Að skoða Satúrnus

  • Satúrnus 15. mars 2004. Mynd: Björn Jónsson
    Satúrnus 15. mars 2004. Mynd: Björn Jónsson

Mynd 1 sýnir helstu skýjabelti og hringa Satúrnusar. NMB og SMB sjást alltaf. Milli þeirra er MS og þar sjást stundum bjartir og stórir stormar.

NPS og SPS eru sömuleiðis alltaf sýnileg og eru dekkri en svæðin nær miðbaug. Erfiðara er að sjá önnur skýjabelti. Með öflugum sjónauka er hægt að fylgjast með breytingum á breidd, lit og birtu skýjabeltanna því þau eru breytileg líkt og á Júpíter. Hins vegar þarf mun öflugri sjónauka til að fylgjast með Satúrnusi en Júpíter, bæði vegna daufari skýjabelta og eins vegna meiri fjarlægðar frá jörðu. Stundum sjást sporöskjulaga blettir á Satúrnusi eins og á Júpíter, en til að sjá þá þarf einnig öflugan sjónauka.

hringar Satúrnusar, skýjabelti, Satúrnus í sjónauka
Mynd 1. Helstu skýjabelti og hringar Satúrnusar. Nákvæm breidd skýjabeltanna er ekki sýnd enda breytileg. Skýjabeltin eru þar að auki mun daufari en skýjabelti Júpíters og því erfiðara að sjá þau. Norður snýr upp. Mynd: Björn Jónsson og Stjörnufræðivefurinn.

NPS, SPS, NMB og SMB sjást auðveldlega í 15 cm sjónauka en í 6 cm sjónauka er fátt að sjá. Þó má greina NPS/SPS og e.t.v. NMB/SMB við mjög góð skilyrði.

Hringar Satúrnusar

Af hringunum eru A og B breiðir og bjartir og milli þeirra er Cassini-bilið, sem sést í 6 cm sjónauka við sæmileg skilyrði, en alltaf í 15 cm sjónauka. C-hringurinn er efnisminni en A- og B-hringar og til að sjá hann þarf nokkuð öflugan sjónauka. Reyndar er nokkuð auðvelt að sjá C-hringinn því hann er framan við Satúrnus en á svörtum bakgrunni er erfiðar að sjá hann. Með 15 cm sjónaukanum mínum hef ég náð að greina hann á svörtum bakgrunni, en hann sést ekki í 6 cm sjónauka.

Encke-skarðið sést einungis í stórum sjónaukum við góð skilyrði. Í minni sjónaukum við góð skilyrði má stundum greina birtulágmark (við sérlega góð skilyrði mjög mjótt) í hringunum þar sem Encke-skarðið er, en skarðið sjálft er of mjótt til að sjást.

Eitt það athyglisverðasta við hringana er hvað birta þeirra eykst mikið um það leyti sem Satúrnus er í gagnstöðu. Þá eru þeir 20-25% bjartari en fáeinum mánuðum fyrir og eftir gagnstöðu. Þetta er auðveldast að sjá með því að bera birtu hringanna saman við birtu Satúrnusar. Í gagnstöðu eru hringarnir ljósir og bjartari en Satúrnus en fáeinum mánuðum fyrir eða eftir getur reikistjarnan sjálf orðið bjartari.

Einnig er athyglisvert að yfirborðsbirta hringanna breytist mjög lítið frá jörðu séð þó hallinn breytist

Síur og myndatökur

Satúrnus 15. mars 2004. Mynd: Björn Jónsson
Þessi mynd var tekin í mars 2004 með 15 cm Intes MN61 sjónauka, Philips ToUcam Pro 840K vefmyndavél og Tele Vue Powermate 5x til að ná f/30 brennihlutfalli. Norður snýr upp. Mynd: Björn Jónsson

Gagnlegt er að nota síur þegar Satúrnus er skoðaður líkt og Júpíter. Mörk dökkra og ljósra belta sjást t.d. betur ef ljósblá sía (Wratten 80A eða 82A) er notuð, án þess að deyfa of mikið það sem sést. Appelsínugul eða ljósrauð sía (Wratten 21 eða 23A) dekkir pólsvæðin.

Sömu aðferðir henta til að taka myndir af Satúrnusi og við myndatöku af Júpíter en erfiðara er að ná góðum myndum. Myndvinnslan í kjölfarið er hins vegar öðruvísi en svo virðist sem það borgi sig ekki að skerpa myndirnar jafn mikið og þegar um myndir af Júpíter er að ræða.

Myndin hér til hliðar sýnir Satúrnus við sæmilegar aðstæður í mars 2004.

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Björn Jónsson (2004). Að skoða Satúrnus. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/stjornuskodun/solkerfid-large/saturnus