Galíleótunglin

  • Galíleótunglin
    Galíleótunglin

Galíleótunglin fundust í janúar 1610 þegar ítalinn Galíleó Galílei beindi sjónauka sínum á Júpíter. Galíleó var fyrsti maðurinn sem sá fylgihnetti á braut um aðra reikistjörnu sem renndi stoðum undir sólmiðjukenninguna sem þá var að ryðja sér til rúms. Galíleó nefndi tunglin Medíci-stjörnurnar til heiðurs velunnurum sínum í Medíci stórhertogaættinni í Toskana á Ítalíu. Í dag eru Galíleótunglin nefnd Íó (Jó), Evrópu, Ganýmedes og Kallistó eftir fjórum af elskhugum Seifs.

Öll tunglin fjögur snúast um Júpíter í miðbaugsfleti reikistjörnunnar. Frá jörðu séð sjáum við þennan flöt á rönd svo tunglin hreyfast fram og aftur fyrir Júpíter á nokkurra daga fresti. Umferðartíminn er fremur skammu eða frá 1,8 dögum (Íó) upp í 16,7 daga (Kallistó), svo auðvelt er að greina færslu tunglanna milli nátta, jafnvel á einni nóttu. Þessi hraða færsla varð til þess að Galíleó áttaði sig fljótt á að hnettirnir voru á sveimi umhverfis Júpíter, ekki ósvipað og reikistjörnurnar hreyfðust umhverfis sólina.

Galíleótunglin eru nógu björt til að sjást með berum augum. En hvers vegna þurfti Galíleó þá sjónauka til að finna þau? Ástæðan er sú að frá jörðu séð er hornbilið milli Júpíters og tunglanna mjög lítið. Kallistó kemst aldrei meira en 10 bogamínútur frá Júpíter og hin tunglin enn styttra. Með berum augum týnast tunglin í glýjunni frá Júpíter, en með handsjónaukum og litlum stjörnusjónaukum er auðvelt að koma auga á þau.

Bestu ljósmyndir sjónauka á jörðu niðri sýna sárafá smáatriði á yfirborðum Galíleótunglanna. Þess vegna hefur nánast öll okkar þekking á þessum merku tunglum borist okkur frá gervitunglum sem heimsótt hafa Júpíter.

Árin 1973 og 1974 flugu Pioneer 10 og 11 fyrst geimfara framhjá tunglunum. Ljósmyndir þeirra eru í fremur lítilli upplausn svo fátt markvert sást. Mun meiri upplýsingum var aflað þegar Voyager 1 og Voyager 2 tóku þúsundi ljósmynda er þau flugu framhjá Júpíter árið 1979. Undir lok 20. aldar gerði svo Galíleó geimfarið mjög ítarlegar rannsóknir á Júpíter og Galíleótunglunum.

Uppgötvun

sjónauki Galíleós
Galíleó Galílei hratt af stað vísindabyltingu þegar hann uppgötvaði fjögur fylgitungl Júpíters

Árið 1609 frétti Ítalinn Galíleó Galílei af uppfinningu hollenska sjóntækjafræðingsins Hans Lipperhey sem gerði manni mögulegt að sjá fjarlæga hluti miklu nær en þeir voru í raun. Galíleó komst fljótt á snoðir um hvernig tækið var gert og smíðaði sér sjónauka sem á þeim tíma var betri en nokkur annar.[1]

Að kvöldi hins 7. janúar 1610 beindi Galíleó sjónaukanum sínum á Júpíter sem þá var í nautsmerkinu. Með aðeins 30x stækkun sá hann þrjár litlar stjörnur í beinni línu við reikistjörnuna sem hann í fyrstu taldi fastastjörnur. Á þessum tíma stefndi Júpíter í vesturátt á himninum eða aftur á bak miðað við fastastjörnurnar. Júpíter ætti því að vera vestan við stjörnurnar næsta kvöld. Kvöldið eftir var skýjað en hinn 10. janúar sá hann tvær stjörnur vestan Júpíters en sú þriðja var hvergi sjáanleg. Hinn 13. janúar voru stjörnurnar orðnar fjórar talsins. Tveimur kvöldum síðar var Galíleó orðinn sannfærður um að ekki var um fastastjörnur að ræða heldur tungl sem fylgdu Júpíter á leið hans umhverfis sólina.[2]

Fram að þessu hafði sá annmarki verið á sólmiðjukenningunni, að jörðin ein hefði fylgihnött. Með uppgötvun sinni sýndi Galíleó fram á að fleiri reikistjörnur hefðu fylgihnetti sem renndi styrkum stoðum undir sólmiðjukenninguna.

