Óríonítar

Loftsteinadrífa

  • Óríonítar
    Óríonítar. Mynd: Wikimedia Commons

Óríonítar er önnur tveggja loftsteinadrífa sem rekja má til halastjörnu Halleys. Hin er Eta Aquarítar sem sést í maí.

Þótt 22 milljónir km skilji brautir Jarðar og Halleys að þegar minnst er, verður Jörðin fyrir ögnum úr slóð halastjörnunnar sem hafa rekið inn að braut hennar með tíð og tíma. Það gerist mjög hægt svo Óríonítar er fremur gömul loftsteinadrífa. Elstu skráðu heimildirnar um hana eru frá Kína árið 288 e.Kr. Árið 1864 áttuðu menn sig fyrst á geislapunktum Óríoníta og hefur vel verið fylgst með drífunni síðan.

1. Hvar og hvenær sjást Óríonítar?

Óríon 22. október
Í október rís Óríon upp á himininn um miðnætti. Mynd: Stjörnufræðivefurinn/Stellarium

Óríonítar koma í raun úr nokkrum agnastraumum yfir Jörðina yfir nokkurra daga tímabil. Drífan hefur því í raun nokkra geislapunkta en allir eru þeir við kylfuna sem Óríon mundar á himninum, milli stjörnumerkisins Tvíburanna og stjörnunnar Betelgáss.

Í október er stjörnumerkið Óríon ekki komið upp fyrir sjóndeildarhring fyrr en upp úr miðnætti. Besti tíminn til að sjá Óríoníta er því ekki fyrr en síðla nætur, þegar Óríon er kominn nokkuð hátt á loft.

Óríonítar eru fremur daufir og hraðskreiðir og skilja því eftir sig skammlífar slóðir. Agnirnar rekast á lofthjúp Jarðar á um 68 km hraða á sekúndu (245.000 km hraða á klukkustund). Aðeins Leonítar í nóvember eru hraðfleygari.

Við góðar aðstæður er hægt að sjá nokkra tugi loftsteinahrapa á klukkustund. Áhugasamir verða því að gefa sér góðan tíma til að fylgjast með drífunni síðla nætur í kringum hámarkið.

Heimildir

  1. Kelly Beatty. Dark Skies for 2014's Orionid Meteor Shower. Sky and Telescope.com

- Sævar Helgi Bragason