Stjörnuhiminninn í febrúar

Sævar Helgi Bragason 01. feb. 2017 Stjörnuhiminninn

Upplýsingar um stjörnuhiminninn yfir Íslandi, tunglstöðu og það helsta sem sést á himninum í febrúar 2017, auk prentvæns stjörnukorts.

 • Full tungl. Mynd: Sævar Helgi Bragson/Stjörnufræðivefurinn

Tunglið í febrúar 2017

 • Fyrsta kvartil: 4. febrúar kl. 04:19
 • Fullt tungl: 11. febrúar kl. 00:33
 • Síðasta kvartil: 18. febrúar kl. 19:33

 • Nýtt tungl: 26. febrúar kl. 14:58
 • Tungl í jarðnánd: 6. febrúar – 356.816 km
 • Tungl í jarðfirrð: 18. febrúar – 404.376 km 

Helst á himni í febrúar 2017

Bjarta stjarnan á kvöldhimninum er Venus. Bjarta stjarnan á morgunhimninum er Júpíter.

 • 1. MORGUN: Júpíter og Spíka á morgunhimninum í suðri fyrir sólarupprás. Parið verður svona þétt saman út mánuðinn.
 • 5. KVÖLD: Vaxandi gleitt tungl vinstra megin við Aldebaran.
 • 11. ALLA NÓTTINA: Fullt tungl við Regúlus í Ljóninu

 • 11. NÓTT: Hálfskuggamyrkvi á tungli
 • 15. MORGUN: Minnkandi gleitt tungl, Júpíter og Spíka á morgunhimninum
 • 26. DAGUR: Hringmyrkvi á sólu. Sýnilegur frá Chile, Argentínu og Angóla í Afríku

Stjörnukort fyrir febrúar 2017

Prentvænt stjörnukort fyrir febrúar 2017.

Skoðaðu þetta

Nautid-regnstirnid-handsjonaukiRegnstirnið (e. Hyades) myndar höfuð stjörnumerkisins Nautsins og er hátt á lofti í febrúar. Hún er lausþyrping í um 150 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Þyrpingin er meðal nálægustu stjörnuþyrpinga við sólkerfið okkar. Hún er það víð á himninum að best er að skoða hana með berum augum eða í handsjónauka.

Þótt stjarnan Aldebaran, auga nautsins, sé í sömu sjónlínu og Regnstirnið er hún ekki hluti af þyrpingunni heldur miklu nær okkur eða ríflega 60 ljósár í burtu. Regnstirnið er um 75 ljósár á breidd en kjarni þyrpingarinnar er um 10 ljósár í þvermál. Talið er að stjörnur Regnstirnisins séu um 600 milljón ára gamlar.

Skoðaðu Regnstirnið með handsjónauka eða stjörnusjónauka við litla stækkun og vítt sjónsvið.

Lærðu meira!

Stjornuskodun-1200x1419Stjörnuskoðun fyrir alla fjölskylduna fjallar um undrin sem sjá má á næturhimninum, frá sólsetri til sólarupprásar.

Greint er frá því helsta sem sést með berum augum frá Íslandi, allt frá næturregnbogum og norðurljósum til gervitungla og stjörnuhrapa, að himintunglunum ógleymdum.

Sagt er frá tunglinu, sólinni og reikistjörnunum og hvernig best er að skoða þessa nágranna okkar í sólkerfinu. Ítarlega er fjallað um stjörnuhimininn og yfir fimmtíu fyrirbæri sem auðvelt er að finna, ýmist með handsjónauka, litlum stjörnukíki eða kröftugum stjörnusjónauka.

Bókin geymir að auki fjölda glæsilegra mynda og vönduð stjörnukort.

Horfðu til himins – þar leynist fleira en þig grunar!

Heimildir

 1. Sky & Telescope, febrúarhefti 2017
 2. Fred Espenak, astropixels.com.