Landi Galíleós, stjörnufræðingurinn Símon Maríus, hélt því lengi fram að hann hefði sjálfur fundið tungl Júpíters nokkrum vikum á undan Galíleó, eða í nóvember 1609. Maríus sagðist ekki hafa byrjað að skrá athuganir sínar fyrr en í janúar 1610. Því var ógjörningur að staðfesta fullyrðingar hans.

Medíci stjörnurnar

Sidereus Nuncius
Forsíða Sidereus Nuncius

Galíleó flýtti sér að birta niðurstöður athugana sinna enda hugðist hann færa sér uppgötvunina í nyt, bæði fjárhagslega og framalega. Aðeins tæpum tveimur mánuðum síðar, í mars 1610, gaf Galíleó út bókina Sidereus nuncius eða Sendiboði stjarnanna í Feneyjum. Árið áður (1609), árið sem Galíleó beindi sjónaukanum sínum í fyrsta sinn til himins, hafði Jóhannes Kepler gefið út bókina Astronomia nova eða Ný stjörnufræði þar sem hann setur fram tvö fyrstu lögmál sín um hreyfingar reikistjarna í sólkerfinu. Verk þeirra Galíleós og Keplers urðu upphafið að sögu stórkostlegra uppgötvana í stjörnufræði og hrundu af staf vísindabyltingu sem hafði djúpstæð áhrif á hugmyndir manna um alheiminn. Árið 2009 var verka þessa merku vísindamanna minnst á alþjóðlegu ári stjörnufræðinnar 2009.

Hróður Galíleós barst víða eftir uppgötvunina. Hann sá sér leik á borði og nefndi tunglin Medíci-stjörnurnar eftir stórhertogaættinni í Toskana, þá sérstaklega bræðrunum Cosímó, Francesco, Carlo og Lórenzo. Galíleó skrifaði langt bréf til Cosímós annars, sem varð stórhertogi ári fyrr, en Galíleó hafði kennt honum stærðfræði árið 1605. Í bréfinu sóttist Galíleó eftir starfi sem stærðfræðingur og náttúruspekingur við hirð Cosímós. Lagði Galíleó ríka áherslu á að þurfa ekki að sinna kennslu en gæti þess í stað helga sig rannsóknum sínum.[1]

Elskhugar Seifs

Árið 1614 birti Símon Maríus nöfnin á tunglunum sem við notum í dag í bók sinni Mundus Jovialis:

Skáldin hafa álasað Júpíter mikið í frásögnum sínum af óvenjulegri ástsýki hans. Sérstaklega er minnst á þrjár yngismeyjar sem Júpíter á að hafa biðlað til leynilega en með góðum árangri: Íó, dóttir árinnar Inakus, Kallistó frá Lýkaon, Evrópa frá Agenos. Svo var það Ganýmedes, hinn myndarlegi sonur Tros konungs, sem Júpíter í arnarlíki bar á baki sér til himna …. Ég tel, þar af leiðandi, að það sé ekkert að því þótt ég kalli Fyrsta Íó, Annað Evrópu, Þriðja Ganýmedes, Fjórða Kallistó….

Það var Kepler sem stakk upp á þessum sérstöku nöfnum, þegar við hittumst á Ratisbonhátíðinni í október 1613.

Galíleó neitaði að nota nöfn Maríusar og vísaði þess í stað til tunglanna sem I, II, III og IV í röð frá Júpíter. Á miðri 19. öld fengu nöfnin Íó, Evrópa, Ganýmedes og Kallistó almenna viðurkenningu, fyrst og fremst vegna þess hve ruglingslegt var að vísa tölulega til tunglanna þegar fleiri tungl fundust á sveimi umhverfis Júpíter.[3]

Bundinn möndulsnúningur

Með sjónauka á jörðinni sést hvernig birta tunglanna breytist örlítið samfara færslu þeirra um Júpíter. Ástæðan er sú að tunglin snúast um eigin ás auk þess að snúast um Júpíter. Þess vegna sjáum við dökk og ljós svæði á yfirborðum tunglanna birtast og hverfa til skiptis. Birtubreytingarnar eru í samræmi við umferðartíma tunglanna sem segir okkur að möndulsnúningur þeirra sé bundinn. Það þýðir að tunglin snúast einu sinni um möndul sinn á sama tíma og þau ljúka einni umferð um Júpíter. Bundni möndulsnúningurinn merkir að snúningstími og umferðartími hvers tungls er í 1:1 hlutfalli.

