Halastjarnan C/2013 A1 (Siding Spring)

  • halastjarna, Siding Spring, Mars
    Halastjarnan C/2013 A1 (Siding Spring). Mynd: Carl Hergenrother
Helstu upplýsingar
Uppgötvuð af:
Siding Spring
Uppgötvuð:
3. janúar 2013
Fjarlægð við sólnánd:
1,4 SE
Umferðartími:
Óþekktur

1. Uppgötvun

Stjörnufræðingurinn Robert McNaught uppgötvaði halastjörnuna þann 3. janúar 2013 á myndum sem teknar voru með 0,5 metra Uppsala Schmidt sjónaukanum í Siding Spring í Ástralíu.

Tíu dögum síðar varð heimili McNaughts skógareldum að bráð og hluti stjörnustöðvarinnar líka. Fljótlega í kjölfarið fundu stjörnufræðingar í Arizona halastjörnuna á myndum sem teknar höfðu verið í Catalina Sky Survey mánuði áður.

Þegar halastjarnan fannst var hún 7,2 stjarnfræðieiningar frá sólinni (tæplega 1,1 milljarður km) í stjörnumerkinu Úlfinum.

Útreikningar á braut halastjörnunnar sýna að hún kemst næst sólinni þann 25. október 2014, þá í 1,4 stjarnfræðieininga fjarlægð (um það bil 210 milljón km) frá sólinni. Skömmu áður, þann 19. október, fer halastjarnan framhjá Mars í aðeins 37.000 (útreikningar Leonids Elenin) til 105.000 km hæð (útreikningar JPL) yfir yfirborðinu. Nálægðin er slík að í fyrstu var ekki hægt að útiloka árekstur en líkurnar á árekstri eru nú taldar um 1 á móti 10.000.

1.1 Stærð

Mælingar sem gerðar voru með Swift geimsjónauka NASA milli 27. og 29. maí 2014 sýna að halastjarnan er líklega aðeins um 700 metrar í þvermál. Sömu mælingar sýndu að um 49 lítrar af vatni gufuðu upp af halastjörnunni á sekúndu [4]

2. Árekstur

halastjarna, Siding Spring, Mars
Ferill halastjörnunnar C/2013 A1 (Siding Spring) í október 2014 þegar hún verður einstaklega nálægt Mars. Mynd: JPL Small-body Database Browser / Emily Lakdawalla

Halastjarnan og Mars mættust á um 56 km hraða á sekúndu. Kjarni halastjörnunnar er innan við einn kílómetri í þvermál og ef kæmi til áreksturs, yrði til að minnsta kosti 10 km djúpur og allt að nokkur hundruð km breiður gígur. Áreksturinn yrði einn af stærstu árekstrum við Mars í sögu reikistjörnunnar! Útreikningar sýndu þó fljótt að ekki var nokkur hætta  á árekstri.

Halastjarnan nálgaðist Mars úr suðri og stefndi upp norðurhimininn á örfáum klukkustundum.

3. Hætta fyrir geimför

Af þeim gervitunglum sem sveima um Mars nær evrópska geimfarið evrópska geimfarið Mars Express mestri hæð, um 10.000 km, en hin brautarförin, Mars Odyssey og Mars Reconnaissance Orbiter eru í 300 til 400 km hæð yfir Mars. Á Mars eru engin gervitungl á staðbraut svo engar líkur eru á að gervitunglin rekist á halastjörnuna.

Hins vegar er önnur hætta á ferðum.

Þegar halastjörnur ferðast inn í sólkerfið byrja þær að gufa upp vegna hitans frá sólinni. Þá losna frá þeim gastegundir, ís- og rykagnir sem mynda hjúp eða hadd í kringum kjarna halastjörnunnar. Kjarninn er lítill, kannski 1 til 10 km í þvermál (hugsanlega nokkrir tugir km) en hjúpurinn getur orðið feikistór, jafnvel meira en hundrað þúsund kílómetrar í þvermál!

Þegar halastjarnan þýtur framhjá Mars í október á næsta ári verður reikistjarnan því væntanlega innan í hjúpnum um tíma. Þá skapast hætta fyrir gervitunglin á braut um Mars.

Á þessum tíma verður halastjarnan á 56 km hraða á sekúndu. Stærð agnanna í hjúpnum skiptir máli; flestar eru örsmáar en aðrar geta verið nokkrir sentímetrar að stærð. Ef þessar litlu, hraðfleygu agnir rekast á gervitunglin geta þau laskast og jafnvel eyðilagst.

Jepparnir á Mars, Curiosity og Opportunity, eru sennilega hólpnir. Flestar agnirnar munu brenna upp í lofthjúpi Mars í það sem gæti orðið stórkostlegustu stjörnuhrapasýningu sem sögur fara af. Ef þú stæðir á yfirborðinu sæirðu líklega mörg þúsund stjörnuhröp á klukkustund! Sannkallað loftsteinaregn!

Vonandi verður myndavélum jeppanna beint til himins þegar halastjarnan nálgast og fer framhjá. Það gætu náðst stórkostlegar myndir!

4. Myndir Hubbles af halastjörnunni

Þann 11. mars, þegar halastjarnan var komin inn fyrir braut Júpíters á ferðalagi sínu að sólinni, var Hubble geimsjónauka NASA og ESA beint að henni. Á myndunum sem þá voru teknar sjást tveir strókar skaga út úr kjarnanum og um 20.000 km breiður hjúpur. Þessir sömu strókar sáust fyrst á myndum sem Hubble tók þann 29. október 2013. Strókarnir gera stjörnufræðingum kleift að reikna út snúningshraða og snúningsás halastjörnunnar. 

Halastjarnan Siding Spring á mynd Hubble geimsjónaukans
Virkni á halastjörnunni Siding Spring. Vinstra megin sést myndin sem Hubble tók 11. mars 2014 þegar halastjarnan var í um 565 milljón km fjarlægð frá Jörðinni. Búið er að vinna myndina hægra megin til að draga fram smáatriði í hjúpnum sem ella sjást illa. Þar koma í ljós tveir strókar sem skaga út úr sitt hvorri hlið halastjörnunnar. Mynd: NASA, ESA og J.-Y. Li (Planetary Science Institute)

5. Heimildir

  1. Alan MacRobert: Mars has Front-Row Seat for 2014 Comet. Sky & Telescope.org

  2. Emily Lakdawalla: Comet to whiz past Mars in October 2014. Planetary.org

  3. Hubble Sees Mars-Bound Comet Sprout Multiple Jets. Hubblesite.org

  4. NASA's Swift Satellite Tallies Water-Production of Mars-bound Comet. NASA.gov

Höfundur: Sævar Helgi Bragason