Hjarðmaðurinn

  • stjörnukort, stjörnumerki, Hjarðmaðurinn
    Kort af stjörnumerkinu Hjarðmanninum
Helstu upplýsingar
Latneskt heiti:
Boötes
Bjartasta stjarna: Arktúrus
Bayer / Flamsteed stjörnur:
59
Stjörnur bjartari +3,00:
3
Nálægasta stjarna:
Wolf 498
(18 ljósár)
Messier fyrirbæri:
0
Loftsteinadrífur:
Kvaðrantítar
Júní Boötítar
Alfa Boötítar
Sést frá Íslandi:

Hjarðmaðurinn er ofan við miðbaug himins. Frá Íslandi er best að skoða hann að kvöldlagi á haustin. Bjartasta stjarnan í merkinu, Arktúrus, blikar þá skært í vestri eftir sólsetur. Hana má finna með því að framlengja handfangið á Karlsvagninum.

Uppruni

Stjörnumerkið Hjarðmaðurinn tengist goðsögninni um Stórabjörn enda merkið staðsett á himninum fyrir aftan skottið á birninum. Grikkir þekktu merkið líka sem Arctophylax, sá sem gætir bjarnarins.

Í einni útgáfu sögunnar er merkið tákn um Arkas, son Seifs og Kallistó, dóttur Lýkaons konungs frá Arkadíu. Dag einn hugðist Seifur sitja að snæðingi með föður Kallistós. Það var harla óvenjulegt af guði og til að kanna hvort gesturinn væri raunverulega Seifur, myrti Lýkaon Arkas, aflimaði hann og reiddi fram. Seifur þekkti son sinn strax og gekk berseksgang. Hann velti borðum, drap syni Lýkaons og breytti honum síðan í úlf. Safnaði hann svo limum Arkasar saman, lífgaði við og fól Maiu, eina af sjö dætrum Atlasar, að ala hann upp.

Á meðan hafði Kallistó verið breytt í björn, hugsanlega af Heru eða Seifi sjálfum til að fela framhjáhaldið fyrir konu sinni eða jafnvel Artemisi til refsingar fyrir meydómsmissinn. Hvernig svo sem það gerðist varð björninn síðar á vegi Arkasar er hann var við veiðar í skógi nokkrum. Kallistó þekkti son sinn en þegar hún reyndi að sína honum ást og umhyggju gat hún ekki gefið frá sér nein önnur hljóð en urr. Arkas misskildi skiljanlega blíðuhótin og tók að elta björninn. Kallistó, í líki bjarnarins, flúði inn í hof Seifs en þeir sem þangað fóru í leyfisleysi urðu að gjalda fyrir með lífi síni. Seifur tók því Arkas og móður hans af jörðinni og kom þeim fyrir á himninum sem stjörnumerkin Hjarðmaðurinn og Stóribjörn.

Stjörnur

stjörnumerki, stjörnuhiminn, Hjarðmaðurinn
Stjörnumerkið Hjarðmaðurinn og nágrenni. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum

Í Hjarðmanninum eru þrjár stjörnur bjartari en 3. birtustig og um 30 stjörnur sem sjást með berum augum. Í merkinu er fjórða bjartasta stjarna næturhiminsins.

  • α Boötis eða Arktúrus er bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Hjarðmanninum og fjórða bjartasta stjarnan á næturhimninum (birtustig –0,04). Arktúrus er appelsínugul risastjarna af gerðinni K1,5 í 37 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er 10% massameiri en sólin, 26 sinnum breiðari og 170 sinnum bjartari. Nafn stjörnunnar er forngrísk og merkir „verndari bjarnarins“. Arktúrus er í vinstri fæti Hjarðmannsins.

  • ε Boötis er næst bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Hjarðmanninum (birtustig 2,37). Hún er tvístirni sem ber einnig nafnið Izar (slæðan). Bjartari stjarnan er risastjarna af gerðinni K0 sem er fjórum sinnum massameiri en sólin, 33 sinnum breiðari og 500 sinnum bjartari. Förunauturinn er meginraðarstjarna af gerðinni A2. Þær snúast um sameiginlega massamiðju á að minnsta kosti 1.000 árum en 185 stjarnfræðieiningar skilja þær að. Epsilon Boötis er í um 200 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

  • η Boötis er þriðja bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Hjarðmanninum (birtustig 2,68). Hún er undirmálsstjarna af gerðinni G0 sem er að þróast yfir í rauða risastjörnu. Stjarnan er 1,7 sinnum massameiri en sólin, 2,7 sinnum breiðari og tæplega níu sinnum bjartari. Eta Boötis ber einnig nöfnin Muphrid og Saak. Hún er í 37 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

  • γ Boötis er fjórða bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Hjarðmanninum (birtustig 3,0). Hún er risastjarna af gerðinni A7 sem er 34 sinnum bjartari en sólin okkar. Gamma Boötis ber einnig nafnið Seginus. Hún er í 85 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

