Makemake

Dvergreikistjarna

  • Dvergreikistjarnan Makemake. Mynd: NASA/ESA
    Dvergreikistjarnan Makemake. Mynd: NASA/ESA
Tölulegar upplýsingar
Uppgötvað af:
Michael Brown
Chad Trujillo
David Rabinowitz
Uppgötvuð árið:
31.mars 2005
Meðalfjarlægð frá sólu: 45,7 SE
Umferðartími um sólu: 309 ár
Brautarhraði: 4,4 km/s
Þvermál:
~1500 km
Massi:
2-5 x 1021 kg (áætlun)
Eðlismassi:
1,4 g/cm3 (áætlun)
Snúningshraði: 7,7 klst
Meðalhitastig yfirborðs:
-240°C
Endurskinshlutfall:
0,77
Sýndarbirtustig:
+16,7 (við gagnstöðu)

1. Uppgötvun

Hópur stjörnufræðinga undir forystu Mike Brown fundu Makemake hinn 31. mars 2005 með sjónauka í Palomar stjörnustöðinni í Bandaríkjunum. Makemake fannst eftir kerfisbundna leit að fyrirbærum í Kuipersbeltinu á óvenjulegum stað á himinhvolfinu, langt fyrir ofan sólbauginn í stjörnumerkinu Bereníkuhaddi.

Makemake er næst bjartasti hnötturinn í Kuipersbeltinu á eftir Plútó (birtustig +16,5) sem þýðir að hægt er að sjá hann með stórum og góðum áhugamannasjónauka.

1.1 Nafn

Tilkynnt var um uppgötvunina hinn 29. júlí 2005 og var hún þá til bráðabirgða kölluð 2005 FY9. Hún gekk einnig undir gælunafninu Páskakanínan, þar sem hún fannst skömmu eftir páska.

Í júlí 2008 gaf örnefnanefnd Alþjóðasambands stjarnfræðinga (IAU) henni nafnið Makemake (borið fram Ma-keh Ma-keh) eftir uppástungu stjörnufræðingsins Mike Brown. Að auki fékk hnötturinn skráarheitið (136472) Makamake þar sem um smáhnött í sólkerfinu er að ræða.

Makemake var skapari mannkyns og guð frjósemi í trúarbrögðum Rapa Nui, innfæddra íbúa á Páskaeyju. Hann hefur mannsbúk en fuglshöfuð. Nafnið var að hluta til valið vegna tengslanna við páskana en líka vegna þess að eiginkona Browns var óllétt af dóttur þeirra og honum þótti frjósemisguð eiga vel við.

2. Braut

Makemake er lengra frá sólinni en Plútó en nær henni en Eris. Í sólfirrð er Makamke rúmar 52 stjarnfræðieiningar frá sólu (7,8 milljarða km) en í sólnánd er vegalengdin tæplega 39 stjarnfræðieiningar (5,8 milljarðar km).

Makemake gengur um sólina á sporöskjulaga braut á um 310 árum. Brautin hallar töluvert miðað við sólbauginn eða 29° sem skýrir hvers vegna hnötturinn fannst í stjörnumerkinu Bereníkuhaddi.

Neptúnus hefur áhrif á braut Makemake en hnettirnir eru í 11:9 brautarherma. Það þýðir að í Neptúnus fer 11 sinnum í kringum sólina á sama tíma og Makemake fer 9 ferðir um sólina.

3. Eðliseiginleikar

Makemake, dvergreikistjarna
Teikning listamanns af yfirborði Makemake. Mynd: ESO/L. Calçada/Nick Risinger (skysurvey.org)

Í apríl árið 2011 gekk Makemake fyrir daufa stjörnu, NOMAD 1181-0235723 (NOMAD stendur fyrir Naval Observatory Merged Astronomic Dataset). Stjörnufræðingar fylgdust grannt með stjörnumyrkvanum með sjö mismunandi sjónaukum í Brasilíu og Chile. Þóttt myrkvinn stæði yfir í aðeins eina mínútu notuðu stjörnufræðingarnir sérhæfða háhraða myndavélar til að fylgjast með atburðinum.

Mælingar stjörnufræðinganna sýndu að Makemake er um 2/3 af stærð Plútós eða um 1500 km í þvermál. Makemake er því örlítið stærri en Hámea og því þriðja stærsta þekkta útstirnið á eftir Plútó og Erisi.

Engin merki sáust um lofthjúp, sem kom nokkuð á óvart. Búist hafði verið við því að Makemake hefði örþunnan lofthjúp eins og Plútó.

3.1 Yfirborð

Mælingar með William Herschel sjónaukanum og Galíleó sjónaukanum á La Palma á Kanaríeyjum sýna að yfirborð Makemake er rauðleitt og líkist líklega yfirborði Plútós. Rauði liturinn verður sennilega til vegna ljósefnahvarfa, þ.e. sólarljósið brýtur metanið niður og skilur eftir rauðleitt kolefni sem fellur á yfirborðið. Plútó er rauðleitur af sömu ástæðu.

Makemake endurvarpar um 77% sólarljóssins, sem er meira en Plútó en minna en Eris. Þetta bendir til þess að yfirborðið sé að langmestu leyti ljósleitt og úr metanís og niturís. Yfir 90% af yfirborðinu er þakið metan- og niturís en restin, um 3-7% er líklega þakið kolefnasamböndum. Þetta sést af endurvarpi mismunandi hluta yfirborðsins.

Makemake hefur ekkert tungl svo erfitt er að meta massann. Mælingarnar benda þó til þess að eðlismassinn sé í kringum 1,7 ± 0,3 grömm á rúmsentímetra. Af því má álykta að Makemake sé að mestu leyti úr vatnsís og sé pólflatur..

4. Tengt efni

5. Heimildir

  1. Brown, Mike (2008). „Mike Brown's Planets: Make-make“. California Institute of Technology.
  2. Fourth dwarf planet named Makemake. IAU.org

  3. Brown, Mike (2008). „Mike Brown's Planets: What's in a name? (part 2)“. California Institute of Technology
  4. M.E. Brown, 2013, „On the size, shape, and density of dwarf planet Makemake
  5. Dvergreikistjörnuna Makemake skortir lofthjúp — Fjarlægur helkaldur hnöttur afhjúpar leyndardóma sína í fyrsta sinn“. ESO.org

– Sævar Helgi Bragason