Skjöldurinn

  • stjörnukort, stjörnumerki, Skjöldurinn
    Kort af stjörnumerkinu Skyldinum
Helstu upplýsingar
Latneskt heiti:
Scutum
Bjartasta stjarna: α Scuti
Bayer / Flamsteed stjörnur:
7
Stjörnur bjartari +3,00:
0
Nálægasta stjarna:
LHS 3398
(42 ljósár)
Messier fyrirbæri:
2
Loftsteinadrífur:
Júní Skútítar
Sést frá Íslandi:

Uppruni

Pólski stjörnufræðingurinn Jóhannes Hevelíus bjó til stjörnumerkið Skjöldinn árið 1684. Hevelíus kallaði merkið upphaflega Scutum Sobiescianum eða Skjöldur Sobieskis til heiðurs Jóhanni Sobieski III, Póllandskonungi, sem hjálpaði Hevelíusi að endurreisa stjörnstöð hans eftir að hún eyðilagðist í eldi árið 1679. Sobieski fór fyrir her Pólverja sem vann sigur í orrustunni um Vín árið 1683.

Skjöldurinn er eina stjörnumerkið sem búið var til af pólitískum ástæðum og er enn í notkun.

Engar goðsagnir tengjast merkinu.

Stjörnur

Þrátt fyrir að vera fimmta minnsta stjörnumerki himins er Skjöldurinn nokkuð áberandi. Björtustu stjörnur merkisins eru af fjórða birtustigi og bera engin formleg nöfn.

Af þeim sjö stjörnumerkjum sem Hevelíus bjó til var Skjöludurinn eina merkið sem breski stjörnufræðingurinn John Flamsteed samþykkti ekki. Flamsteed taldi merkið hluta af Erninum svo stjörnur Skjaldarins bera engin Flamsteed númer.

  • α Scuti er bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Skildinum (birtustig 3,85). Hún er appelsínugul risastjarna af gerðinni K2 í um 199 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Stjarnan er 170 sinnum bjartari en sólin, 21 sinnum breiðari og tvöfalt massameiri.

  • β Scuti er næst bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Skildinum (birtustig 4,2). Hún er björt, gulhvít risastjarna af gerðinni G5 í um 900 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Beta Scuti er litrófstvístirni með 2,3 daga umferðartíma. Bjartari stjarnan er 3.100 sinnum skærari en sólin, 84 sinnum breiðari og líklega um 7 sinnum massameiri. Förunauturinn er A0-stjarna á meginröð.

  • ζ Scuti er þriðja bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Skildinum (birtustig 4,68). Hún er risastjarna af G9-gerð í um 207 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

  • γ Scuti er fjórða bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Skildinum (birtustig 4,7). Hún er hvít undirmálsstjarna af gerðinni A1, líklega um 9.000°C heit, 113 sinnum bjartari en sólin og fjórfalt breiðari. Gamma Scuti er í 319 ljósára fjarlægð frá jörðinni en stefnir í átt til okkar. Eftir rúmar tvær milljónir ára verður hún í aðeins 14 ljósára fjarlægð frá okkur og verður þá líklega bjartasta stjarna næturhiminsins, næstum tvisvar sinnum bjartari en Síríus.

  • δ Scuti er fimmta bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Skildinum (birtustig 4,72). Hún er risastjarna af gerðinni F2, 39 sinnum bjartari og tvisvar sinnum massameiri en sólin okkar. Samkvæmt hliðrunarmælingum evrópska gervitunglsins Hipparkosar er stjarnan í 202 ljósára fjarlægð frá jörðinni eða svo. Delta Scuti er sveiflustjarna sem breytir birtu sinni örlítið á nokkurra klukkustunda fresti.

Djúpfyrirbæri

Í Skildinum eru nokkrar lausþyrpingar, kúluþyrping og hringþoka.

  • Messier 11 eða Villiandarþyrpingin er stór og þétt lausþyrping, ein sú glæsilegasta á næturhimninum. Við allra bestu aðstæður sést hún með berum augum, skammt suðvestur af stjörnunni Beta.

  • Messier 26 er önnur þétt og falleg lausþyrping. Hún kemst aldrei hátt á loft yfir Íslandi en er engu að síður prýðilegt viðfangsefni fyrir íslenskt stjörnuáhugafólk.

  • NGC 6712 er kúluþyrping í um 22.500 ljósára fjarlægð frá jörðinni (birtustig 8,7). Hún nýtur sín best í gegnum meðalstóra áhugamannasjónauka við meðalstækkun.

  • IC 1295 er lítil og dauf hringþoka (birtustig 12,7). Nota þarf stóra áhugamannasjónauka til að sjá hana.

Loftsteinadrífur

Júní Skútítar er minniháttar loftsteinadrífa sem sést milli 2. júní og 29. júlí en hámarkið er í kringum 27. júní og sjást þá tveir til fjórir loftsteinar á klukkustund.

Stjörnukort

stjörnumerki, stjörnuhiminn, Skjöldurinn
Stjörnumerkið Skjöldurinn og nágrenni. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum

Stjörnukort af Skildinum í prentvænni útgáfu er að finna hér.

Heimildir

  1. Ian Ridpath's Star Tales - Scutum the shield

  2. http://en.wikipedia.org/wiki/Scutum

  3. Jim Kaler's Stars

  4. http://meteorshowersonline.com/showers/june_scutids.html

  5. Small Wonders: Scutum