Andrómeda

  • stjörnukort, stjörnumerki, Andrómeda
    Kort af stjörnumerkinu Andrómedu
Helstu upplýsingar
Latneskt heiti:
Andromeda
Bjartasta stjarna: Alpheratz
Bayer / Flamsteed stjörnur:
65
Stjörnur bjartari +3,00:
3
Nálægasta stjarna:
Ross 248
(10,3 ljósár)
Messier fyrirbæri:
3
Loftsteinadrífur:
Andrómedítar
Sést frá Íslandi:

Andrómeda er nokkurn veginn mitt á milli norðurpóls og miðbaugs himins. Hún sést því að kvöldlagi frá Íslandi allan veturinn, eða frá september og fram í mars. Hún er í suðri um klukkan tíu að kvöldi í nóvember.

Einfaldast er að finna Andrómedu með því að finna fyrst Kassíópeiu (í laginu eins og „W“ á himninum). Björtustu stjörnurnar í Andrómedu mynda bjarta bogalínu fyrir neðan Kassíópeiu. Neðst stjarnan í Andrómedu myndar líka efra hægra horni í Pegasusar ferhyrningnum.

Uppruni

Andrómeda var hin íðilfagra dóttir Sefeusar konungs af Eþíópíu og Kassíópeiu drottningar. Kassíópeia var drambsöm og stærði sig af fegurð sinni. Í sjálfumgleði sinni kvaðst hún meira að segja fegurri en sjávardísirnar. Við slíka fosynju gátu dísirnar ekki fellt sig og báðu sjávarguðinn Póseidon að veita henni rækilega ráðningu.

Póseidon varð við óskinni og sendi skelfilegt skrímsli til að herja á strendur ríkidæmis Sefeusar. Sefeus vissi ekki sitt rjúkandi ráð og bað Ammon véfréttina um aðstoð. Hún sagði honum að eina leiðin til að friðþægja skrímslið væri að færa því dóttur sína að fórn.

Blásaklaus var Andrómeda hlekkjuð við klifið við strendur Jaffa, þar sem nú er Tel Aviv, til að bæta fyrir misgjörðir móður sinnar. Andrómeda stóð náföl af skelfingu og grét örlög sín, þegar hetjan Perseifur kom aðvífandi. Hann hafði þá nýhoggið höfuðið af Gorgónanum Medúsu.

stjörnumerki, stjörnuhiminn, Andrómeda
Stjörnumerkið Andrómeda og nágrenni. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum

Skrímslið var um það bil að gæða sér á Andrómedu þegar Perseifur stökk á bak þess og stakk með sverði sínu. Skrímslið drapst og Andrómeda var hólpin. Perseifur bað um hönd hennar og bar honum síðar sjö börn, sex syni og eina dóttur.

Sagt er að gyðjan Aþena hafi sett mynd af Andrómedu meðal stjarnanna eftir að Andrómeda dó til að heiðra minningu hennar. Á himninum stendur hún hlekkjuð milli Perseifs og móður sinnar Kassíópeiu. Stjörnumerkið Fiskarnir skilja hana frá sjávarskrímslinu, stjörnumerkinu Hvalnum.

Stjörnur

Í Andrómedu eru aðeins þrjár stjörnur bjartari en birtustig 3.

  • α Andromedae eða Alpheratz og Sirrah er bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Andrómedu (birtustig 2,07). Hún er tvístirni í um 97 ljósára fjarlægð sem samanstendur af undirmálsstjörnu af gerðinni B8 (sem er að þróast yfir í risastjörnu) og meginraðarstjörnu af gerðinni A3. Báðar eru töluvert stærri og bjartari en sólin okkar. Alpheratz er í höfði Andrómedu en er líka í vinstra, efra horni (norðausturhorni) Pegasusar ferhyrningsins. Af þeim sökum skráði Jóhann Bayer hana sem bæði Alfa Andromedae og Delta Pegasi og tilheyrði hún lengi vel báðum stjörnumerkjum. Nöfn stjörnunnar, Alpheratz og Sirrah, merkja „nafli hestsins“ og vísa til staðsetningar stjörnunnar Pegasusi.

  • β Andromedae eða Mirach er næst bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Andrómedu (birtustig 2,07). Hún er rauð risastjarna af gerðinni M0, rúmlega þrisvar sinnum massameiri en sólin, 100 sinnum breiðari og næstum 2000 sinnum bjartari. Nafn stjörnunnar merkir „belti“ og vísar til staðsetningar hennar í merkinu. Mirach er í um 197 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Skammt frá henni er linsulaga vetrarbrautin NGC 404 sem stundum er kölluð Draugur Mirachs.