Einfalt hlutall er sömuleiðis milli umferðartíma Íó, Evrópu og Ganýmedesar, þriggja innstu Galíleótunglanna. Ganýmedes er 7,155 daga að ljúka einni hringferð um Júpíter, en á sama tíma lýkur Evrópa tveimur hringferðum og Íó fjórum. Umferðartímar Íó, Evrópu og Ganýmedesar eru því í 1:2:4 hlutfalli.

Þetta sérstaka samband tunglanna hlýst af þyngdarkraftinum sem verkar á tunglin innbyrðis. Kraftarnir geta verið mjög sterkir vegna þess að tunglin komast mjög nærri hvert öðru. Þegar Íó og Evrópa eru næst hvert öðru eru innan við 200.000 km á milli þeirra sem er um 2/3 af fjarlægðinni milli jarðar og tunglsins.

Kallistó er tiltölulega langt frá hinum tunglunum. Þyngdartog Kallistó á hin tunglin þrjú er því fremur veikt og ekkert samband milli umferðartíma Kallistó og hinna tunglanna. 

Eðlismassar tunglanna

Lykilmarkmið Galíleóleiðangursins var nákvæm ákvörðun eðlismassa tunglanna fjögurra. Þekking á eðlismassa hnattar gefur góðar vísbendingar úr hvaða efnum hann er og hvernig uppbyggingu innviða hans er háttað. En áður en við getum fundið eðlismassan þurfum við fyrst að vita hver massinn er. Þetta má gera með því að mæla nákvæmlega þyngdartogs hvers tungls í geimfarið. Þegar massinn og þvermálið eru þekkt, er sáraeinfalt að reikna út eðlismassa hvers tungls fyrir sig (massi deilt með rúmmáli).

Útreikningar sýna að Evrópa er massaminnsta tunglið. Massi þess er aðeins tveir-þriðju af massa tunglsins okkar. Ganýmedes reyndist langmassamestur, tvöfalt massameiri en tunglið okkar. Á hæla hans kom Kallistó, sem er um einum og hálfum sinnum massameiri en tunglið.

Þrátt fyrir að Ganýmedes og Kallistó séu langmassamestu tunglin, er eðlismassi þeirra lægri en Íó og Evrópu og tunglsins, eða innan við 2000 kg/m3. Til samanburðar er eðlismassi tunglsins 3344 kg/m3 sem segir okkur að það sé mestmegnis úr bergi. Lágur eðlismassi Ganýmedesar og Kallistó bendir til þess að þau séu líklega úr tiltölulega jafnri blöndu bergs og vatníss. Vatnsís hefur miklu lægri eðlismassa en berg en við jafn háan þrýsting og fyrirfinnst í innviðum tunglanna, er ísinn grjótharður.

Útilokað er að vatnsís sé meginuppistaða Íó og Evrópu. Eðlismassi Íó er 3529 kg/m3, örlítið meiri en eðlismassi tunglsins, en Evrópu 3018 kg/m3. Báðir þessir eðlismassar eru dæmigerðir fyrir berg. Þess vegna drögum við þá ályktun að bæði Íó og Evrópa séu mestmegnis úr bergi.

Litrófsmælingar geyma bestu sönnunargögnin fyrir tilvist vatnsíss á Galíleótunglunum. Í litrófi sólarljós sem endurvarpast af Evrópu, Ganýmedesi og Kallistó eru gleypilínur í innrauðum bylgjulengdum, sem einkennir vatníssameindir. Eðlismassi Evrópu sýnir að hún er að mestu úr bergi svo ísinn hlýtur að vera á yfirborðinu. Íó er eina Galíleótunglið sem ber engin merki íss, hvorki á yfirborði né í innviðunum.

