Messier 48

Lausþyrping í Vatnaskrímslinu

  • Messier 48, lausþyrping, Vatnaskrímslið
    Lausþyrpingin Messier 48 í Vatnaskrímslinu. Mynd: NOAO/AURA/NSF
Helstu upplýsingar
Tegund: Lausþyrping
Stjörnulengd:
08klst 13,7mín
Stjörnubreidd:
-05° 45′
Fjarlægð:
1.500 ljósár
Sýndarbirtustig:
+5,5
Stjörnumerki: Vatnaskrímslið
Önnur skráarnöfn:
NGC 2548

Franski stjörnufræðingurinn Charles Messier uppgötvaði og skrásetti þyrpinguna árið 1771. Aftur á móti er ekkert fyrir á þeim stað sem Messier tiltók. Stjörnulengdin kemur heim og saman við M48 en stjörnubreiddin skeikar um fimm gráður suður. Þyrpingin „týndist“ því um tíma.

Einhvern tímann árið 1783 fann Þjóðverjinn Jóhann Elert Bode þyrpinguna og svo Caroline Herschel árið 1783. William bróðir Caroline bætti þyrpinguni við sína skrá árið 1786 svo Caroline er oftast veittur heiðurinn af uppgötvuninni en ekki Messier.

Messier 48 er í um 1.500 ljósára fjarlægð. Hún er um 24 ljósár í þvermál og inniheldur um 80 stjörnur. Af þeim eru 50 bjartari en birtustig +13. Heitasta og bjartasta stjarnan er í litrófsflokki A2 en birtustig hennar er +8,8. Hún er 70 sinnum bjartari en sólin okkar. Í M48 eru þrír gulir risar í litrófsflokki G og K. Þyrpingin er talin í kringum 300 milljón ára.

Á himninum

Þar sem Messier 48 er í höfðu Vatnaskrímslisins, við vesturbrún Einhyrningsins, sést hún ágætlega frá Íslandi, þótt hún komist aldrei mjög hátt yfir sjóndeildarhringinn. Best er að skoða hana síðla vetrar, í febrúar og nóvember, þegar hún er í hágöngu í suðri um miðnætti (snemma í mars). Til að finna hana er nauðsynlegt að styðjast við stjörnukort af Vatnaskrímslinu.

Sýndarbirtustig M48 er +5,5 svo hún sést með berum augum við góðar aðstæður. Hún er kjörið viðfangsefni fyrir góða handsjónauka (t.d. 10x50) þótt best sé að skoða hana við litla stækkun í stjörnusjónauka.

Tengt efni

Heimildir

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2012). Messier 48. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/djupfyrirbaeri/messierskrain/messier-48 (sótt: DAGSETNING).