  • γ Andromedae eða Almach er þriðja bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Andrómedu (birtustig 2,10). Almach er eitt fegursta tvístirni himins. Í gegnum sjónauka sést björt gulleit stjarna (Gamma1 Andromedae) við hlið daufari bláleitrar stjörnu (Gamma2 Andromedae) svo litamunurinn er töluverður. Gamma1 Andromedae er appelsínugul risastjarna af gerðinni K3, um 80 sinnum breiðari en sólin og 2.000 sinnum bjartari. Gamma2 Andromedae er sjálf þrístirni, kerfi tveggja þéttra og heitra meginraðarstjarna af gerðinni B9,5 með rúmlega tveggja daga umferðartíma en þriðja stjarnan er meginraðarstjarna af gerðinni A0 sem snýst um þéttara tvíeykið á 64 árum. Almach er í fæti Andrómedu í 350 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

  • δ Andromedae er fjórða bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Andrómedu (birtustig 3,27). Hún er litrófstvístirni sem samanstendur af appelsínugulri risastjörnu af gerðinni K3 en förunauturinn er líklega rauður dvergur af gerðinni M3. Umferðartími þeirra er um 41 ár. Delta Andromedae er í um 105 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

  • 51 Andromedae er fimmta bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Andrómedu (birtustig 3,59). Hún er appelsínugul risastjarna af gerðinni K3 í um 177 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Stjarnan hefur ekki grískan bókstaf því Jóhann Bayer sagði hana hluta af Perseifi og merkti hana sem Upsilon Persei. John Flamsteed færði hana aftur í Andrómedu og fékk hún þá númerið 51 Andromedae.

  • Ómíkron Andromedae er sjötta bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Andrómedu (birtustig 3,62). Hún er fjórstirni, þ.e. kerfi tveggja tvístirna, í um 690 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

  • λ Andromedae er sjöunda bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Andrómedu (birtustig 3,82). Hún er litrófstvístirni í um 86 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Kerfið samanstendur af undirmáls- eða risastjörnur af gerðinni G8 sem er álíka massamikil og sólin en sjö sinnum breiðari og 23 sinnum bjartari. Þar sem um litrófstvístirni er að ræða er erfitt að henda reiður á fylgistjörnuna. Þær snúast um sameiginlega massamiðju á rúmum tuttugu dögum.

  • μ Andromedae er áttunda bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Andrómedu (birtustig 3,87). Hún er meginraðarstjarna af gerðinni A5, um tvisvar sinnum massameiri en sólin, rúmlega tvisvar sinnum breiðari og tuttugu sinnum bjartari. Á himninum er stjarnan miðja vegu milli björtu stjörnunnar Mirach í suðvestri og Andrómeduvetrarbrautarinnar í norðaustri. Mu Andromedae er í 130 ljósára fjarlægð.

  • ζ Andromedae er níunda bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Andrómedu (birtustig 3,92). Hún er myrkva-litrófstvístirni, þ.e. tvær stjörnur sem ganga fyrir hvor aðra en eru svo nálægt hvor annarri að ekki er hægt að skilja þær í sundur í gegnum sjónauka nema með litrófsgreiningu. Bjartari stjarnan er risastjarna af gerðinni K1 en lítið er vitað um fylgistjörnuna. Þær snúast um sameiginlega massamiðju á tæpum 18 dögum. Zeta Andromedae er í 180 ljósára fjarlægð.

  • υ Andromedae er tíunda bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Andrómedu (birtustig 3,82). Hún er tvístirni sem samanstendur af gulhvítri meginraðarstjörnu af gerðinni F8 og rauðum dverg af gerðinni M4,5. Fundist hafa fjórar reikistjörnur á sveimi í þessu kerfi, allt gasrisar stærri en Júpíter. Upsilon Andromedae er í um 44 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

  • ξ Andromedae er tvístirni í um 214 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Andrómedu (birtustig 4,90). Bjartari stjarnan í kerfinu er rauðleit risastjarna af gerðinni K0.

  • Ross 248 er rauður dvergur af gerðinni M6 í stjörnumerkinu Andrómedu (birtustig 12,3). Hún er ein nálægasta fastastjarnan við sólkerfið okkar í aðeins 10,3 ljósára fjarlægð. Þrátt fyrir það sést hún ekki með berum augum enda lítil og dauf: Aðeins12% af massa sólar, 16% af breiddinni og einungis 0,2% af birtunni. Stjarnan var fyrst skráð af Frank Elmore Ross árið 1926.

