirborði hans og lofthjúpi. Brautarför hafa verið send til tunglsins, Venusar, Mars, Júpíters, Satúrnusar og tveggja smástirna. Á næstu árum bætast Merkúríus og halastjarna í þennan fríða hóp.

Brautarför eru mun dýrari en framhjáflug vegna þess mikla eldsneytis sem þau þurfa til að komast á heppilega braut um hnettina. Verkfræðingar hafa reynt að draga úr eldsneytiskostnaði með ýmsum hætti. Geimför sem heimsótt hafa Mars hafa t.d. sparað eldsneyti með því að fara fyrst á stóra sporöskjulaga braut um reikistjörnuna. Síðan er núningur geimfarsins við lofthjúpinn notaður til að hægja ferðina og lækka brautina. Þessi aðferð kallast lofthemlun og líkist helst því að láta geimfarið fleyta kerlingar á lofthjúpnum í nokkra mánuði.

Í sumum brautarförum eru ratsjár um borð. Þær nýtast sérstaklega vel til þess að gera hæðarmælingar á yfirborðum hnattanna, en einnig til að skyggnast í gegnum skýjahulu hnatta eins og Venusar og Títans.

Dæmi: Mars Reconnaissance Orbiter, Cassini geimfarið

2.3. Lendingar- og könnunarför

phoenix, fönix, Mars
Phoenix kemur inn til lendingar á Mars. Mynd: NASA/JPL

Nákvæmustu rannsóknir hnöttum sólkerfisins fara fram á staðnum, þ.e. þegar geimfar fellur í gegnum lofthjúp hnattar (e. probe) eða lendir á yfirborðinu (e. lander). Á reikistjörnum með fast yfirborð er hægt að lenda, taka nærmyndir af yfirborðinu, gera veðurathuganir og jafnvel framkvæmt líf- og efnafræðilegar rannsóknir á jarðveginum. Stundum eru lendingarförin jeppar sem aka þvers og kruss um yfirborðið, eins og Marsjepparnir Spirit og Opportunity.

Árið 1995 féll könnunarfar í gegnum lofthjúp Júpíters. Í um það bil klukkustund mældi farið hitastig, loftþrýsting, efnasamsetningu og geislun í lofthjúpnum, allt þar til það eyðilagðist vegna hitans og þrýstingsins í innviðum Júpíters.

Lendingarför eru dýr því þau eru tæknilega erfið. Með miklu hugmyndaflugi tókst snjöllum verkfræðingum að lenda Marsjeppunum Sojourner, Spirit og Opportunity með hjálp loftpúða. Með loftpúðunum gátu geimförin skoppað um yfirborðið.

Dæmi: Huygens-kanninn, Curiosity jeppinn

2.4. Sýnasöfnunarför

sýnasöfnunarleiðangur
Menn dreymir um að senda sýnasöfnunarfar til Mars. Mynd: NASA/JPL

Lendingarför eru yfirleitt tiltölulega lítil, svo ef gera á tilraunir á yfirborðinu verður rannsóknarstofan að komast fyrir innan í geimfarinu. Lítið má út af bregða ef rannsóknin á að heppnast enda er lendingarförunum takmörk sett. Vísindamenn kjósa því helst að fá að handleika sýnin sjálfir. Það er aðeins hægt með sýnasöfnunarförum (e. sample missions) sem heimsækja hnött, sækja sýni af honum og koma með heim til jarðar.

Hingað til hafa einu mönnuðu sýnasöfnunarleiðangrarnir verið farnir til tunglsins. Apollo geimfararnir sneru með tugi kílógramma af tunglgrjóti til jarðar. Þessi sýni hafa kennt okkur heilmargt um tunglið og lögðu grunninn kenningunni um myndun tunglsins.

Sýnasöfnunarleiðangur til Mars er draumur flestra reikistjörnufræðinga. Enginn slíkur leiðangur er fyrirhugaður eins og er, en það kann að breytast á næstu árum.

Árið 2006 sneri Stardust geimfarið með sýni úr halastjörnunni Wild 2 til jarðar, eftir að hafa flogið framhjá henni. Árið 2010 sneri svo japanska könnunarfarið Hayabusa með sýnasöfnunarhylki til jarðar eftir heimsókn til smástirnisins Itokawa.

2.5. Blandaðir leiðangrar

Stundum eru tvö geimför send út í geiminn í einu til eins og sama hnattar. Þannig fylgdi lítið könnunarfar Galíleó geimfarinu á leið þess til Júpíters sem losnaði frá og féll í gegnum lofthjúp reikistjörnunnar. Cassini geimfarið heimsótti Venus, jörðina og Júpíter á sjö ára ferðalagi sínu til Satúrnusar. Með í för var Huygens-könnunarfarið sem féll í gegnum lofthjúp og lenti á yfirborði Títans í janúar 2005.

Heimildir

  1. Jeffrey Bennett, Megan Donahue, Nicholas Schneider og Mark Voit. 2010. The Cosmic Perspective, 6. útgáfa. Addison-Wesley, New York.

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2010). Geimferðir. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornufraedi.is/solkerfid-large/geimferdir (sótt: DAGSETNING).