Leonítar

Loftsteinadrífa

  • Óríonítar
    Óríonítar. Mynd: Wikimedia Commons

Leoníta má rekja til halastjörnunnar 55P/Tempel-Tuttle. Árið 1865 fundu tveir stjörnufræðingar, Ernst Tempel og Horace Tuttle, halastjörnuna hvor i sínu lagi, Halastjarnan er um 4 km í þvermál og gengur um sólina á rétt rumlega 33 árum.

Leonítar eru án efa þekktasta loftsteinadrífan vegna þess að á um það bil 33 ára fresti fer jörðin í gegnum sérlega þéttan hluta af rykslóða halastjörnunnar. Árið 1833 var einstaklega mikil loftsteinahríð og gátu áhorfendur sér þess til að sést hefðu um 100 þúsund stjörnuhröp á einni klukkustund. Seinast sáust nokkur þúsund stjörnuhröp úr Leoníta drífunni árið 1999. Oftast framleiða Leonítar hins vegar innan við 100 stjörnuhröp á klukkustund.

Leonítar hefur hraðfleygustu agnir allra loftsteinadrífa. Leoníta-agnirnar eru í kringum 10mm að stærð og vega um hálft gramm að meðaltali en rekast á lofthjúp Jarðar á um 72 km hraða á sekúndu (259.000 km/klst). Fyrir vikið eru Leonítar þekktir fyrir fleiri vígahnetti (mjög skær stjörnuhröp) en flestar aðrar loftsteinadrífur. Sum stjörnuhröpin skilja eftir sig áberandi rykhala sem geta varað í nokkrar sekúndur. Alla jafna eru stjörnuhröpin hvít eða blá-hvít á litinn.

Hvenær er best að fylgjast með Leonítum?

  • Heppilegasti tíminn til að fylgjast með Leonítum er eftir miðnætti. Á Íslandi um miðjan nóvember rís Ljónsmerkið í austri um klukkan 02 að nóttu og er í suðri um klukkan 08 að morgni.

  • Best er að fylgjast með drífunni fjarri ljósmenguðum bæjum. Ef tunglið er á lofti getur það haft töluverð áhrif á fjölda sýnilegra stjörnuhrapa.

  • Ekki er þörf á neinum sjóntækjum, svo sem handsjónaukum eða stjörnusjónaukum, en hins vegar getur verið gaman að skoða rykslóðirnar í gegnum handsjónauka.

  • Taktu með þér stól, hlý föt og heitan drykk því nauðsynlegt er að gefa sér tíma þegar fylgst er með loftsteinadrifum, helst í klukkustund eða tvær, að minnsta kosti.

Heimildir

  1. Michael E. Bakich. 2015. Conditions are prime for the Leonid meteor shower.

  2. MeteorshowersOnline: Leonids.

Höf. Sævar Helgi Bragason