Sporðdrekinn

  • stjörnukort, stjörnumerki, Sporðdrekinn
    Kort af stjörnumerkinu Sporðdrekanum
Helstu upplýsingar
Latneskt heiti:
Scorpius
Bjartasta stjarna: Antares
Bayer / Flamsteed stjörnur:
47
Stjörnur bjartari +3,00:
13
Nálægasta stjarna:
Gliese 682
(16,4 ljósár)
Messier fyrirbæri:
4
Loftsteinadrífur:
Alfa Scorpítar
Omega Scorpítar
Sést frá Íslandi:
Að hluta

Sólin gengur leið sína eftir sólbaugnum um Sporðdrekann og telst hann því eitt af stjörnumerkjum dýrahringsins. Sólin er innan marka Sporðdrekans um miðbik vetrar frá 20. nóvember til 29. nóvember (en ekki 24. október til 22. nóvember eins og segir í stjörnuspám).

Tunglið og reikistjörnurnar fara aldrei langt frá sólbaugnum og sjást því stundum í Sporðdrekanum.

Sporðdrekinn er ólíkur flestum öðrum stjörnumerkjunum að því leyti að auðvelt er að sjá mynd hans út frá uppröðun björtustu stjarnanna. Hann liggur fyrir sunnan miðbaug himins og er syðst á sólbaugnum ásamt Bogmanninum.

Þótt Sporðdrekinn sé bjart og auðþekkjanlegt stjörnumerki er hægt að nota nokkrar leiðir til þess að auðvelda sér leitina að honum á himninum. Stjörnur Bogmannsins við hlið Sporðdrekans raðast upp í mynstur sem minnir á teketil. Séu skilyrði góð má rekja sig eftir vetrarbrautarslæðunni frá Svaninum og Erninum niður að Sporðdrekanum. Einnig er hægt að ferðast eftir dýrahringnum frá Ljóninu og Meyjunni í gegnum Vogina niður í Sporðdrekann, með viðkomu í neðsta hluta Naðurvalda.

Sporðdrekinn er það sunnarlega á himinhvelfungunni að einungis er hægt að sjá örlítinn hluta merkisins frá Íslandi, snemma á vorin.

Uppruni

stjörnumerki, stjörnuhiminn, Sporðdrekinn
Stjörnumerkið Sporðdrekinn og nágrenni. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum

Upprunalega stjörnumerkið Sporðdrekinn var mun stærra en það er í dag og er upprunið í Babýlóníu. Merkið skiptist í tvennt, í búkinn og broddinn og klærnar, sem voru fremri hlutinn og Grikkir nefndu Chelae sem merkir klær. Á fyrstu öld f.Kr. bjuggu Rómverjar til annað stjörnumerki úr klónum, stjörnumerkið Vogina.

Í grísku goðsögunum er Sporðdrekinn sá sem stakk veiðimanninn Óríon til dauða en heimildum greinir á um hvernig það kom til. Frægust er ef til vill sú saga að Óríon hafi gortað sig af því að geta drepið hvaða dýr á jörðinni sem væri. Veiðigyðjan Artemis var ekki allskostar sátt við það og att sporðdrekanum að Óríoni. Börðust þeir uns sporðdrekinn stakk Óríon og drap hann. Glíman vakti athygli Seifs sem kom Sporðdrekanum síðar fyrir á himninum og síðar Óríoni, að kröfu Artemisar, til að minna dauðlega á að dramb er falli næst.

Önnur útgáfa segir frá deilum Óríons og Artemisar um hvort þeirra væri hæfari veiðimaður. Apolló, bróðir Artemisar, reiddist við þetta og sendi sporðdreka til að ráðast á Óríon og drap hann. Eftir dauða Óríons bað Artemis Seif um að koma honum fyrir á himninum. Þar gengur hann upp himininn á veturna til veiða en flýr á sumrin undan Sporðdrekanum.

Ýmsar aðrar sögur eru til af Sporðdrekanum. Ein þeirra segir af því þegar Fæþon, sonur sólarguðsins Helíosar, missti stjórn á sólvagninum. Hestarnir sem drógu vagninn ruku af stað en urðu enn ólmari þegar þeir mættu Sporðdrekanum. Skelfingu lostinn stýrði Fæþon vagninum of nálægt jörðinni. Fyrir slysni brenndi hann gróður í Afríku og breytti landinu í eyðimörk og dekkti í leiðinni húð Eþíópísku þjóðarinnar þar til hún varð svört. Að lokum laust Seifur Fæþon eldingu til þess að skakka leikinn og féll hann fljótið Eridanos (stjörnumerkið Fljótið).

