Messier 76

Litla Dymbilþokan í Perseifi

  • Messier 76, Litla Dymbilþokan, hringþoka
    Litla Dymbilþokan Messier 76. Mynd: Robert J. Vanderbei
Helstu upplýsingar
Tegund: Hringþoka
Stjörnulengd:
01klst 42,4mín
Stjörnubreidd:
+51° 34′ 31"
Fjarlægð:
2.500 ljósár
Sýndarbirtustig:
+10,1
Stjörnumerki: Perseifur
Önnur skráarnöfn:
NGC 650/651

Franski stjörnfræðingurinn Pierre Méchain uppgötvaði þokuna þann 5. september árið 1780. Méchain tilkynnti uppgötvunina til landa síns Charles Messier sem sá hana 21. október 1780 og bætti henni í skrá sína yfir þokukennd fyrirbæri sem líktust halastjörnum. Méchain taldi þokuna án stjarna en Messier var ósammála og taldi hana úr litlum og daufum stjörnum. Líklega hafa stjörnur í for- og bakgrunni platað hann þar.

Í kringum 1850 taldi Rosse lávarður sig sjá þyrilmynstur í þokunni þótt ekkert væri. Árið 1866 gerði William Huggins litrófsmælingar á þokunni sem sýndu að hún var úr gasi. Árið 1891 grunaði Isaac Roberts, frumherji í stjörnuljósmyndun, að hún líktist Hringþokunni í Hörpunni en að við sæjum hana á hlið. Það var svo ekki fyrr en árið 1918 sem Heber Curtist flokkaði hana sem tvípóla hringþoku.

Litla Dymbilþokan líkist mjög Dymbilþokunni (M27) í Litlarefi og dregur nafn sitt af því. William Herschel taldi upphaflega að um tvær aðskildar þokur væri að ræða og því ber hún tvö NGC skráarnúmer, 650 og 651.

Fjarlægðin til M76 er nokkuð á reiki eins og gjarnan er um hringþokur. Hún er þó áætluð í kringum 780 parsek eða 2.500 ljósár. Sé það rétt er hún rúmlega ljósár á breidd að meðaltali.

Heildarsýndarbirta M76 er +10,1 svo hún er eitt daufasta fyrirbærið í skrá Messiers. Meginhuti þokunnar er umlukinn daufum hjúpi sem varð líklega til þegar stjarnan varpaði frá sér stjörnuvindi á rauða risaskeiði sínu.

Í miðju þokunnar er stjarnan nú af 16. birtustigi. Hún er um 88.000°C heit og geislar frá sér orkuríku útfjólubláu ljósi sem þenur ytri lög þokunnar út og lýsir þau upp. Stjarnan er hægt og rólega að þróast í hvítan dverg sem mun kólna næstu tugi milljarða ára.

Í gegnum sjónauka

Dymbilþokan er dauf og í nágrenni hennar eru fáar bjartar stjörnur sem hægt er að nota til að miða hana út. Það getur því verið snúið að finna hana og nauðsynlegt að hafa gott stjörnukort við höndina (sjá stjörnukort af Perseifi). Hún sést sem daufur þokublettur í gegnum handsjónauka (t.d. 10x50) en lögunin sést best með stórum stjörnusjónauka (helst 8 tommur eða stærri) við góðar aðstæður. Í gegnum 14 tommu sjónauka sést grænleit slikja sem rekja má til tvíjónaðs súrefnis í þokunni sem gefur frá sér grænt ljós.

Tengt efni

Heimildir

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2012). Messier 76. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/djupfyrirbaeri/messierskrain/messier-76 (sótt: DAGSETNING).