Argyre dældin

  • Argyre dældin, hæðarkort
    Hæðarkort af Argyre dældinni

Argyre dældin nær um 5,2 km undir meðalhæð yfirborðsins. Hún er því öllu grynnri en Hellas dældin. Dældin myndaðist, líkt og Hellas dældin, fyrir meira en 4 milljörðum ára eða á Nóaskeiðinu í jarðsögu Mars, þegar stórt smástirni rakst á reikistjörnuna. Allt í kringum dældina eru stórir fjallshryggir sem streyma út frá henni en einnig stórir árekstragígar sem mynduðust eftir á. Á gagnstæðri hlið reikistjörnunnar er Útópía-sléttan þar sem Viking 2 lenti árið 1976.

Frá dældinni liggja þrír stórir árfarvegir sem virðast hafa flætt frá suðri og austri inn í gegnum gígbrúnina og ofan í dældina. Fjórði stóri árfarvegurinn virðist hafa flætt út úr norðurbrúnni í átt að Chryse sléttunni. Á botni dældarinnar er lagskipt efni; set sem sennilega myndaðist þegar vatnið hvarf smám saman og skildi uppleyst efni eftir sig.

Gígurinn Galle 

Á austurhlið Argyre er gígurinn Galle – nefndur eftir þýska stjörnufræðingnum Johann Gottfried Galle - sem minnir einna helst á broskall. Gígurinn er 230 km í þvermál og var fyrst ljósmyndaður af Viking 1 brautarfarinu. Gígurinn er eitt margra forvitnilegra mynstra á yfirborði Mars.

Galle, gígur
Mynd Mars Express geimfarsins af brosmilda gígnum Galle. Mynd: ESA/DLR/FU Berlin (G. Neukum)

Hvernig vitna skal í þessa grein

Sævar Helgi Bragason (2010). Argyre dældin. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/solkerfid-large/mars/argyre-daeldin (sótt: DAGSETNING)