  • δ Boötis er fimmta bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Hjarðmanninum (birtustig 3,48). Hún er tvístirni sem samanstendur af risastjörnu af gerðinni G8 og stjörnu á meginröð af gerðinni G0. Sú síðarnefnda líkist sólinni okkar mjög. Delta Boötis er stundum kölluð Princeps. Hún er í 122 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

  • β Boötis er sjötta bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Hjarðmanninum (birtustig 3,48). Hún er risastjarna af gerðinni G8, þrisvar sinnum massameiri en sólin, 21 sinnum breiðari og 170-194 sinnum bjartari. Beta Boötis er einnig kölluð Nekkar. Hún er í um 225 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

  • θ Boötis er stjarna á meginröð af gerðinni F7 í um 47 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Hjarðmanninum (birtustig 4,05). Hún er 30% massameiri en sólin, 73% breiðari og fjórum sinnum bjartari. Þeta Boötis gengur einnig undir nafinu Asellus Primus.

  • μ Boötis er tvístirni í um 121 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Hjarðmanninum (birtustig 4,31). Kerfið samanstendur af tveimur stjörnum á meginröð, F0 og G1. Sú síðarnefnda líkist sólinni okkar mjög en sú fyrrnefnda er öllu stærri og bjartari. Mu Boötis gengur einnig undir nafninu Alkalurops sem þýðir „stafur hjarðmannsins“.

  • κ Boötis er tvístirni í um 155 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Hjarðmanninum (birtustig 4,53). Kerfið samanstendur af undirmálsstjörnu af gerðinni A8 og meginraðarstjörnu af gerðinni F1. Kappa Boötis gengur einnig undir nafninu Asellus Tertius.

  • ι Boötis er litrófstvístirni í um 95 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Hjarðmanninum (birtustig 4,75). Kerfið samanstendur af tveimur meginraðarstjörnum, A9 og A2. Báðar eru stærri og bjartari en sólin okkar. Jóta Boötis gengur einnig undir nafninu Asellus Secundus. Hægt er að greina sundur stjörnurnar með handsjónauka.

  • 38 Boötis er undirmálsstjarna af gerðinni F7 í um 153 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Hjarðmanninum (birtustig 5,76). Hún gengur einnig undir nafninu Merga.

Djúpfyrirbæri

Hjarðmaðurinn er nokkuð langt frá fleti vetrarbrautarinnar á himninum og inniheldur þess vegna tiltölulega fá markverð djúpfyrirbæri.

  • NGC 5466 er kúluþyrping í um 51.800 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er tiltölulega björt (birtustig 10) en svo gisin að hún minnir á tíðum heldur á lausþyrpingu. NGC 5466 sést best í gegnum meðalstóra og stóra áhugamannasjónauka.

  • NGC 5248 er þyrilvetrarbraut í um 60 milljón ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún tilheyrir hópi vetrarbrautar sem við hana er kenndur. NGC 5248 er dauf (birtustig 11) og sést því best í gegnum stóra áhugamannasjónauka.

  • NGC 5676 er þyrilvetrarbraut í um 100 milljóna ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er mjög dauf (birtustig 12,3) og sést því aðeins í gegnum stóra áhugamannasjónauka.

Loftsteinadrífur

Kvaðrantítar er öflug loftsteinadrífa sem stendur yfir frá 1. til 6. janúar ár hvert. Drífan nær hámarki 3. janúar og sjást þá stundum yfir 100 fremur daufir loftsteinar á klukkustund. Kvaðrantítar draga nafn sitt af stjörnumerkinu Múrkvaðrantinum (Quadrans Muralis) sem búið var til árið 1795 úr stjörnum milli stjörnumerkjanna Hjarðmannsins og Drekans en er ekki lengur í notkun. Rekja má drífuna til smástirnisins 2003 EH1.

Þann 28. apríl árið 1984 varð loftsteinastormur nálægt stjörnunni Alfa í Hjarðmanninum þegar sáust yfir 400 loftsteinar á rúmum tveimur klukkustundum. Þessi drífa, Alfa Boötítar stendur venjulega yfir frá 14. apríl til 12. maí en er í hámarki 27. til 28. apríl. Loftsteinarnir eru hægfara og tengjast hugsanlega halastjörnunni 73P/Schwassmann-Wachmann 3.

Júní Boötítar er minniháttar loftsteinadrífa sem stendur yfir frá 27. júní til 5. júlí. Drífan er í hámarki 28. júní og sjást þá 1 til 2 daufir og hægfara loftsteinar á klukkustund. Júní Boötíta má rekja til halastjörnunnar 7P/Pons-Winnecke.

Stjörnukort

Stjörnukort af Hjarðmanninum í prentvænni útgáfu er að finna hér.

Heimildir

  1. Ian Ridpath's Star Tales - Boötes

  2. http://en.wikipedia.org/wiki/Bo%C3%B6tes