Vatnsberinn

 • stjörnukort, stjörnumerki, Vatnsberinn
  Kort af stjörnumerkinu Vatnsberanum
Helstu upplýsingar
Latneskt heiti:
Aquarius
Bjartasta stjarna: β Aquarii
Bayer / Flamsteed stjörnur:
97
Stjörnur bjartari +3,00:
2
Nálægasta stjarna:
EZ Aquarii
(11,3 ljósár)
Messier fyrirbæri:
3
Loftsteinadrífur:
Eta Aquarítar
Delta Aquarítar
Sést frá Íslandi:
Að hluta

Sólin gengur leið sína eftir sólbaugnum um Vatnsberann og telst hann því eitt af stjörnumerkjum dýrahringsins. Sólin er innan marka Vatnsberans frá 16. febrúar til 11. mars (en ekki 20. janúar til 18. febrúar eins og segir í stjörnuspám).

Tunglið og reikistjörnurnar fara aldrei langt frá sólbaugnum og sjást því stundum í Vatnsberanum.

Vatnsberinn sést að kvöldlagi á haustin fram í desember en best er að skoða hann í september eða október. Hann er rétt sunnan við miðbaug himins sem þýðir að efsti hluti Vatnsberans nær tæpar 30° upp á himininn þegar hann er í hágöngu í suðri.

Uppruni

Vatnsberinn er fornt stjörnumerki og er eitt „vatnsmerkjanna“. Í þeim hópu eru einnig stjörnumerkin Steingeitin, Fiskarnir, Höfrungurinn, Suðurfiskurinn og Hvalurinn. Ástæða þss að merkin á þessu svæði eru kennd við vatn á ef til vill rætur sínar alla leið aftur til fornríkis Babýlóníumanna en sólin reikaði um þetta svæði meðan á regntímanum stóð.

Þekktasta goðsagan um stjörnumerkið tengir það við Ganýmedes Trójuprins. Seifur hreifst af pilti og sótt hart að fá hann til sín á Ólympusfjall. Brá hann sér í líki arnar (samanber stjörnumerkið Örninn) og flaug með hann upp á Ólympustind svo hann gæti borið í guðina ódáinsveigar eða nektar sem varðveitti æskublómann. Heru leist eins og venjulega illa á hinn unga prins því hún leit á hann sem keppinaut um hylli eiginmanns síns. Svo fór að lokum að Seifur kom Ganýmedesi fyrir á himninum sem stjörnumerkið Vatnsberann. Þar hellir hann úr bikar sínum vatni til Suðurfisksins.

Stjörnur

stjörnumerki, stjörnuhiminn, Vatnsberinn
Stjörnumerkið Vatnsberinn og nágrenni. Mynd úr Stellarium hugbúnaðinum

Þótt Vatnsberinn sé stórt merki inniheldur hann fáar bjartar stjörnur — aðeins tvær stjörnur eru bjartari en 3. birtustig.

 • β Aquarii eða Sadalsuud (happastjarnan) er bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Vatnsberanum (birtustig 2,90). Hún er þrístirni í um 540 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Bjartasta stjarna kerfisins er risastjarna af gerðinni G0, um sex sinnum massameiri en sólin, 50 sinnum breiðari og 2.300 sinnum bjartari.

 • α Aquarii eða Sadalmelik er næst bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Vatnsberanum (birtustig 2,95). Hún er reginrisastjarna af gerðinni G2, rúmlega sex sinnum massameiri en sólin, 77 sinnum breiðari og 3000 sinnum bjartari. Alfa Aquarii er í um 520 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

 • δ Aquarii eða Skat er þriðja bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Vatnsberanum (birtustig 3,27). Hún er hvít meginraðarstjarna af gerðinni A3 í um 160 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

 • ζ Aquarii eða Sadaltager er fjórða bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Vatnsberanum (birtustig 3,65). Hún er tvístirni, hugsanlega þrístirni, í um 92 ljósára fjarlægð. Bjartari stjarnan, Zeta Aquarii A, er gulhvít meginraðarstjarna af gerðinni F3 en sú daufari, Zeta Aquarii B, er gulhvít undirmálsstjarna af gerðinni F6 sem er að þróast í risastjörnu. Zeta Aquarii B er hugsanlega tvístirni og er fylgistjarnan þá líklega rauður dvergur.

