Geminítar — besta loftsteinadrífa ársins — í hámarki 13.-14. desember

Sævar Helgi Bragason 11. des. 2017 Fréttir

Full ástæða er til að hafa augun á himninum 13.-14. desember 2017. Þú gætir séð talsvert fleiri stjörnuhröp en alla jafna því þá er loftsteinadrífan Geminítar í hámarki og sjást nokkrir tugir stjörnuhrapa á klukkustund þegar best lætur.

  • vígahnöttur, loftsteinn, stjörnuhrap, loftsteinahrap,

Full ástæða er til að hafa augun á himninum miðvikudagskvöldið 13. desember og aðfaranótt fimmtudags 14. desember 2017. Þú gætir séð talsvert fleiri stjörnuhröp en alla jafna því þá er loftsteinadrífan Geminítar í hámarki. Geminítar eru oft besta loftsteinadrífa ársins og sjást nokkrir tugir stjörnuhrapa á klukkustund þegar best lætur.

828x315_facebookhaus_Geimverur2

Geminítar eru nokkuð langvinn loftsteinadrífa svo fólk í norðurljósaleit ætti að hafa augun opin fáeina daga fyrir og eftir 13. desember. Í ár eru aðstæður sérstaklega heppilegar því tunglið er minnkandi sigð á morgunhimninum.

Geminítar eru þekktir fyrir nokkuð björt stjörnuhröp og stundum vígahnetti sem vekja mesta athygli.

Og hvert á svo að horfa?

Horfðu í austurátt á kvöldin.  Í desember er stjörnumerkið Tvíburarnir á lofti svo til allar myrkurstundi, svo hægt er að fylgjast með drífunni frá kvöldi til morguns. Besti tíminn til að fylgjast með Geminítum er hins vegar þegar Tvíburarnir eru í hágöngu (í suðri) milli klukkan 3 og 4 að nóttu til, þá í 57 gráðu hæð yfir sjóndeildarhring. Það er engin ástæða til að vaka svo lengi frameftir þó. Notaðu myndina hér undir til að hjálpa þér að finna Tvíburamerkið, til dæmis út frá Óríon.

Geminitar-2017

Horfið til himins!

Lærðu meira

Stjörnuskoðun fyrir alla fjölskyldunaStjörnuskoðun fyrir alla fjölskylduna fjallar um undrin sem sjá má á næturhimninum, frá sólsetri til sólarupprásar. Greint er frá því helsta sem sést með berum augum frá Íslandi, allt frá næturregnbogum og norðurljósum til gervitungla og stjörnuhrapa, að himintunglunum ógleymdum.

Sagt er frá tunglinu, sólinni og reikistjörnunum og hvernig best er að skoða þessa nágranna okkar í sólkerfinu. Ítarlega er fjallað um stjörnuhimininn og yfir fimmtíu fyrirbæri sem auðvelt er að finna, ýmist með handsjónauka, litlum stjörnukíki eða kröftugum stjörnusjónauka. Bókin geymir að auki fjölda glæsilegra mynda og vönduð stjörnukort.