Samanburður á Galíleótunglunum

Tungl
Mynd
Meðalfjarlægð frá Júpíter (km)
Umferðartími (dagar)
Þvermál (km)
Massi (kg)
Messi (tungl=1)
Eðlismassi (kg/m3)
Endurvarp
Íó (Jó)
íó, jó
421.600
1,769
3.642
8,932 x 1022
1,22
3.529
0,63
Evrópa
evrópa
670.900
3,551
3.120
4,791 x 1022
0,65
3.018
0,64
Ganýmedes
Ganýmedes
1.070.000
7,155
5.268
1,482 x 1023
2,02
1.936
0,43
Kallistó
Kallistó
1.883.000
16,689
4.800
1,077 x 1023
1,47
1.851
0,17

Myndun

Taflan hér fyrir ofan sýnir að eðlismassi Galíleótunglanna lækkar með aukinni fjarlægð frá Júpíter. Þau tungl sem eru fjærst reikistjörnunni innihalda mun meiri ís en þau sem eru nær. Sama á við reikistjörnur sólkerfisins. Með aukinni fjarlægð frá sólinni minnkar eðlismassi reikistjarnanna smám saman. Eðlismassi Merkúríusar er 5000 kg/m3 en er rúmlega 1000 kg/m3 þegar komið er alla leið til Satúrnusar. Hvers vegna gerist þetta? Besta skýringin er sú að Galíleótunglin hafi myndast umhverfis Júpíter á svipaðan hátt og reikistjörnurnar um sólina, en á miklu smærri skala.

Kenningar um myndun sólkerfisins benda til að rykagnir í sólkerfisþokunni hafi leikið lykilhlutverk í myndun reikistjarnanna. Í innri hluta þokunnar, nálægt hinni glóandi frumsól, gátu aðeins eðlisþungar bergagnir verið til staðar sem síðan mynduðu hinar þéttu bergreikistjörnur innra sólkerfisins. Í svalari hlutum þokunnar mynduðust gasrisar og tungl þeirra úr eðlisléttari efnum eins og vatni og ammóníaki.

Júpíter var umlukinn gas- og rykskýi á fyrstu stigum myndunar sinnar, ekki ósvipað þokunni sem umlék sólina. Miðja þessarar þoku var risastór skel úr vetni og helíum en í ytri hlutanum voru eðlisþyngri efni sem söfnuðust saman og mynduðu smærri fasta hnetti. Þessir hnettir urðu að Galíleótunglunum.

Þótt Júpíter hafi myndast nokkuð langt frá sólinni, var þokan sem hann myndaðist úr ekki köld að öllu leyti. Vegna svonefnds Kelvin-Helmholtz samdráttar geislaði Júpíter talsverðri orku frá sér. Þess vegna hefur hitastigið nálægt Júpíter verið talsvert hærra en fjær honum. Útreikningar sýna að aðeins berg gæti þést á þeim stöðum þar sem Íó og Evrópa eru en utar var vatn meginuppistaðan og þar mynduðustu Ganýmedes og Kallistó. 

Galíleótunglin
Innviðir Galíleótunglanna

Íó

íó, júpíter
Júpíter og Íó á mynd frá New Horizons geimfarinu. Ef vel er að gáð sést bláleitur gosstrókur úr eldfjallinu Tvashtar stíga upp úr norðurpól tunglsins.

Íó er innst og næst minnst Galíleótunglanna en fjórða stærsta tungl sólkerfisins. Tunglið var nefnt eftir gyðjunni Íó, dóttur fljótsguðsins Ínakkosar, sem Seifur varð ástfanginn af.

Yfirborðið er ótrúlega fjölbreytt. Þegar Voyager-geimförin flugu þar framhjá bjuggust flestir við því að sjá gamalt yfirborð alsett gígum. Það sem þeir sáu minnti frekar á matarmikla eða misheppnaða pítsu. Yfirborðið var nefnilega mjög ungt og jarðfræðilega virkt og því síbreytilegt. Á yfirborðinu má finna öskjur sem eru margar hverjar nokkurra kílómetra djúpar, stöðuvötn úr bráðnum brennisteini, háreist fjöll og eldfjallarásir. Allt tunglið er eldvirkt og næstum hvert sem litið er spúir eitthvert eldfjallið brennisteinssamböndum á yfirborðið og er það orsökin fyrir furðulegum litum tunglsins.

Eldvirknin á ekki rætur að rekja til flekahreyfinga eins og á jörðinni heldur til flóðkrafta í iðrum Íós vegna nálægðar við Júpíter. Íó snýr alltaf sömu hliðinni að Júpíter, eins og tungl jarðar að jörðu, og þar sem brautin er ekki alveg hringlaga, vegna flóðkrafta frá Evrópu og Ganýmedes, verða töluverðar breytingar á styrk flóðkraftanna.