 • 88 Aquarii er fimmta bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Vatnsberanum (birtustig 3,68). Hún er appelsínugul risastjarna af gerðinni K1 í um 271 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

 • λ Aquarii eða Hydor (vatn) er sjötta bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Vatnsberanum (birtustig 3,73). Hún er rauð risastjarna af gerðinni M2, í um 390 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

 • ε Aquarii eða Albali er sjöunda bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Vatnsberanum (birtustig 3,78). Hún er meginraðarstjarna af gerðinni A1 í um 208 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

 • γ Aquarii eða Sadachbia er áttunda bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Vatnsberanum (birtustig 3,86). Hún er meginraðarstjarna af gerðinni A0 í um 164 ljósára fjarlægð frá jörðinni.

 • θ Aquarii er tólfta bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Vatnsberanum (birtustig 4,17). Hún er risastjarna af gerðinni G8, tvisvar sinnum massameiri og 12 sinnum breiðari en sólin, í um 187 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Þeta Aquarii gengur einnig undir nafninu Ancha sem þýðir mjöðmin.

 • κ Aquarii er tvístirni í um 214 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Vatnsberanum (birtustig 5,04). Stærri og bjartari stjarna kerfisins er appelsínugul risastjarna af gerðinni K2 sem er 13 sinnum breiðari en sólin og 60 sinnum bjartari. Kappa Aquarii ber einnig nafnið Situla sem þýðir „fata“ eða „krukka“.

 • Gliese 876 er rauður dvergur í um 15 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Vatnsberanum. Hún er aðeins 33% af massa sólar, 36% af breidd hennar og 1,3% af birtunni. Hingað til hafa fundist fjórar fjarreikistjörnur á sveimi um stjörnuna, þar af tvær í lífbelti hennar en þær eru gasrisar, svipaðar Júpíter. Hinar tvær eru annars vegar risajörð og hins vegar gasreikistjarna á stærð við Úranus.

Djúpfyrirbæri

Í Vatnsberanum eru fáein áhugaverð djúpfyrirbæri. Í merkinu eru þrjú fyrirbæri úr Messierskránni, tvær kúluþyrpingar og eitt smástirni, auk tveggja frægra hringþoka úr NGC skránni.

 • Messier 2 er kúluþyrping í um 37.500 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er björt og sést með berum augum, við bestu aðstæður, sem þokublettur um 5 gráðum norður af stjörnunni Beta Aquarii.

 • Messier 72 er kúluþyrping í um 53.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er í hópi daufari kúluþyrpinga í Messierskránni (birtustig 9,3) og sést best með stjörnusjónaukum.

 • Messier 73 er samstirni fjögurra stjarna í um 2.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Það er skammt frá Messier 72 og Satúrnusarþokunni og sést best í stjörnusjónauka.

 • NGC 7009 eða Satúrnusarþokan er hringþoka í 2.000 til 4.000 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Hún er dauf (birtustig 12,8) og sést best í gegnum stóra áhugamannasjónauka, um eina gráðu vestur af stjörnunni Nu Aquarii.

 • NGC 7252 eða Atóm-fyrir-frið er vetrarbrautasamruni í 220 milljón ljósára fjarlægð.

 • NGC 7293 eða Gormþokan er hringþoka í um 700 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Nokkuð snúið getur reynst að koma auga á þessa frægu þoku í gegnum sjónauka því hún er mjög víðfeðm. Hægt er að sjá hana með handsjónauka eða litlum stjörnusjónauka við mjög góðar aðstæður.

Loftsteinadrífur

Eta Aquarítar er loftsteinadrífa í meðallagi sem stendur yfir frá 21. apríl til 12. maí eða svo. Drífan er í hámarki 5.-6. maí og sjást þá um 10 loftsteinar á klukkustund frá norðurhveli en athugendur á suðurhveli geta séð um 30 loftsteina á klukkustund. Eta Aquarítar er önnur tveggja loftsteinadrífa sem rekja má til þess, að jörðin ferðast í gegnum ryk halastjörnu Halleys (hin er Óríonítar).

Syðri Delta Aquarítar er loftsteinadrífa í meðallagi sem stendur yfir frá 14. júlí til 18. ágúst. Drífan er í hámarki 29.-30. júlí og sjást þá alla jafna 15 tl 20 loftsteinar á klukkustund. Nyrðri Delta Aquarítar standa hins vegar yfir frá 16. júlí til 10. september. Þeir eru í hámarki 13. til 14. ágúst og sjást þá í kringum 10 loftsteinar á klukkustund.

Stjörnukort

Stjörnukort af Vatnsberanum í prentvænni útgáfu er að finna hér.

Heimildir

 1. Ian Ridpath's Star Tales - Aquarius the water carrier

 2. http://en.wikipedia.org/wiki/Aquarius_(constellation)

 3. http://meteorshowersonline.com/eta_aquarids.html

 4. http://meteorshowersonline.com/showers/delta_aquarids.html