Bereníkuhaddur

  • stjörnukort, stjörnumerki, Bereníkuhaddur
    Kort af stjörnumerkinu Bereníkuhaddi
Helstu upplýsingar
Latneskt heiti:
Coma Berenices
Bjartasta stjarna: β Comae Berenices
Bayer / Flamsteed stjörnur:
44
Stjörnur bjartari +3,00:
0
Nálægasta stjarna:
β Comae Berenices
(30 ljósár)
Messier fyrirbæri:
8
Loftsteinadrífur:
Coma Bereníkítar
Sést frá Íslandi:

Uppruni

Milli stjörnumerkjanna Hjarðmannsins og Ljónsins er stjörnusvermur sem menn hafa þekkt frá alda öðli. Í Almagest, riti gríska stjörnufræðingsins Ptólmæosar frá 2. öld e.Kr. er þessi svermur ekki talinn sérstakt stjörnumerki heldur hluti af Ljóninu. Svermurinn var fyrst sýndur sem stjörnumerki árið 1536 á hnattlíkani þýska stærðfræðingsins og kortagerðarmannsins Caspar Vopel. Árið 1602 tryggði danski stjörnufræðingurinn Tycho Brahe merkinu ævarandi sess þegar hann birti það á áhrifamiklu stjörnukorti sínu.

Bereníkuhaddur er eina stjörnumerkið sem nefnt er eftir raunverulegri manneskju. Bereníka II var drottning í Egyptalandi, eiginkona Ptólmæosar III Egyptalandskonungs sem ríkti árin 246 til 221 f.Kr. Undir stjórn hans varð Alexandría mikilvæg menningarmiðstöð.

Árið 243 f.Kr. geysaði þriðja Sýrlandsstríðið. Selevkídar höfðu myrt systur konungsins og hugðist hann hefna hennar. Hann og Bereníka voru nýgift en þegar konungurinn hélt af stað, sór hún þess eið við gyðjuna Afródítu að hún skildi fórna löngu, ljósu hári sínu, sem hún mat mikils, ef eiginmaður hennar sneri heim aftur heill á húfi. Þegar hann svo það gerði, klippti hún af sér hárið og lagði við hof gyðjunnar. Daginn eftir var hárið horfið. Konungurinn reiddist og til að friða hann sagði hirðstjörnufræðingurinn Conon frá Samos að Afródíta hefði orðið svo ánægð með fórnina, að hún kom hárinu fyrir á himninum. Conon benti honum á stjörnusverminn sem síðan hefur verið kallaður hár Bereníku eða Bereníkuhaddur.

Stjörnur

stjörnumerki, stjörnuhiminn, Bereníkuhaddur
Stjörnumerkið Bereníkuhaddur og nágrenni. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum

Stjörnur Bereníkuhadds eru allar fremur daufar. Björtustu stjörnurnar eru af fjórða birtustigi.

  • β Comae Berenices er bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Bereníkuhaddi (birtustig 4,3). Hún er gulhvít meginraðarstjarna af gerðinni G0, mjög sambærileg sólinni okkar en er 15% massameiri, 10% breiðari, 36% bjartari og álíka heit. Stjarnan er aðeins yngri en sólin eða um 3 milljarða ára. Beta Comae Berenices er í aðeins 30 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

  • α Comae Berenices er næst bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Bereníkuhaddi (birtustig 4,3). Hún er tvístirni í um 63 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Bilið milli stjarnanna er hér um bil 10 stjarnfræðieiningar, eða sem samsvarar nokkurn veginn fjarlægðinni milli sólar og Satúrnusar og er umferðartíminn næstum 26 ár. Báðar stjörnunar eru álíka bjartar meginraðarstjörnur af gerðinni F5.

  • γ Comae Berenices er þriðja bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Bereníkuhaddi (birtustig 4,4). Hún er appelsínugul risastjarna af K1 gerð, tíu sinnum breiðari en sólin, í um 170 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

Djúpfyrirbæri

Nálin, NGC 4565, Bereníkuhaddur, þyrilvetrarbraut
NGC 4565 eða Nálin er þyrilvetrarbraut á rönd í Bereníkuhaddi. Mynd: NASA/ESA-Hubble

Þótt Bereníkuhaddur sé fremur lítið stjörnumerki geymir það fjölmörg djúpfyrirbæri, aðallega vetrarbrautir enda er norðurhluti Meyjarþyrpingarinnar í merkinu sem og sjálf Haddþyrpingin. Í merkinu eru átta Messierfyrirbæri, ein kúluþyrping og sjö vetrarbrautir.

