Messier 71

Kúluþyrping í Örinni

  • Messier 71, kúluþyrping, Örin
    Kúluþyrpingin Messier 71 í Örinni. Mynd: NASA/ESA/WikiSky
Helstu upplýsingar
Tegund: Kúluþyrping
Stjörnulengd:
19klst 53mín 46,11s
Stjörnubreidd:
+18° 46′ 42,3"
Fjarlægð:
13.000 ljósár
Sýndarbirtustig:
+6,1
Stjörnumerki: Örin
Önnur skráarnöfn:
NGC 6838

Franski stjörnufræðingurinn Philippe Loys de Chéseaux uppgötvaði þyrpinguna milli 1745-46 og var hún þrettánda fyrirbærið í skrá hans. Charles Messier skrásetti hana 4. október 1780 og lýsti sem þoku án stjarna. William Herschel greindi fyrstur manna stjörnur í henni árið 1783.

Messier 71 er í um 13.000 ljósára fjarlægð og um 27 ljósár í þvermál. Hún er því með nálægustu kúluþyrpingum við sólkerfið okkar. H-R línurit hennar sýnir að þyrpingin er tiltölulega ung af kúluþyrpingu að vera eða í kringum 9-10 milljarða ára.

Messier 71 er svo gisin kúluþyrping að stjörnufræðingar töldu margir hverjir lengi vel að hún væri þétt lausþyrping, svipuð Messier 11. Ljósmælingar sýna hins vegar að lárétta greinin á H-R línuriti þyrpingarinnar er stutt sem er einkennismerki kúluþyrpinga. Í dag er Messier 71 flokkuð sem mjög gisin kúluþyrping, svipað og Messier 68 í Vatnaskrímslinu.

Málmamagnið er með því mesta sem þekkist í kúluþyrpingum, aðeins Messier 69 er með hærra hlutfall.

Á himninum

Auðvelt er að finna þessa kúluþyrpingu. Hún er hálfa vegu milli stjarnanna Gamma og Delta í Örinni eins og sjá má á þessu korti af stjörnumerkinu. Sýndarbirtustig hennar er 6,1 svo hún sést með handsjónauka sem kúlulaga þokublettur sem dofnar til jaðranna. Meðalstóran stjörnusjónauka þarf til að greina sundur stjörnur í henni.

Um hálfri gráðu suð-suðvestur af Messier 71 er stór en dauf og gisin lausþyrping, Harvard 20. Birtustig hennar er +9,6 og inniheldur hún um 30 stjörnur.

Tengt efni

Heimildir

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2012). Messier 71. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/djupfyrirbaeri/messierskrain/messier-71 (sótt: DAGSETNING).