Messier 43

  • Messier 43, M43, NGC 1682
    Messier 43 í Óríon
Helstu upplýsingar
Tegund: Ljómþoka
Stjörnulengd:
05klst 35,6mín
Stjörnubreidd:
-05° 16′
Fjarlægð:
1.400 ljósár
Sýndarbirtustig:
+9,0
Hornstærð:
20x15 bogamínútur
Stjörnumerki: Óríon
Önnur skráarnöfn:
NGC 1982

Ekki er vitað nákvæmlega hvenær þokan uppgötvaðist en Jean-Jacques Dortous de Mairan greindi fyrstur manna frá henni fyrir árið 1731. Charles Messier teiknaði þokuna inn á fyrstu teikningu sína af Sverðþokunni og skrásetti þann 4. mars 1769.

Þokan er líka í skrá Williams Herschel jafnvel þótt hann gætti þess jafnan að skrásetja ekki Messier-fyrirbæri. Í grein frá árinu 1811 segist Herschel fyrst hafa séð hana 4. mars 1774 en hann skrásetti hana ekki fyrr en 3. nóvember 1783. M43 sést glögglega á fyrstu stjörnuljósmyndinni sem Henry Draper tók af Sverðþokunni þann 14. mars 1882.

Messier 43 umlykur unga óreglulega breytistjörnu sem nefnist NU Orionis eða HD 37061. Sýndarbirtustig stjörnunnar er á bilinu 6,5 til 7,6 en litrófstegundin er B. Þessi stjarna lýsir upp gasþokuna. Í þokunni er líka lítil stjörnuþyrping.

Mjög auðvelt er að koma auga á Messier 43 í gegnum litla stjörnusjónauka. Dökku rykskýin við austurenda þokunnar sjást vel í 8 tommu sjónaukum en það hjálpar að draga fram smáatriði ef notast er við OIII eða UHC síur. Mjög auðvelt er að finna þokuna þar sem hún er nánast alveg upp við Sverðþokuna.

Tengt efni

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2012). Messier 43. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/djupfyrirbaeri/messierskrain/messier-43 (sótt: DAGSETNING).