Meyjan

Mærin

  • stjörnukort, stjörnumerki, Meyjan
    Kort af stjörnumerkinu Meyjunni
Helstu upplýsingar
Latneskt heiti:
Virgo
Bjartasta stjarna: Spíka
Bayer / Flamsteed stjörnur:
96
Stjörnur bjartari +3,00:
3
Nálægasta stjarna:
Ross 128
(11 ljósár)
Messier fyrirbæri:
11
Loftsteinadrífur:
Virginítar
Sést frá Íslandi:

Sólin gengur leið sína eftir sólbaugnum um Meyjuna og telst hún því eitt af stjörnumerkjum dýrahringsins. Sólin er innan marka Meyjunnar frá 16. september til 30. október (en ekki frá 23. ágúst til 23. september eins og segir í stjörnuspám).

Tunglið og reikistjörnurnar fara aldrei langt frá sólbaugnum og sjást því stundum í Meyjunni.

Meyjan er næst stærsta stjörnumerkið á eftir Vatnaskrímslinu. Hún liggur umhverfis miðbaug himins en auðveldast er að finna hana með því að draga bogalínu í framhaldi af handfangi Karlsvagnsins. Hún lendir á Arktúrusi í Hjarðmanninum og liggur síðan niður að Spíku í Meyjunni.

Meyjan tekur að gægjast upp á himininn í febrúar og sést best um og upp úr miðnætti í febrúar, mars og apríl. Þau sem vilja sjá sem flestar vetrarbrautir í Meyjarþyrpingunni ættu að vaka fram til klukkan þrjú í mars en þá er Meyjan hæst á lofti í suðri.

Uppruni

Meyjan er oftast tengd við réttvísisgyðjuna Díku, dóttur Seifs og Þemisar. Hún er líka þekkt sem Astræa, dóttir Astræusar (föður stjarnanna) og Eosar, gyðju dögunar. Á kortum er Meyjan gjarnan sýnd með vængi eins og engill sem heldur á kornaxi í vinstri hendi (stjarnan Spíka).

Díka kemur fram í sögu sem segir frá siðrofi mannkynsins. Hún bjó á jörðinni á gullöld mannkynsins, þegar Krónos réði ríkjum á Ólympusfjalli, á tímum friðar, ástar og hamingju, þegar matur spratt stöðugt úr jörðu. Menn eltust ekki, lifðu eins og kóngar sem þekktu ekki sorg, vinnu, glæpi eða styrjaldir. Díka ferðaðist milli þeirra og dreifði vísdómsorðum

Þegar Seifur felldi föður sinn af stalli hófst silfuröldin og fór þá að síga á ógæfuhliðina. Seifur kynnti árstíðaskipti til sögunnar, menn urðu þrætugjarnin og hættu að halda guðunum í heiðri. Díku varð um og ó og varaði menn við að þetta væri aðeins lognið á undan storminum. Hún breiddi út vængi sína og sneri baki í mannkynið. Þegar járn- og bronsaldirnar gengu í garð hófust erjur manna á millum sem Díka þoldi ekki. Yfirgaf hún þá jörðina og flaug til himna þar sem hún situr enn í dag næst tákni réttvísinnar, stjörnumerkinu Voginni.

stjörnumerki, stjörnuhiminn, Meyjan
Stjörnumerið Meyjan og nágrenni. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum

Önnur goðsögn segir frá korngyðjunni Demeter, dóttur Krónosar og Rheu. Demeter eignaðist dótturina Persefónu (meyjuna) með Seifi. Persefónu hefði ætíð verið hrein mey ef ekki hefði verið fyrir frænda hennar, undirheimaguðinn Hades, sem rædni henni þegar hún týndi blóm dag einn á Sikiley. Hades fór með hana til Undirheima og gerði henni að vera drottning hans.

Demeter leitaði um alla jörðina að dóttur sinni. Hún kenndi ökrunum á Sikiley um hvarfið svo uppskerubrestur varð. Í örvæntu sinni spurði hún Stórabjörn hvað hefði hennt en þar sem atburðurinn varð að degi til beindi hann spurningunni til sólarinnar sem sagði Demeter hvað gerst hefði.

Demeter reiddist og krafðist þess að Seifur bæði bróður sinn um að skila dóttur þeirra. Seifur samþykkti að reyna en var of seinn. Persefóna hafði gætt sér á granateplafræjum í Undirheimum og gat þess vegna aldrei snúið aftur til yfirborðs jarðar. Gerð var málamiðlun sem fól í sér að Persefóna mátti verja hálfi ári í Undirheimum með húsbónda sínum og hinum hlutanum ofanjarðar með móður sinni. Hér er komin útskýring á árstíðaskiptunum.

Stjörnur

Meyjan er nokkuð áberandi stjörnumerki en þrjár stjörnur í því eru bjartari en birtustig 3. Bjartasta stjarnan, Spíka, er ein bjartasta stjarna næturhiminsins.

