Róteindabogi á himni — Sjaldséð gerð norðurljósa

Sævar Helgi Bragason 17. mar. 2017 Blogg

Fimmtudagskvöldið 16. mars síðastliðinn sást sjaldséð gerð norðurljósa yfir Íslandi, svokallaður róteindabogi (proton arc).

  • Róteindabogi, norðurljós

Fimmtudagskvöldið 16. mars 2017 sást sjaldséð gerð norðurljósa yfir Íslandi, svokallaður róteindabogi (proton arc).

Með berum augum var boginn langur og mjór með stefnu frá austri til vesturs. Hann var hátt á lofti og nokkuð þéttur og gráleitur en fjólubláir tónar sáust naumlega með berum augum. Kemur það heim og saman við þá staðreynd að róteindanorðurljós eru björtust í fjólubláa og útfjólubláa hluta rafsegulrófsins sem mannsaugað greinir illa eða alls ekki.

Algengast er að norðurljós verð til þegar rafeindir úr sólvindinum rekast á sameindir og atóm í efstu lögum lofthjúps Jarðar svo þau örvast og gefa frá sér ljós. Þótt róteindabogar dragi nafn sitt af róteindunum sem taldar eru mynda þá, greinir menn á um hvort þeir myndist í raun og veru af völdum róteinda. Myndun boganna er því enn ráðgáta.

Bragi Kort , ljósmyndari og annar eigandi Arcticshots.is , tók þessar fallegu myndir af róteindaboganum úr Hvalfirði kl. 22:00 á fimmtudagskvöldið.

„Ég hef nú séð ýmislegt í þessum ferðum, allar útgáfur af norðurljósum en ég minnist þess ekki að hafa séð þetta áður svona greinilega a.m.k. ekki með þessum fjólublá lit. Fyrst hélt ég að þetta væri ský en sá svo að það gat eiginlega ekki verið,“ sagði Bragi.

Bjarta ljósrákin hægra megin við bogann er japanska gervitunglið H-2A R/B.  Fyrir ofan fjallið sést stjörnumerkið Ljónið en vinstra megin við bogann glittir í Karlsvagninn.

Róteindabogi, norðurljósRóteindabogi (fjólublái boginn) og hefðbundin norðurljós yfir Hvalfirði fimmtudagskvöldið 16. mars 2017. Myndir: © Bragi Kort

Róteindabogi, norðurljós