Drekinn

  • stjörnukort, stjörnumerki, Drekinn
    Kort af stjörnumerkinu Drekanum
Helstu upplýsingar
Latneskt heiti:
Draco
Bjartasta stjarna: γ Draconis
Bayer / Flamsteed stjörnur:
76
Stjörnur bjartari +3,00:
3
Nálægasta stjarna:
Struve 2398
(11,5 ljósár)
Messier fyrirbæri:
1
Loftsteinadrífur:
Drakonítar
Sést frá Íslandi:

Uppruni

Sagan segir að stjörnumerkið Drekinn sé sá dreki sem Herkúles drap í einni af þrautum sínum. Á himninum er Herkúles enda sýndur með annan fótinn ofan á höfði drekans. Þessi dreki var kallaður Ladon og gætti gulleplatrés fyrir Heru, konu Seifs.

Hera hafði fengið gulleplatréð að gjöf þegar hún gekk að eiga Seif. Svo ánægð var hún með gjöfina að hún plantaði trénu í garð sinn í hliðum Atlasfjalls og bað Vesturdísirnar, hinar fögru dísir sólarlagsins og dætur Atlasar, að gæta þess. Dísirnar reyndust ekki starfi sínu vaxnar og stálust til að taka gullepli af trénu. Hera brá á það ráð að festa drekann Ladon við tréð til að hrekja þá burt sem freistuðu gulleplanna.

Í einni af þrautum sínum var hetjunni Herkúlesi gert að stela eplum að trénu. Herkúles laust eiturörvum í drekann og drap hann. Hera kom svo drekanum fyrir á himininn.

Stjörnur

stjörnumerki, stjörnuhiminn, Drekinn
Stjörnumerkið Drekinn og nágrenni. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum

Löng röð fremur daufra stjarna mynda stjörnumerkið Drekann. Þótt merkið sé hið áttunda stærsta á himninum er það ekkert sérstaklega áberandi. Í merkinu eru þrjár stjörnur bjartari en birtustig +3 og 79 bjartari en birtustig +5,5. Bjartasta stjarnan er Gamma Draconis eða Eltanin (birtustig 2,2).

  • α Draconis eða Thuban (höfuðið) er með daufari stjörnum drekans en ber samt bókstafinn alfa vegna staðsetningar sinnar í höfði drekans. Hún er risastjarna af A-gerð í um 310 ljósára fjarlægð frá jörðinni, næstum 10.000°C heit og 300 sinnum bjartari en sólin. Á tímum Fornegypta var Thuban pólstjarna og verður það aftur eftir um 20.000 ár.

  • β Draconis eða Rastaban er gul risastjarna af G-gerð í um 360 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er 950 sinnum bjartari en sólin en örlítið kaldari, um 5.000°C. Rastaban er sennilega 40 sinnum breiðari en sólin og hefur lítinn, kaldari förunaut sem er í 450 stjarnfræðieininga fjarlægð frá henni og er um 4.000 ár að ljúka einni umferð.

  • γ Draconis eða Eltanin er kaldur (um 4000°C), appelsínugulur K5-risi í um 148 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er 600 sinnum bjartari en sólin, 50 sinnum breiðari og tæplega tvisvar sinnum massameiri. Eftir eina og hálfa milljón ára verður hún í aðeins 28 ljósára fjarlægð frá okkur og þá sennilega bjartasta stjarna næturhiminsins.

  • δ Draconis eða Altais er risastjarna af G-gerð (birtustig +3) í um 100 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er 63 sinnum bjartari en sólin okkar, 11 sinnum breiðari og rúmlega tvisvar sinnum massameiri.

  • ζ Draconis eða Al Dhibain Posterior er risastjarna af B-gerð í um 340 ljósára fjarlægð. Hún er um 12.000 gráðu heit og skín meira en 1000 sinnum skærar en sólin. Stjarnan næstum sjö sinnum breiðari en sólin og um fimm sinnum massameiri. Nafn hennar merkir seinni hýenan.

  • η Draconis eða Al Dhibain Prior er gulur risi af G8-gerð í um 88 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er örlítið kaldari en sólin en 60 sinnum bjartari og tíu sinnum breiðari. Nafn hennar merki fyrri hýenan. Hún er tvístirni og er mikill birtu- og litamunur á tvíeykinu því hin stjarnan er blá.

  • θ Draconis er risastjarna af F-gerð í um 68 ljósára fjarlægð. Hún er ekki svo ólík sólinni, um níu sinnum bjartari, nokkur hundruð gráðum heitari og ríflega tvisvar sinnum breiðari.

  • ε Draconis er gul risastjarna af gerðinni G8 í um 148 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Drekanum (birtustig 3,99). Hún er tíu sinnum breiðari en sólin, 2,7 sinnum massameiri og um 60 sinnum bjartari. Í gegnum sjónauka sést að hún er tvístirni en fylgistjarnan er appelsínugul stjarna á meginröð af gerðinni K5 sem er um 130 stjarnfræðieiningar í burtu. Epsilon Draconis ber einnig nafnið Tyl.