  • α Virginis eða Spíka (Axið) er bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Meyjunni og ein bjartasta stjarna næturhiminsins (birtustig 1,04). Hún er þétt tvístirni (fjögurra daga umferðartími) í um 260 ljósára fjarlægð frá jörðinni Stærri og bjartari stjarnan er blá risastjarna af gerðinni B1, rúmlega tíu sinnum massameiri en sólin, sjö sinnum breiðari og 12.000 sinnum bjartari. Hún er með nálægustu stjörnum við sólkerfið okkar sem gæti endað ævi sína sem sprengistjarna. Daufari stjarnan er meginraðarstjarna af B-gerð, næstum sjö sinnum massameiri en sólin, rúmlega þrisvar sinnum breiðari og 1.500 sinnum bjartari. Báðar stjörnur eru mjög heitar eða í kringum 20.000°C og gefa því að mestu frá sér útfjólublátt ljós. Nafnið Spíka vísar til blómanna sem Meyjan heldur á.

  • γ Virginis eða Porrima er næst bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Meyjunni (birtustig 2,74). Hún er tvístirni í um 38 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Báðar stjörnur kerfisins eru meginraðarstjörnur af gerðinni F0. Þær snúast um sameiginlega massamiðju á tæpum 169 árum.

  • ε Virginis eða Vindemiatrix er þriðja bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Meyjunni (birtustig 2,85). Hún er risastjarna af gerðinni G8, 2,6 sinnum massameiri en sólin, tíu sinnum breiðari og 77 sinnum bjartari. Hún er í um 110 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

  • ζ Virginis eða Heze er fjórða bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Meyjunni (birtustig 3,38). Hún er meginraðarstjarna af gerðinni A2, tvisvar sinnum stærri en sólin og 18 sinnum bjartari, í um 74 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Á braut um hana er rauð dvergstjarna, tæplega 17% af massa sólar.

  • δ Virginis eða Auva er fimmta bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Meyjunni (birtustig 3,39). Hún er rauð risastjarna af gerðinni M3 í um 198 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Stjarnan er 40% massameiri en sólin en næstum 50 sinnum breiðari og 468 sinnum bjartari.

  • β Virginis eða Zavijava er sjötta bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Meyjunni (birtustig 3,59). Hún er meginraðarstjarna af gerðinni F9, 25% massameiri en sólin, 68% breiðari og rúmlega þrisvar sinnum bjartari. Beta Virginis er í um 36 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

  • μ Virginis eða Rjil al Awwa er áttunda bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Meyjunni (birtustig 3,87). Hún er risastjarna af gerðinni F2, 1,7 sinnum massameiri en sólin, 2,1 sinnum breiðari og næstum tíu sinnum bjartari. Mu Virginis er í um 61 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

  • η Virginis eða Zaniah er níunda bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Meyjunni (birtustig 3,89). Hún er meginraðarstjarna af gerðinni A2, rúmlega tvisvar sinnum massameiri en sólin okkar. Stjarnan er í um 265 ljósára fjarlægð frá sólinni.

  • ν Virginis er tíunda bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Meyjunni (birtustig 4,03). Hún er rauð risastjarna af gerðinni M1 í um 313 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

  • ι Virginis eða Syrma er ellefta bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Meyjunni (birtustig 4,07). Hún er risastjarna af gerðinni F6 í um 70 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

Djúpfyrirbæri

Meyjarþyrpingin, vetrarbrautir, vetrarbrautaþyrping
Vetrarbrautir í Meyjarþyrpingunni á mynd sem tekin var með 48 tommu Schmidt sjónaukanum í Palomar stjörnustöðinni. Mynd: NASA, ESA og Digitized Sky Survey. Þakkir: Z. Levay (STScI) og D. De Martin (ESA/Hubble)

Miðja Meyjarþyrpingarinnar, nálægustu stóru vetrarbrautaþyrpingar við vetrarbrautina okkar. Meyjan inniheldur þar af leiðandi fjölmargar vetrarbrautir sem stjörnuáhugafólk getur skoðað.

  • Messier 49 er sporvöluvetrarbraut í um 60 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún sést ágætlega frá Íslandi, best í gegnum meðalstóra og stóra áhugamannasjónauka.

  • Messier 58 er bjálkaþyrilvetrarbraut í um 68 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er fremur dauf svo því stærri sem sjónaukinn er, því meiri smáatriði sjást.

  • Messier 59 er sporvöluvetrarbraut í um 60 milljón ljósára fjarlægð. Hún er fremur dauf og sést því best í gegnum meðalstóra og stóra áhugamannasjónauka.

  • Messier 60 er sporvöluvetrarbraut í um 60 milljón ljósára fjarlægð. Örstutt frá henni er dauf, bláleit þyrilvetrarbraut, NGC 4647. Þær sjást best í gegnum meðalstóra og stóra áhugamannasjónauka.