  • Messier 53 er kúluþyrping í um 58.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Best er að skoða þyrpinguna við miðlungs- eða mikla stækkun.

  • Messier 64 eða Glóðaraugað er þyrilvetrarbraut í um 17 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni. Í henni er áberandi rykslæða fyrir framan bjartan kjarnann svo minnir á glóðarauga. Af vetrarbrautum Bereníkuhadds er auðveldast að skoða M64 en hún nýtur sín best í gegnum meðalstóra og stóra stjörnusjónauka.

  • Messier 85 er linsulaga vetrarbraut í um 60 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni. Í gegnum meðalstóra og stóra áhugamannasjónauka sést bjartur hringlaga kjarni sem dofnar til jaðranna. Hún tilheyrir Meyjarþyrpingunni.

  • Messier 88 er þyrilvetrarbraut í um 60 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni. M88 sést best í gegnum meðalstóra og stóra sjónauka, þá sem daufur hringlaga móðublettur með bjartan kjarna. Hún tilheyrir Meyjarþyrpingunni.

  • Messier 91 er bjálkaþyrilvetrarbraut í um 60 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni. M91 er ein daufasta vetrarbrautin í Messierskránni og sést best í stórum áhugamannasjónaukum. Hún tilheyrir Meyjarþyrpingunni.

  • Messier 98 er þyrilvetrarbraut í um 60 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er eitt erfiðasta fyrirbæri Messierskrárinnar að skoða enda dauf og á rönd. Í gegnum meðalstóra og stóra áhugamannasjónauka sést daufur og mjór þokublettur.

  • Messier 99 er þyrilvetrarbraut í um 50 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni. Í gegnum litla sjónauka sést lítil hringlaga þoka en þyrilarmarnir sjást í meðalstórum og stórum sjónaukum við góðar aðstæður. M99 tilheyrir Meyjarþyrpingunni.

  • Messier 100 er þyrilvetrarbraut í um 50 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni. Birtustig hennar er 10,1 svo hún sést með handsjónaukum en nýtur sín best í gegnum stjörnusjónauka. M100 tilheyrir Meyjarþyrpingunni.

  • NGC 4314 er bjálkaþyrilvetrarbraut í um 40 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni. Í henni er óvenjulegur stjörnumyndunarhringur.

  • NGC 4414 er þyrilvetrarbraut í um 62 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni

  • NGC 4565 eða Nálin er þyrilvetrarbraut á rönd í 30 til 50 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni.

  • Haddþyrpingin (e. Coma Cluster) eða Abell 1656 er þyrping meira en 1000 vetrarbrauta í að meðaltali 320 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni, sem dregur nafn sitt af stjörnumerkinu Bereníkuhaddi. Tíu björtustu þyrilvetrarbrautir þyrpingarinnar eru af birtustigi 12 til 14 og sjást því best með meðalstórum og stórum áhugamannasjónaukum.

  • NGC 4676 eða Mýsnar eru gagnvirkar þyrilvetrarbrautir í um 300 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni.

  • Melotte 111 er stór og gisin lausþyrping stjarna frá 5. til 10. birtustigi í um 270 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Þyrpingin nær yfir meira en 5 gráður á himninum, skammt frá stjörnunni Gamma Comae Berenices sem skýrir hvers vegna hana er hvorki að finna í Messierskránni né NGC-skránni.

Loftsteinadrífur

Coma Bereníkítar er minniháttar loftsteinadrífa sem sést milli 8. desember og 23. janúar. Þeir eru í hámarki milli 20. og 29. desember og sjást þá að meðaltali tveir loftsteinar á klukkustund.

Stjörnukort

Stjörnukort af Bereníkuhaddi í prentvænni útgáfu er að finna hér.

Heimildir

  1. Ian Ridpath's Star Tales - Coma Berenices: Berenice's hair

  2. http://en.wikipedia.org/wiki/Coma_Berenices 

  3. Jim Kaler's Stars

  4. http://meteorshowersonline.com/showers/coma_berenicids.html

  5. What's Up Coma Berenices

  6. What's Up Coma Berenices (2)