  • σ Draconis er stjarna á meginröð af gerðinni G9 í um 19 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Drekanum (birtustig 4,67). Hún er örlítið minni en sólin og rúmlega helmingi daufari. Sigma Draconis ber einnig nafni Alsafi.

  • λ Draconis er rauð risastjarna af gerðinni M0 í um 334 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Drekanum. Hún gengur einnig undir nöfnunum Gianfar eða Juza.

  • ι Draconis er appelsínugul risastjarna í 103 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu drekanum (birtustig 3,31). Hún ber einnig nafnið Edasich.

  • ν Draconis eða Kuma er daufasta stjarnan í höfði stjörnumerkisins Drekans. Hún er tvístirni eins og sjá má í gegnum handsjónauka. Báðar stjörnurnar eru af fimmta birtustigi en samanlögð sýndarbirta þeirra er 4,13. Báðar eru hvítar meginraðarstjörnur af gerðinni A, heitari, stærri, massameiri og bjartari en sólin okkar. Stjörnurnar snúast umhverfis sameiginlega massamiðju á 44.000 árum.

  • Psí Draconis er tvístirni í stjörnumerkinu Drekanum sem gengur einnig undir nafninu Dziban sem þýðir „úlfarnir tveir“.

  • Xí Draconis er appelsínugul risastjarna af gerðinni K2 í um 113 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Drekanum (birtustig 3,75). Stjarnan gengur einnig undir nafninu Grumium.

Djúpfyrirbæri

NGC 6543, kattaraugað, hringþoka
Kattaraugað er hringþoka í Drekanum. Mynd: NASA/ESA/CXC

Í Drekanum eru nokkur áhugaverð djúpfyrirbæri.

  • Messier 102 er linsulaga vetrarbraut. Hún er um það bil þrjár gráður suðvestur frá Jóta í Drekanum í átt að stjörnunni Eta í Stórabirni (Alkaid) eða Þeta í Hjarðmanninum. Stjarna af birtustigi +5,21 er nálægt í suðri. Vetrarbrautin er sýnileg í gegnum fjögurra tommu sjónauka en stærri sjónauka þarf til að greina smáatriði eins og rykslæðuna eða kornótta áferð ytri hluta þokunnar.

  • Kattaraugað (NGC 6543) er hringþoka í um 3.000 ljósára fjarlægð. Í gegnum stjörnusjónauka sést að þokan er fallega blágræn að lit.

  • NGC 4125 er sporvöluvetrarbraut, fremur dauf að sjá í gegnum áhugamannasjónauka.

  • NGC 6503 er þyrilvetrarbraut í um 17 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni.

  • Arp 188 eða Halakartan er bjöguð bjálkaþyrilvetrarbraut í um 400 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni. Frá henni liggur næstum 300 þúsund ljósára langur hali úr stórum og björtum, bláum stjörnuþyrpingum.

Abell 2218, vetrarbrautaþyrping, þyngdarlinsur
Vetrarbrautaþyrpingin Abell 2218 og þyngdarlinsur (bogarnir á myndinni) fjarlægari vetrarbrauta. Mynd: NASA/ESA

Í Drekanum er vetrarbrautaþyrpingin Abell 2218 sem er í um 2,1 milljarða ljósára fjarlægð. Hún verkar sem þyngdarlinsa fyrir fjarlægari vetrarbrautir en er of dauf til að sjást í gegnum litla áhugamannasjónauka.

Loftsteinadrífur

Loftsteinadrífan Drakonítar draga nafn sitt af stjörnumerkinu Drekanum. Drífan er sýnileg snemma í október og er í hámarki í kringum 9. þess mánaðar. Rekja má loftsteinana til halastjörnunnar 21P/Giacobini-Zinner. Þegar best lætur, þá sjaldan að það gerist, ferðast jörðin í gegnum þéttasta hluta agnaslóðarinnar og geta þá sést yfir 1000 loftsteinar á klukkustund. Það gerðist árin 1933 og 1946 og svo aftur árið 2011.

Stjörnukort

Stjörnukort af Drekanum í prentvænni útgáfu má nálgast hér.

Heimildir

  1. Ian Ridpath's Star Tales - Draco the Dragon

  2. http://en.wikipedia.org/wiki/Draco_(constellation) 

  3. http://en.wikipedia.org/wiki/Draconids

  4. http://stars.astro.illinois.edu/sow/thuban.html

  5. http://stars.astro.illinois.edu/sow/rastaban.html

  6. http://stars.astro.illinois.edu/sow/eltanin.html

  7. http://stars.astro.illinois.edu/sow/altais.html

  8. http://stars.astro.illinois.edu/sow/aldhibpost.html

  9. http://stars.astro.illinois.edu/sow/thetadra.html

  10. Lenses galore — Hubble finds large sample of very distant galaxies