  • Messier 61 er þyrilvetrarbraut í um 65 milljón ljósára fjarlægð. Hún er um 100.000 ljósár í þvermál og því svipuð vetrarbrautinni okkar. Sýndarbirtustig hennar er 10,2 svo nota þarf meðalstóra og stóra áhugamannasjónauka til að sjá hana með góðu móti.

  • Messier 84 er linsulaga vetrarbraut í um 60 milljón ljósára fjarlægð. Hún er hluti af keðju Markarians sem svo er nefnd vegna þess að frá jörðu séð mynda nokkrar vetrarbrautir slétta, sveigða línu. Hún er dauf en í gegnum meðalstóra og stóra stjörnusjónauka sést bjartur hringlaga kjarni sem dofnar til jaðranna.

  • Messier 86 er linsulaga vetrarbraut í um 60 milljón ljósára fjarlægð. Hún er hluti af keðju Markarians sem svo er nefnd vegna þess að frá jörðu séð mynda nokkrar vetrarbrautir slétta, sveigða línu. Hún er dauf en í gegnum meðalstóra og stóra stjörnusjónauka sést bjartur hringlaga kjarni sem dofnar til jaðranna.

  • Messier 87 er risasporvöluvetrarbraut í hjarta Meyjarþyrpingarinnar. Í henni er er eitt massamesta risasvarthol sem vitað er um, líklega 6,6 milljarðar sólmassa. Í henni eru yfir þúsund milljarðar stjarna og 12.000 kúluþyrpingar. M87 sést í gegnum litla stjörnusjónauka en er fremur sviplaus ena sporvala með bjartan kjarna og dreifðan hjúp.

  • Messier 89 er sporvöluvetrarbraut í um 60 milljón ljósára fjarlægð. Hún er dauf en skammt frá Messier 87 á himninum.

  • Messier 90 er þyrilvetrarbraut í um 60 milljón ljósára fjarlægð. Hún er dauf en með mjög jafna birtu og sést best í gegnum meðalstóra og stóra stjörnusjónauka við góðar aðstæður en fá smáatriði eru sjáanleg.

  • Messier 104 eða Mexíkóahatturinn er þyrilvetrarbraut í um 29 milljón ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er nokkurn veginn á rönd og einkennist af björtum kjarna, gríðarmikilli miðbungu sem inniheldur aðallega gamlar stjörnur og þykkri rykslæðu sem virðist kljúfa vetrarbrautina í tvennt. M104 er skemmtilegt viðfangsefni fyrir stjörnuáhugafólk með allar stærðir sjónauka, þótt hún njóti sín best í gegnum meðalstóra og stóra sjónauka.

  • NGC 4438 eða Augun eru gagnvirkar þyrilvetrarbrautir í um 50 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni. Aðeins 100.000 ljósár skilja milli þeirra. Viðrnefnið má rekja til þess, að í gegnum meðalstóra áhugamannasjónauka minna ljósleitar sporöskjulaga blettirnir á augu.

  • NGC 4526 er linsulaga vetrarbraut í um 55 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni. Í henni er þykk og áberandi rykslæða sem sést í gegnum áhugamannasjónauka.

  • 3C 273 er bjartasta dulstirnið á himinhvolfinu (birtustig 12,9) og hið fyrsta sem fannst. Dulstirni eru vetrarbrautir sem knúnar eru áfram af risasvartholum í miðju þeirra. 3C 273 er í 2,4 milljarða ljósára fjarlægð frá jörðinni.

Loftsteinadrífur

Virginítar er loftsteinadrífa sem skiptist í nokkrar kröftugar og minniháttar drífur: Alfa Virginítar, Gamma Virginítar, Eta Virginítar, Þeta Virginítar, Jóta Virginítar, Lambda Virginítar, Mu Virginítar, Pí Virginítar, Psí Virginítar og Mars Virginítar. Allar þessar drífur stefna út frá Meyjarmerkinu og standa yfir frá því seint í janúar til snemma í maí. Drífurnar eru í hámarki í mars og apríl og sjást þá í kringum tveir loftsteinar á klukkustund að meðaltali.

Alfa Virginítar er kröftugasta drífan og stendur nokkuð lengi yfir eða frá 10. mars til 6. maí. Drífan er í hámrki frá 7. til 18. apríl og sjást þá 5 til 10 fremur hægfara loftsteinar á klukkustund að meðaltali.

Stjörnukort

Stjörnukort af Meyjunni í prentvænni útgáfu er að finna hér.

Heimildir

  1. Ian Ridpath's Star Tales - Virgo the virgin

  2. http://en.wikipedia.org/wiki/Virgo_(constellation)

  3. http://meteorshowersonline.com/showers/virginid_complex.html

  4. http://meteorshowersonline.com/showers/alpha_virginids.html