Kínverskar goðsagnir greina frá drekanum Azure. Hann var vorboði en Sporðdrekinn rís upp á himininn um lágnættið þegar líða tekur á vorið.

Stjörnur

Sporðdrekinn, stjörnumerki
Stjörnumerkið Sporðdrekinn. Bjarta appelsinugula stjarnan á myndinni er rauði reginrisinn Antares. Mynd: Akira Fujii

Stjörnur Sporðdrekans eru margar hverjar bjartar og áberandi. Í merkinu eru þrettán stjörnur bjartari en 3. birtustigi en sú bjartasta er rauði reginrisinn Antares.

  • α Scorpii eða Antares er bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Sporðdrekanum og ein bjartasta stjarna næturhiminsins (birtustig 1,06). Hún er rauður reginrisi af gerðinni M1.5 í hjarta sporðdrekans. Stjarnan er næstum 883 sinnum breiðari en sólin og meira en 15 sinnum massameiri. Væri hún í miðju okkar sólkerfis væri yfirborð hennar í smástirnabeltinu milli Mars og Júpíters. Antares er í um það bil 500 ljósára fjarlægð frá jörðinni og gefur frá sér 10.000 sinnum meira sýnilegt ljós en sólin. Stjarnan er hins vegar aðeins 3.400 gráðu heit svo geislunin er að mestu á innrauða sviðinu. Nafnið Antares er forngrískt að uppruna og þýðir „Anti-Ares“ eða „Ekki-Mars“ vegna þess hve hún líkist reikistjörnunni Mars á himninum.

  • λ Scorpii eða Shaula (reistur hali) er næst bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Sporðdrekanum (birtustig 1,62). Hún er fjölstirni í um það bil 700 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Bjartasta stjarnan, Lambda Scorpii A, er þrístirni sem samanstendur af tveimur stjörnum af B-gerð og einni stjörnu sem ekki er kominn á meginröð. Ekki er vitað hvort stjörnur B og C, sem eru mun daufari en A, séu raunverulegar fylgistjörnur A eða einfaldlega í sömu sjónlínu.

  • θ Scorpii eða Sargas er þriðja bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Sporðdrekanum og með bjartari stjörnu næturhiminsins (birtustig 1,86). Hún er risastjarna af gerðinni F0 í um 300 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Þeta Scorpii er næstum sex sinnum massameiri en sólin, 26 sinnum breiðari og 1800 sinum bjartari. Nafn hennar, Sargas, er súmerískt að uppruna.

  • δ Scorpii eða Deschubba (ennið) fjórða bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Sporðdrekanum (birtustig 2,29). Hún er undirmálsstjarna af gerðinni B0 sem er að þróast yfir í risastjörnu. Stjarnan er í um 490 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

  • ε Scorpii er fimmta bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Sporðdrekanum (birtustig 2,29). Hún er appelsínugul risastjarna af gerðinni K1 í um 64 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

  • κ Scorpii eða Girtab er sjötta bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Sporðdrekanum (birtustig 2,29). Hún er litrófstvístirni í um 480 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Meginstjarna kerfisins er risastjarna af gerðinni B1,5 sem er 17 sinnum massameiri en sólin og næstum sjö sinnum breiðari. Nafn stjörnunnar, Girtab, er súmerískt að uppruna og merkir sporðdreki en það hefur varðveist úr babýlónískum stjörnuskrám.

  • β Scorpii eða Acrab (sporðdrekinn) er sjöunda bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Sporðdrekanum (birtustig 2,56). Hún er fjölstirni í um 400 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Í gegnum sjónauka sést par stjarna, Beta1 Scorpii og Beta2 Scorpii. Beta1 er bjartari og samanstendur af tveimur stjörnum, Beta Scorpii A og Beta Scorpii B sem hafa 610 ára umferðartíma. Beta Scorpii A er sjálf litrófstvístirni með 6,82 daga umferðartíma. Beta2 Scorpi samanstendur líka af tveimur stjörnum, Beta Scorpii C og Beta Scorpii E sem hafa 39 ára umferðartíma. Beta Scorpii E er litrófstvístirni með tæplega 11 daga umferðartíma. Í kerfinu eru því sex stjörnur en engin þeirra er merkt D. Tvær massamestu stjörnurnar eru meginraðarstjörnur af gerðinni B. Stjarnan er nálægt sólbaugnum svo fyrir kemur að tunglið og reikistjörnur gangi fyrir hana.