Við þetta aflagast braut Íós sem veldur því að lögunin tunglsins breytist. Við það myndast núningsvarmi í iðrum Íós á kostnað brautarhverfiþungans. Þess vegna getur Íó viðhaldið slíkri eldvirkni. Ef þetta ástand væri ekki til staðar hefði eldvirknin dáið út fyrir löngu. Eldvirkni á borð við þá sem er á Íó er óvíða jafn víðtæk og ef miðað er við stærð hnattarins er hann  eldvirkasti hnöttur sólkerfisins.

Talið er að Íó dæli um einu tonni af gosefnum á sekúndu út í geiminn. Mikill hluti efnisins sest á yfirborð annarra tungla, sem sést til dæmis á yfirborði Amalþeu, en einnig myndast svokallaður hjólflötur eða hringfeldi (e. torus), kleinuhringslaga belgur, úr leiðandi rafgasi eftir allri braut Íós. Júpíter hefur gríðarsterkt segulsvið og því myndast rafstraumur milli Íós og Júpíters þegar rafgas ferðast eftir segulsviðslínunum. Afl þessa straums er um það bil eitt Gígavatt (milljarður vatta).

Meðalhitinn við yfirborðið er um -140°C. Gögn frá Galíleó geimfarinu benda til að Íó hafi örþunnan lofthjúp úr brennisteinsdíoxíði og öðrum gösum.

Evrópa

Evrópa, ísskorpa
Sprungin ísskorpa Evrópu. Leynist haf og líf undir ísnum?

Evrópa er næst innst og minnst Galíleótunglanna, aðeins smærra en tungl jarðar. Tunglið er nefnt eftir dóttur Agenors konungs í Fönikíu sem Seifur varð ástfangin af og nálgaðist í nautslíki.

Evrópa er einn allra sléttasti hnöttur sólkerfisins. Yfirborðið er að mestu leyti sprunginn ís þar sem vatn úr miklu hafi undir þykkri ísskorpu hefur gusast upp. Gígar eru fáir sem engir sem bendir til þess að yfirborðið sé ungt. Sprungurnar eru líklega afleiðing skorpuhreyfinga sem tengjast braut, snúningi og innri gerð Evrópu. Líkt og Íó snýr Evrópa ætíð sömu hlið að Júpíter.

Þó svo að á Evrópu sé mikill kuldi helst vatnið undir ísnum á fljótandi formi. Það gerist vegna mikils þrýstings og svipaðrar varmamyndunar og á sér stað á Íó. Sumir vísindamenn telja líklegt að eldvirkni sé inni í tunglinu. Það gæti þýtt að innri hitinn kæmi í veg fyrir að vatni frjósi og því hafi myndast haf sem nær um allan hnöttinn. Rannsóknir á lífverum í neðansjávarhverum á jörðinni hafa gefið vísindamönnum vonarglætu um að líf gæti hugsanlega hafa myndast við svipaðar aðstæður á Evrópu.

Ganýmedes

Galileo regio, Ganýmedes
Loftsteinagígar á Galíleósvæðinu á Ganýmedesi

Ganýmedes er næst yst og stærst Galíleótunglanna. Tunglið er nefnt eftir prinsinum Ganýmedesi frá Tróju og ástsveini Seifs. Ganýmedes er stærsta tungl sólkerfisins, stærri en reikistjarnan Merkúríus og allar dvergreikistjörnurnar.

Ganýmedes er að mestu leyti þakinn ís líkt og Evrópa. Hluti yfirborðsins virðist jarðfræðilega ungur en annar hluti virðist gamall. Yngra svæðið er ljósleitt og einkennist af miklum rásum og hryggjum sem virðast hafa orðið til þegar fljótandi vatn fyllti upp í víðáttumiklar dældir og sprungur í eldri ísskorpu. Sprungurnar hafa síðan breikkað og fjöldi samsíða hryggja og dælda myndast á þessum nýju svæðum er skorpan gliðnaði. Eldra svæðið er dökkt og einkennist af loftsteinagígum. Gígar sjást þó á báðum svæðum.

