Messier 5

Kúluþyrping í Höggorminum

  • M5, Messier 5, Höggormurinn, NGC 5904, kúluþyrping
    Messier 5 (NGC 5904) er kúluþyrping í stjörnumerkinu Höggorminum.
Helstu upplýsingar
Tegund: Kúluþyrping
Stjörnulengd:
15klst 18mín 33,75s
Stjörnubreidd:
+02° 04′ 57,7"
Fjarlægð:
24.500 ljósár
Sýndarbirtustig:
+6,65
Stjörnumerki: Höggormurinn
Önnur skráarnöfn:
NGC 5904

Þýski stjörnufræðingurinn Gottfried Kirch og kona hans Maria Margarethe uppgötvuðu þyrpinguna 5. maí árið 1702 þegar þau voru að fylgjast með halastjörnu sem þá var á himni. Þau lýsti þyrpingunni sem „þokukenndri stjörnu“. Charles Messier fann hana 23. maí árið 1764 og lýsti henni sem hringlaga þoku án stjarna. Árið 1791 greindi William Herschel fyrstur manna stjörnur í þyrpingunni og taldi 200 þeirra.

Messier 5 er í um 24.500 ljósára fjarlægð. Hún er 165 ljósár í þvermál og því með stærri kúluþyrpingum. Hún er einnig með elstu kúluþyrpingum sem sveima um Vetrarbrautina okkar, um 13 milljarða ára. Í þyrpingunni eru yfir 100.000 stjörnur.

Á himninum

Við allra bestu aðstæður sést Messier 5 með berum augum sem dauf „stjarna“ nálægt stjörnunni 5 Serpentis. Best er að nota stjörnukort af Höggorminum til að finna hana. Með handsjónauka sést greinilega að ekki er um venjulega stjörnu að ræða, heldur kúlulaga þokumóðu. Áhugamannastjörnusjónaukar sýna hins vegar glæsilega kúluþyrpingu og stakar stjörnur í henni, þær björtustu með sýndarbirtustigið +12,2.

Messier 5 er með fallegri kúluþyrpingum sem höfundur þessarar greinar hefur séð frá Íslandi, örlítið stærri en bæði Messier 13 og Messier 15, aðrar glæsilegar kúluþyrpingar. Hún ætti að vera ofarlega á lista þeirra sem eru að stíga sín fyrstu skref í stjörnuskoðun og vilja byrja að skoða aðeins meira krefjandi fyrirbæri.

Tengt efni

Heimildir

  1. Messier 5, SEDS Messier pages

  2. en.wikipedia.org/wiki/Messier_5

  3. Gömul þyrping glædd nýju lífi. Mynd vikunnar á Stjörnufræðivefnum.

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2012). Messier 5. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/djupfyrirbaeri/messierskrain/messier-5 (sótt: DAGSETNING).