Daglegt líf í geimnum

Hvernig fara geimfarar á klósettið?

Það væri lygi að segja að ferðalag til tunglsins hafi aðeins verið ánægjan ein. Það var ekki aðeins erfitt fyrir þrjá menn að dvelja saman í örlitlu rými í tæplega tvær vikur, heldur var eitt við lífið í geimnum sem geimfararnir þoldu ekki: Að fara á klósettið.

Reyndar eru ýkjur að segja að geimfararnir hafi farið á klósettið, það var nefnilega ekkert klósett í Apollo geimförunum. En hvernig fóru geimfararnir þá að því, að kasta af sér vatni og ganga örna sinna?

Úrgangur var eitt stærsta vandamálið sem leysa þurfti. Þegar Apollo geimfarið var hannað var ekki til neitt sem heitir geimklósett. Fyrsta geimklósettið fór ekki út í geiminn fyrr en árið 1973 í Skylab geimstöð Bandaríkjamanna. Auk þess var Apollo geimfarið of lítið fyrir slíkan búnað. Þess í stað urðu tunglfararnir að sætta sig við, í tvær vikur, að nota sama kerfi og var þróað fyrir Gemini geimferðirnar: Slöngur og poka.

Í Apollo geimfarinu var ekki hægt að fara afsíðis og geimförunum fannst oft erfitt að athafna sig fyrir framan félaga sína. Það versta var þó þyngdarleysið. Í þyngdarleysinu svífur nefnilega allt. Bókstaflega allt.

Til að kasta af sér vatni fékk hver geimfari úthlutað gúmmíi, nokkurs konar smokki með opum á báðum endum. Annað opið var fest á typpið en hitt á hólk með loku sem var fastur við poka sem safnaði þvaginu. Safnpokinn gat tekið við um það bil 1,2 lítrum af þvagi en af hreinlætisástæðum fékk hver geimfari sinn eiginn þvagpoka.

Þegar geimfarinn hafði lokið sér af, var hólknum lokað og gúmmíð tekið af en pokinn síðan tengdur við aðra slöngu sem föst var við loku eða ventil í stjórnklefanum. Með því að ýta á einn takka var þvaginu dælt úr pokanum og út í geiminn. Þegar þvagið kom út í geiminn fraus það og myndaði ískristalla sem glitruðu fallega í sólskininu. Þegar einn geimfari var spurður að því, hvað væri það fallegasta sem hann hefði séð í geimnum, svaraði hann: „Þvaglosun við sólsetur“.

Kúkað í plastpoka

Enn verra var að gera númer 2 en til þess þurfti að nota plastpoka. Geimfari lagði poka einfaldlega upp að rassinum, límdi hann á rasskinnarnar með lími sem var á pokanum og gekk örna sinna.

Geimfarinn skeindi sig með klósettpappír, setti svo pappírinn í pokann en áður en hann lokaði pokanum, varð hann að setja sótthreinsiefni ofan í til að draga úr bakteríuvexti og hnoða það við, að sjálfsögðu utan frá. Síðan var saurpokanum lokað, hann settur ofan í annan poka og síðan komið haganlega fyrir í kæligeymslu í geimfarinu. Það var nefnilega ekki hægt að opna gluggann eða fleygja pokunum út.

Þegar heim til jarðar var komið grannskoðuðu læknar og næringarfræðingar saurinn. Hvert einasta sýni var vigtað og skrásett og má meira að segja finna allar tölurnar á vefsíðu NASA, ef svo ólíklega vill til að einhver hafi áhuga. Þetta var gert til að kanna hvaða áhrif þyngdarleysið hefði á meltinguna.

Að ganga örna sinna gat tekið upp undir klukkustund, sem var önnur ástæða fyrir því að geimfararnir reyndu að fresta því eins lengi og mögulegt var. Til að draga úr þörfinni á að kúka á meðan tunglferð stóð, borðuðu geimfararnir mat sem búinn var til með það fyrir augum, að skila eins litlum úrgangi og mögulegt var. Tveimur vikum fyrir geimskot byrjuðu þeir á slíku mataræði.

Geimmatur

En hvað var á matseðli geimfaranna?

Áður en menn fóru út í geiminn í fyrsta sinn, óttuðust sumir að geimfari gæti kafnað við það eitt að reyna að kyngja mat í þyngdarleysi. Ýmsir óttuðust líka að menn gætu ekki melt mat eðlilega. Ekki bætti heldur úr skák að geimförin og geimferðirnar settu miklar skorður á mataræði geimfaranna. Einnig efuðust margir um, að hægt væri að útbúa góðan mat fyrir langar, mannaðar geimferðir.

Í fyrstu fékk geimmaturinn ekki háa einkunn hja geimförunum. Maturinn þurfti að sjálfsögðu ekki að vera verðugur Michelin stjörnu, heldur aðeins að halda geimförunum á lífi og við góða heilsu, bæði líkamlega og andlega.

Í Mercury og Gemini leiðöngrunum var maturinn aðallega fingramatur og maukaður matur í nokkurs konar tannkremstúbum sem menn kreistu beint upp í sig. Þetta dugði ágætlega í stuttum geimferðum en þegar leiðangrarnir urðu lengri, varð hins vegar að huga mun betur að næringargildi matarins en um leið, takmarka þyngd og rúmmál hans. Ekki mátti heldur taka of langan tíma og vera of erfitt að framreiða matinn.