Fjöldi gíga segir okkur að aldur yfirborðsins sé á bilinu 3 til 3,5 milljarðar ára. Gígar liggja einnig yfir rásakerfunum en það merkir að þau séu fremur gömul. Á yfirborðinu má einnig sjá yngri gíga. Gígarnir eru fremur flatir og ekki er að sjá að þar séu hringfjöll sem eru algeng á tunglinu og Merkúríusi. Ástæðuna er líklega að finna í veikri ísskorpunni.

Ganýmedes er eina tunglið í sólkerfinu sem hefur segulsvið, svo vitað sé, sem líklega má rekja til iðuhreyfinga í fljótandi málmkjarna tunglsins.

Kallistó

Kallistó
Kallistó er ysta og næst stærsta Galíleótunglið.

Kallistó er yst og næst stærst Galíleótunglanna. Kallistó er þriðja stærsta tungl sólkerfisins á eftir Ganýmedesi og Satúrnusartunglinu Títan; aðeins stærra en reikistjarnan Merkúríus og stærra en allar dvergreikistjörnurnar. Tunglið er nefnt eftir vatnadísinni Kallistó sem Seifur elskaði en Hera hataði.

Yfirborð Kallistós er að hluta til úr ís eins og yfirborð Evrópu og Ganýmedesar. Yfirborðið er mjög gígótt og því mjög gamalt. Það er dökkleitt því geimryk hefur sest á yfirborðið og hulið ísinn. Yfirborðið Kallistó er eitt hið elsta og gígóttasta í sólkerfinu og hefur ekki tekið miklum breytingum frá því að loftsteinar rákust á það fyrir um 4 milljörðum ára eða stuttu eftir að sólkerfið myndaðist. Þar sem loftsteinar hafa nýlega rekist á yfirborðið sjást hvítar skellur þar sem gat hefur komið á ryklagið, fljótandi vatn flætt upp og myndað nýjan ís.

Stærstu gígarnir eru umluktir hringum sem líkjast risastórum sprungum en slést hafa út vegna hreyfingar íssins. Stærsti gígurinn á Kallistó heitir Valhöll. Hann er 4000 km í þvermál og er  gott dæmi um fjölhringjadæld sem er afleiðing mikils áreksturs. Önnur dæmi eru Ásgarðar, sem einnig er á Kallistó, Austurhafið (e. Mare Orientale) á tunglinu og Caloris-dældin á Merkúríusi.

Í gígum Kallistós er ekki að finna hringfjöllin, geislamynduðu rákirnar og miðdældirnar, sem gjarnan sjást í gígum tunglsins og Merkúríusar. Myndir sýna að á sumum svæðum hafa smáir gígar að mestu afmáðst. Það bendir til einhvers konar jarðfræðilegrar virkni.

Nöfn flestra kennileita á yfirborði Kallistós eru fengin úr norrænni goðafræði. Á Kallistó eru til að mynda gígarnir Ýmir, Askur og Búri.

Heimildir

  1. Andri Steinþór Björnsson. 2004. Vísindabyltingin og rætur hennar í fornöld og á miðöldum. Háskólaútgáfan, Reykjavík.
  2. Hoskin, Michael. 1997. The Cambridge Illustrated History of Astronomy. Cambridge University Press, Cambridge.
  3. Baalke, Ron. The Discovery of the Galilean Satellites. Heimasíða NASA/JPL. Sótt 06.09.09.
  4. Freedman, Roger og Kaufmann, William. 2004. Universe, 7th Edition. W. H. Freeman, New York.
  5. Bagenal, Fran; Dowling, Timothy E. og McKinnon, William B (ritstj.). 2007. Jupiter: The Planet, Satellites and Magnetosphere (Cambridge Planetary Science). Cambridge University Press, Massachusetts.
  6. Beatty, J. Kelly; Petersen, Carolyn Collins og Chaikin, Andrew (ritstj.). 1998. The New Solar System. Cambridge University Press, Massachusetts.
  7. McFadden, Lucy-Ann; Johnson, Torrence og Weissman, Paul (ritstj.). 2006. Encyclopedia of the Solar System. Academic Press, California.
  8. Pasachoff, Jay. 1998. Astronomy: From the Earth to the Universe, fimmta útgáfa. Saunders College Publishing, Massachusetts.

Hvernig vitna skal í þessa grein

  • Sævar Helgi Bragason (2010). Galíleótunglin. Stjörnufræðivefurinn. http://www.stjornuskodun.is/solkerfid-large/jupiter/galileotunglin (sótt: DAGSETNING).