  • υ Scorpii eða Lesath er áttunda bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Sporðdrekanum (birtustig 2,70). Stjarnan er í broddi Sporðdrekans, skammt frá lausþyrpingunni Messier 7. Hún er undirmálsstjarna af gerðinni B2 sem er að þróast í risastjörnu. Samkvæmt hliðrunarmælingum er stjarnan í 580 ljósára fjarlægð. Nafn hennar, Lesath, merkir „bit eitraðs dýrs“.

  • τ Scorpii eða Alniyat er níunda bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Sporðdrekanum (birtustig 2,82). Hún er meginraðarstjarna af gerðinni B0,2 sem er fimmtán sinnum massameiri en sólin, sex sinnum breiðari og 18.000 sinnum bjartari. Samkvæmt hliðrunarmælingum er stjarnan í um 470 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Nafn hennar, Alniyat, er einnig notað yfir stjörnuna Sigma Scorpii, eða samstirnið sem þær mynda, en það þýðir „slagæð“.

  • σ Scorpii eða Alniyat er ellefta bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Sporðdrekanum (birtustig 2,90). Hún er kerfi að fjögurra stjarna. Bjartasta stjarnan, Sigma Scorpii A, er risastjarna af gerðinni B1, um 18 sinnum massameiri en sólin, 12 sinnum breiðari og 29.000 sinnum bjartari. Hún er einnig litrófstvístirni. Daufari stjarnan, B, er meginraðarstjarna af gerðinni B1. Í um 120 stjarnfræðieininga fjarlægð frá henni er Sigma Scorpii C, sem hefur yfir hundrað ára umferðartíma. Enn lengra í burtu, í meira en 4.500 stjarnfræðieininga fjarlægð, er Sigma Scorpii D, meginraðarstjarna af gerðinni B9. Samkvæmt hliðrunarmælingum er Sigma Scorpii kerfið í um 568 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Nafn hennar, Alniyat, er einnig notað yfir stjörnuna Tá í Sporðdrekanum, eða samstirnið sem þær mynda.

  • ν Scorpii eða Jabbah fjölstirni í stjörnumerkinu Sporðdrekanum (birtustig 4,00). Í kerfinu eru að minnsta kosti fjórar stjörnur, jafnvel sjö og skiptast þær í tvo þétta hópa. Bjartara parið, Nu Scorpii A og B, eru tvær undirmálsstjörnur af gerðinni B2. Daufara parið, Nu Scorpii C og D, eru meginraðarstjörnur af gerðinni B8 og B9. Ljósið frá fjölstirninu lýsir upp endurskinsþokuna IC 4592. Stjarnan er nálægt sólbaugnum svo fyrir kemur að tunglið og reikistjörnur gangi fyrir hana. Hún er í um það bil 437 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

Djúpfyrirbæri

Sporðdrekinn er nálægt miðju vetrarbrautarinnar í bjartasta hluta vetrarbrautarslæðunnar. Þar leynast því fjölmörg áhugaverð djúpfyrirbæri, til að mynda fjögur Messierfyrirbæri.

  • Messier 4 er kúluþyrping í um 7.200 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er aðeins of sunnarlega á himinhvelfingunni til að sjást frá Íslandi. Þyrpinguna er að finna aðeins um 1,3 gráður vestur af Antaresi, skammt frá Rho Ophiuchi skýið í Naðurvalda.

  • Messier 6 eða Fiðrildaþyrpingin er lausþyrping í um 1.600 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er of sunnarlega á himninum til að sjást frá Íslandi.

  • Messier 7 eða Ptólmæosarþyrpingin er lausþyrping sem sést með berum augum í oddi Sporðdrekans. Hún er því of sunnarlega til að sjást frá Íslandi. Þessi glæsilega þyrping er í 800 til 1.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

  • Messier 80 er kúluþyrping í um 32.600 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er of sunnarlega á himinhvolfinu til að hægt sé að sjá hana frá Íslandi.

  • NGC 6302 eða Paddan er hringþoka í um 3.400 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

  • NGC 6334 eða Kattarloppan er stjörnumyndunarsvæði í um 5.500 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Svæðið er einn virkasti myndunarstaður massamikilla stjarna í vetrarbrautinni okkar.

  • NGC 6537 eða Rauða köngulóarþokan er hringþoka í um 3.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

  • NGC 6357 er stjörnumyndunarsvæði í um 8.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

Loftsteinadrífur

Í Sporðdrekanum eru tvær minniháttar loftsteinadrífur, Alfa Scorpítar og Omega Scorpítar.

Stjörnukort

Stjörnukort af Sporðdrekanum í prentvænni útgáfu er að finna hér.

Heimildir

  1. Ian Ridpath's Star Tales - Scorpius the scorpion

  2. http://en.wikipedia.org/wiki/Scorpius Jim Kaler's Stars