Þyngdin var helsta vandamálið við matinn. Frá því að geimferðir hófust hafði NASA alltaf mestar áhyggjur af því, að draga sem frekast var úr þyngd geimfarsins. Ástæðan er sú að því minni þyngd sem flytja þarf út í geiminn, þeim mun minna eldsneyti þarf til að komast þangað.

Létta þurfti allt eins og frekast var unnt og var maturinn þar ekki undanskilinn. Einfaldasta leiðin til að draga úr þyngd matarins var að fjarlægja vatnið úr honum. Um það bil 80% af þyngd ferskra matvæla er enda vatn, svo með því að fjarlægja það, mátti draga verulega úr þyngd fæðunnar.

Vatn var fjarlægt úr matnum með því að frostþurrka hann, því sú aðferð varðveitti vel gæði fæðunnar, lit, áferð, bragð og næringargildi. Fyrst var maturinn hraðfrystur og síðan settur frosinn í lofttæmi. Við það þurrgufaði ísinn, það er að segja, breytist beint úr föstu formi í gas. Matnum var síðan komið fyrir i lofttæmdum umbúðum.

Þurrkaður matur hafði langt geymsluþol og var mjög léttur. Í Apollo geimfarinu var svo hægt að dæla heitu eða köldu vatni, sem var einmitt aukaafurð rafmagnsframleiðslu efnarafalanna, úr lítilli vatnsbyssu í gegnum lítið op á lofttæmdu plastpokunum. Pokinn var síða opnaður og maturinn borðaður með skeið.

Hver Apollo leiðangur hafði mismunandi markmið og ákváðu næringarfræðingar hvaða fæða yrði í boði út frá þörf hvers geimfara. Þannig var ekki það sama á boðstólnum á leiðinni til tunglsins og á tunglinu, því í tunglferjunni var ekki heitt vatn.

Fyrir geimferð fengu geimfararnir að smakka allt það sem í boði var og fengu svo að velja úr það sem þeim þótti best. Síðan útbjuggu næringarfræðingar NASA matseðil fyrir hvern dag til að tryggja að geimfararnir fengju alla nauðsynlega næringu. Geimförunum var einnig kennt að geyma mat, útbúa hann og ganga frá matarleifum og rusli.

Geimfararnir fengu þrjár máltíðir á dag: Morgunverð, hádegisverð og kvöldverð. Í Apollo 8, fyrstu tunglferðinni, fengu geimfararnir til dæmis litla beikonbita, eplamauk, jarðarberjabita, kakó, ristaða brauðteninga og appelsínusafa í morgunverð en baunasúpu, kjúkling í sósu, ostasamlokur, beikonbita og greipsafa í hádegisverð. Í kvöldverð fengu þeir rækjukokteil í forrétt, kjötkássu í aðalrétt og ristaða kanilbrauðbita og döðluköku í eftirrétt. Þessu skoluðu þeir niður með appelsínu- og greipsafa. Stundum fengu þeir sér líka kaffi.

Í leiðangri Apollo 8 var í fyrsta sinn prófuð ný tegund matar sem ekki var frostþurrkaður heldur venjulegur matur sem hafði verið sótthreinsaður og hitaður en síðan lokað í álpokum. Þótt þannig matur væri mun þyngri en frostþurrkaði maturinn, þá var hann bragðbetri og NASA var reiðubúið að létta mönnum lífið með slíkum matarpökkum.

Á jóladag árið 1968, þegar Apollo 8, hélt heim frá tunglinu, nutu geimfararnir jólamáltíðar sem samanstóð af kalkúni með fyllingu og sósu sem hafði verið komið fyrir um borð án þeirra vitundar. Deke Slayton, yfirmaður þeirra, hafði einnig smyglað örlitlu koníaki með sem þeir ákváðu þó að drekka ekki.

Allur maturinn var annað hvort borðaður sem þurr fingramatur eða bleyttur þurrkaður matur. Meira að segja drykkirnir voru á duftformi og blandaðir við vatn. Ávaxtadrykkurinn Tang var fundinn upp áður en menn fóru út í geiminn, en eftir að John Glenn tók nokkur bréf með sér út í geiminn, tengdu margir drykkinn við geimferðir. Sem minnir mig á aðra flökkusögu um geimferðir. NASA varði ekki milljónum dollara í að útbúa penna sem gat skrifað í geimnum á meðan Sovétmenn notuðu blýant. Einkaaðili fann upp geimpennann og bæði NASA og Sovétmenn notuðu hann eftir það. 

En aftur að matnum. Í hverjum leiðangri var nýr matur prófaður. Maturinn varð því smám saman fjölbreyttari og gæðin um leið meiri. Þrátt fyrir miklar framfarir í framreiðslu geimmatar, borðuðu fæstir geimfarar allan matinn sinn. Flestir komu léttari heim eftir tunglferðir, ekki aðeins vegna þess að maturinn var ekki eins og best verður á kosið, heldur þótti þeim óþægilegt að ganga örna sinna og borðuðu þess vegna minna.