Tunglið og Júpíter á morgunhimni 19. janúar

Sævar Helgi Bragason 18. jan. 2017 Blogg

Að morgni 19. janúar verður afar falleg samstaða tunglsins, Júpíters og stjörnunnar Spíku í suðvestri.

  • Jupiter-tunglid-19jan

Árrisulir ættu svo sannarlega að horfa til himins að morgni 19. janúar. Þá verður afar falleg samstaða tunglsins og Júpíters í suðvestri. Tunglið er hálft minnkandi.

Skammt sunnan við Júpíter er ljósblá og skær stjarna, Spíka, bjartasta stjarna meyjarmerkisins. Hún er nálægasta stjarnan við okkur sem getur sprungið. En engar áhyggjur, Spíka er í um 250 ljósára fjarlægð frá Jörðinni, alltof langt í burtu til að geta valdið okkur skaða.