Myndhöggvarinn

  • stjörnukort, stjörnumerki, Myndhöggvarinn
    Kort af stjörnumerkinu Myndhöggvaranum
Helstu upplýsingar
Latneskt heiti:
Sculptor
Bjartasta stjarna: α Sculptoris
Bayer / Flamsteed stjörnur:
18
Stjörnur bjartari +3,00:
0
Nálægasta stjarna:
Gliese 1
(14,2 ljósár)
Messier fyrirbæri:
0
Loftsteinadrífur:
Engar
Sést frá Íslandi:
Nei

Uppruni

Myndhöggvarinn er eitt þeirra stjörnumerkja sem franski stjörnufræðingurinn Nicolas Louis de Lacaille bjó til eftir dvöl sína á Góðrarvonarhöfða í Suður Afríku, þar sem hann var við stjörnuathuganir árin 1751-52.

Lacaille nefndi merkið upphaflega l'Atelier du Sculpteur eða „stúdíó myndhöggvarans“. Merkið var táknað með úthöggnu höfði á borði við hlið hamars og meitils listamannsins. Á stjörnukorti sínu frá árinnu 1763 hafði Lacaille breytt nafninu í Apparatus Sculptoris sem síðar var einfaldlega stytt í Sculptor eða Myndhöggvarann.

Stjörnur

Allar stjörnur Myndhöggvarans eru af fjórða birtustigi og daufari. Engin ber formlegt nafn.

  • α Sculptoris er bjartasta stjarna Myndhöggvarans (birtustig 4,3). Hliðrunarmælingar evrópska gervitunglsins Hipparkosar benda til að hún sé í um 780 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Alfa Sculptoris er risastjarna af gerðinni B7 IIIp. Hún er um 1.700 sinnum bjartari en sólin og um 14.000°C heit. Stjarnan er líklega sjö sinnum breiðari en sólin og 5,5 sinnum massameiri.

  • β Sculptoris er næst bjartasta stjarna Myndhöggvarans (birtustig 4,8). Hún er risastjarna af gerðinni B9.5 í um 178 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

  • Gliese 1 er rauður dvergur í aðeins 14,2 ljósára fjarlægð frá sólinni. Þótt hún sé með nálægustu fastastjörnum við jörðina sést hún ekki með berum augum (birtustig 8,5). Hún er rúmlega helmingi minni en sólin og töluvert kaldari eða um 3.000°C.

Djúpfyrirbæri

Í stjörnumerkinu Myndhöggvaranum eru fjölmargar vetrarbrautir.

Myndhöggvarahópurinn er gisinn hópur þrettán vetrarbrauta skammt frá suðurpóli himins. Hann er nálægasti vetrarbrautahópurinn við Grenndarhópinn sem vetrarbrautin okkar tilheyrir, í rúmlega 12 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni. Myndhöggvaravetrarbrautin NGC 253 er stærsta vetrarbrautin í hópnum. Hún er bjálkaþyrilvetrarbraut. NGC 55 er önnur áberandi óregluleg bjálkaþyrilvetrarbraut í hópnum.

NGC 288 er kúluþyrping í um 28.700 ljósára fjarlægð frá jörðinni. 

NGC 300 er glæsileg þyrilvetrarbraut í um 6 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni.

Í Myndhöggvaranum er einnig að finna Kerruhjólsvetrarbrautina (e. Cartwheel Galaxy). Þessi linsulaga vetrarbraut er í um 500 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er 150.00 ljósár í þvermál, nokkru stærri en vetrarbrautin okkar.

Stjörnukort

stjörnumerki, stjörnuhiminn, Myndhöggvarinn
Stjörnumerkið Myndhöggvarinn og nágrenni. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum

Stjörnukort af Myndhöggvaranum í prentvænni útgáfu er að finna hér.

Heimildir

  1. Ian Ridpath's Star Tales - Sculptor the sculptor

  2. http://en.wikipedia.org/wiki/Sculptor_(constellation)

  3. Jim Kaler's Stars