Djúpfyrirbæri

Stjörnumerkið Andrómeda er tiltölulega langt frá fleti vetrarbrautarinnar og inniheldur því ekki ýkja margar lausþyrpingar og bjartar þokur. Þar er þó að finna margar fjarlægar vetrarbrautir.

  • Messier 31 eða Andrómeduvetrarbrautin er frægasta djúpfyrirbærið í stjörnumerkinu Andrómedu. Hún er þyrilvetrarbraut í um 2,2 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni og dregur nafn sitt af stjörnumerkinu. Andrómeduvetrarbrautin er eitt fjarlægasta fyrirbæri sem sjá má með berum augum en á dimmri, heiðskírri nóttu, langt frá ljósmenguðum svæðum, sést hún sem daufur þokublettur. M31 er nálægasta stóra vetrarbrautin við vetrarbrautina okkar og stærsta vetrarbrautin í Grenndarhópnum. Hún er 200.000 ljósár í þvermál, tvöfalt stærri en vetrarbrautin okkar og inniheldur sömuleiðis fleiri stjörnur. Eftir um fimm milljarða ára munu Andrómeduvetrarbrautin og vetrarbrautin okkar rekast saman og sameinast að lokum í eina stóra vetrarbraut. Þegar það gerist verður stjörnumyndunarhrina í báðum vetrarbrautum.

    Andrómeduvetrarbrautin hefur 15 fylgivetrarbrautir. Messier 32 og Messier 110 eru þeirra stærstar og bjartastar. M32 er dvergsporvöluvetrarbraut sem sést auðveldlega með stjörnusjónaukum, tæplega hálfri gráðu suður af kjarna Andrómeduvetrarbrautarinnar. Hún fannst árið 1749 og er í raun nær okkur en Andrómeduvetrarbrautin sjálf. M110 er einnig dvergsporvöluvetrarbraut, örlítið lengra frá okkur en Andrómeduvetrarbrautin. Hún er mun daufari en M32 en sést samt vel í gegnum litla stjörnusjónauka.

  • NGC 404 er linsulaga vetrarbraut í um 10 milljóna ljósára fjarlægð. Hún er skammt frá stjörnunni Mirach svo erfitt getur reynst að koma auga á hana fyrir glýjunni frá stjörnunni. Þess vegna er hún oft kölluð „Draugur Mirachs“. Vetrarbrautin er rétt fyrir utan Grenndarhópinn sem við tilheyrum.

  • NGC 752 er stór en gisin lausþyrping í um 1.300 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Í gegnum sjónauka sjást um sextíu stjörnur af 9. birtustigi auk tólf bjartari stjarna.

  • NGC 891 er þyrilvetrarbraut á rönd í um 30 milljóna ljósára fjarlægð. Hún er um 100.000 ljósár að þvermáli og sést í litlum og meðalstórum sjónaukum sem dauf ílöng lína. Í stærri sjónaukum sést rykslæða sem liggur í gegnum hana. NGC 891 er að finna skammt vestan við stjörnuna Almach.

  • NGC 7662 eða Blái snjóboltinn er áberandi hringþoka í um 4.000 ljósára fjarlægð. Hana er að finna þrjár gráður suðvestur af stjörnunni Jóta í Andrómedu. Þótt hún sé fremur dauf sést hún sem blá-grænn, kúlulaga þokublettur í gegnum litla stjörnusjónauka.

  • NGC 7686 er lausþyrping í um 900 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún inniheldur um 40 stjörnur og sést best í gegnum handsjónauka og litla stjörnusjónauka.

Loftsteinadrífur

Andrómedítar er minniháttar loftsteinadrífa sem stendur yfir frá 25. september til 6. desember. Drífan er í hámarki í kringum 14. nóvember og sjást þá um þrír loftsteinar á klukkustund. Andrómedítar eru frægir fyrir miklar loftsteinahríðir sem urðu 27. nóvember árin 1872 og 1885 þegar sáust nokkur þúsund loftsteinar á klukkustund. Drífuna má rekja til halastjörnunnar 3D/Biela sem sundraðist, fyrst í tveinnt árið 1846 og síðar að öllu leyti sem olli drífunum miklu.

Stjörnukort

Stjörnukort af Andrómedu í prentvænni útgáfu er að finna hér.

Heimildir

  1. Ian Ridpath's Star Tales - Andromeda

  2. http://en.wikipedia.org/wiki/Andromeda_(constellation)

  3. http://meteorshowersonline.com/showers/andromedids.html