Loki Patera

Öflugasta eldfjall sólkerfisins

  • Loki Patera, Íó, Voyager 1
    Loki Patera á Íó (dökka skeifulaga svæðið). Mynd: NASA

Loki Patera er um 200 km breið skeifulaga hrauntjörn, rétt norðan miðbaugs Íó, fylgitungls Júpíters. Eldfjallið er nefnt eftir norræna jötnanum Loka Laufeyjarsyni.

Loki reyndist vera virkt eldfjall á myndum sem Voyager 1. tók af tunglinu er það þaut framhjá Júpíter árið 1979. Síðar kom í ljós að það er öflugasta eldfjall sólkerfisins en mælingar sýna að frá því berst um 13-15% af heildarvarmarútgeislun Íós. Vegna þessa mikla hita hafa stjörnufræðingar velt fyrir sér hvort Loki gæti verið op í kvikuhafið undir Íó en líklegra er talið að um hrauntjörn sé að ræða.

Vegna heppilegrar staðsetningar á Íó og mikillar orkuútgeislunar er fremur auðvelt að rannsaka Loka frá jörðinni. Mælingar af jörðu niðri og í geimnum á Loka síðustu þrjá áratugi eða svo sýna að virknin er lotunbundin. Á um 540 daga fresti eða svo virðist sem yfirborð hrauntjarnarinnar umbyltist. Það sést af því að birtan frá Loka vex og dvínar með þessu millibili. Hitamælingar sem gerðar voru með nær-innrauðum litrófsrita (NIMS) á Galíleó geimfarinu sýndu að hitinn er hæstur, rétt undir 700°C, við suðvesturhorn Loka. Þar virðist kvika stíga upp á við og færast eins og öldur í austurátt þar sem hrauntjörnin er köldust og skorpan þá líklega eldri. Ekki eru nein merki um að hraun hafi runnið út fyrir Loka.

Myndir Voyagers sýndu að dökk hrauntjörnin umlykur ljósa eyju. Mælingar Galíleó geimfarsins sýndu að dökka hraunið er heitt og ríkt af orþópýroxeni á meðan eyjan er köld. Orþópýroxenið er silíkatsteind sem er algeng í basísku bergi.

Heimildir

  1. Howell, R. R.; R. M. C. Lopes (2007). „The nature of the volcanic activity at Loki: Insights from Galileo NIMS and PPR data“. Icarus 186: 448–461. Bibcode 2007Icar..186..448H. doi:10.1016/j.icarus.2006.09.022.

  2. Matson, D. L.; et al. (2006). „Io: Loki Patera as a magma sea“. J. Geophys. Res. 111: E09002. Bibcode 2006JGRE..11109002M. doi:10.1029/2006JE002703.

  3. Rathbun, J. A.; J. R. Spencer (2006). „Loki, Io: New ground-based observations and a model describing the change from periodic overturn“. Geophysical Research Letters 33: L17201. arXiv:astro-ph/0605240. Bibcode2006GeoRL..3317201R. doi:10.1029/2006GL026844.

  4. Blue, Jennifer. "Loki Patera". Gazetteer of Planetary Nomenclature. USGS Astrogeology Research Program.

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2011). Loki Patera - öflugasta eldfjall sólkerfisins. Stjörnufræðivefurinn http://www.stjornuskodun.is/solkerfid/jupiter/loki-patera sótt (DAGSETNING)