Messier 90

Þyrilþoka í Meyjunni

  • Messier 90, þyrilþoka, Meyjan
    Þyrilþokan Messier 90 í Meyjunni. Mynd: NOAO/AURA/NSF
Helstu upplýsingar
Tegund: Þyrilþoka
 Gerð: SAB(rs)ab
Stjörnulengd:
12klst 36mín 49,8s
Stjörnubreidd:
+13° 09′ 46"
Fjarlægð:
60 milljón ljósár
Sjónstefnuhraði:
-235 ± 4 km/s
Sýndarbirtustig:
+10,3
Stjörnumerki: Meyjan
Önnur skráarnöfn:
NGC 4569

Franski stjörnufræðingurinn Charles Messier uppgötvaði þokuna 18. mars 1781. Sama kvöld skrásetti hann sjö önnur þokukennd fyrirbæri á sama svæði á himninum, allt vetrarbrautir í Meyjarþyrpingunni en líka kúluþyrpinguna Messier 92.

Messier 90 er í um 60 milljón ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún tilheyrir Meyjarþyrpingunni, safni rúmlega 1.300 vetrarbrauta og er með björtustu og stærstu þyrilþokum þyrpingarinnar.

Í litrófi Messier 90 sést blávik sem þýðir að hún stefnir í átt að okkur á rúmlega 200 km hraða á sekúndu. Ástæðan er sú að hún er að falla inn að miðju Meyjarþyrpingarinnar. Á ferðalagi sínu ferðast M90 í gegnum heitt en dreift gas í þyrpingunni. Þannig verður til þrýstingur sem rænir vetrarbrautina gasi. Þetta sést ágætlega í þéttöfnum, björtum og sléttum þyrilörmum vetrarbrautarinnar sem virðast ekki framleiða stjörnur lengur. Undantekningin er svæði innarlega í skífunni, nálægt dökkum rykslæðum.

Á himninum

Einfaldasta leiðin til að finna Messier 90 er að byrja á að finna Messier 84 og Messier 86. Það er best að gera með hjálp stjörnukorts af Meyjunni en vetrarbrautirnar eru um það bil hálfa vegu milli stjarnanna Epsilon í Meyjunni og Beta í Ljóninu. Þegar þær eru fundnar skaltu færa sjónaukann örlítið í austurátt og ætti þá þokan að vera í augnsýn. Notaðu eins litla stækkun og mögulegt er svo sjónsvið sjónaukans sé sem breiðast. Þokan er dauf og með mjög jafna birtu. Hún sést best í gegnum meðalstóra og stóra stjörnusjónauka við góðar aðstæður en fá smáatriði eru sýnileg.

Tengt efni

Heimildir

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2012). Messier 90. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/djupfyrirbaeri/messierskrain/messier-90 (sótt: DAGSETNING).